Gunnar Ragnarsson er forsprakki Grísalappalísu sem hefur verið ein kröftugasta rokksveit landsins á síðustu árum. Tilvistarkreppa og angist ungra karlmanna hefur verið sveitinni hugleikin og framsækin textasmíð endurspeglast í eldfimri og óráðskenndri hljóðfæraspilun.
Árið 2004 fór hann fyrst á Airwaves, þá svo ungur að hann þurfti að fara í fylgd móður sinnar. „Mig langaði svo mikið að sjá The Shins, og fleiri sveitir, þannig að mamma mín þurfti að fá sérstakt leyfi frá skrifstofunni og fara með mér á tónleika. Það var svo spennandi að sjá allt þetta nýjasta indí-dót sem kom að utan,“ segir Gunnar og bætir því við að það sé liðin tíð að hann verði svo spenntur fyrir því hverjir eru að spila á Airwaves. Hann sé hins vegar þakklátur fyrir þau tækifæri og þá reynslu sem hann hefur fengið í gegnum þátttöku í Airwaves, en segist vera óviss um þá stefnu sem hún hafi tekið.
Ferillinn tók stökk eftir Airwaves
Áður var Gunnar í Jakobínurínu, en sú sveit vann Músíktilraunir árið 2005. Á þeim tíma voru meðlimir sveitarinnar allir í efstu bekkjum grunnskóla, ýmist í 9. eða 10. bekk, og óvissir um hvað framtíðin bæri í skauti sér.
Athugasemdir