Alþýðusamband Íslands er á móti því að ungt og tekjulágt fólk fái undanþágu frá fyrirhuguðu banni við verðtryggðum jafngreiðslulánum til lengri tíma en 25 ára. Þetta kemur fram í umsögn sambandsins við frumvarpsdrög fjármála- og efnahagsráðherra.
Um er að ræða eitt þeirra þingmála sem er ætlað að uppfylla loforð stjórnvalda í tengslum við lífskjarasamningana sem undirritaðir voru í vor, en VR og Verkalýðsfélag Akraness lögðu mikla áherslu á að tekin yrðu markviss skref til afnáms verðtryggingar.
Verðtryggð lán eru almennt með lægri greiðslubyrði en óverðtryggð og því vinsæll kostur á íbúðalánamarkaði. Með víðtækum undanþágum frá banninu vilja stjórnvöld tryggja að ungt fólk og tekjulágir geti áfram notið þeirrar lágu greiðslubyrði sem er á lengri verðtryggðum lánum.
ASÍ telur að ekki sé þörf á þessum undanþágum, enda hafi verið samið um annars konar úrræði fyrir fyrstu kaupendur að húsnæði, aðgerðir á borð við styrkingu leigumarkaðarins sem brýnt sé að ráðist verði í sem fyrst.
„Alþýðusambandið ítrekar því að þær undanþágur sem felast í frumvarpinu eru of miklar og krefst þess að þær verði allar felldar á brott sem lúta að húsnæðis- og neytendalánum til einstaklinga svo hægt sé að segja að stjórnvöld hafi staðið við sinn hluta Lífskjarasamningsins,“ segir í umsögn ASÍ.
Stytting hámarkslánstíma úr 40 í 25 mun hafa umtalsverð áhrif á greiðslubyrði verðtryggðra jafngreiðslulána. Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja, bendir á að miðað við algeng vaxtakjör í dag, 3,6 prósent, þýðir stytting lánstímans að greiðslubyrðin þyngist um tæp 29 prósent; mánaðargreiðsla af 10 milljóna láni hækki úr kr. 39.342 kr. í 50.601 kr. Um sé að ræða algengasta lánsformið og lánstímann, og bann við því myndi hafa „verulega neikvæð áhrif á getu almennings til að fjármagna íbúðarkaup, sérstaklega ungs fólks og tekjulægri hópa“ ef undanþáganna nyti ekki við.
Athugasemdir