Nýr seðlabankastjóri tók formlega við störfum í morgun eftir að Már Guðmundsson lauk tíu ára starfstímabili sínu.
„Blessaður seðlabankastjóri og velkominn,“ sagði Már við Ásgeir Jónsson, arftaka sinn í morgun. „Sælir,“ svaraði Ásgeir, áður en hann heilsaði aðstoðarseðlabankastjóra, Rannveigu Sigurðardóttur.
Már og Ásgeir grínuðust með að nú þyrfti nýr seðlabankastjóri að ná að lyfta gullforða ríkisins, ellegar hverfa frá. Gullforðinn er hins vegar geymdur erlendis, eða í Lundúnum, og vegur um tvö tonn.
„Þetta er eiginlega eina starfið sem hefði geta dregið mig út úr háskólanum,“ sagði Ásgeir síðar við fréttamenn.
Starf seðlabankastjóra hefur verið stormasamt. Þegar Már tók við sem seðlabankastjóri 20. ágúst árið 2009 voru meginvextir seðlabankans 9,5 prósent og höfðu staðið í 18 prósentum fimm mánuðum fyrr. Nú eru þeir aðeins 3,75 prósent.

Ásgeir Jónsson hefur undanfarin ár verið þekktur sem forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, en áður var hann meðal annars aðalhagfræðingur Kaupþings og forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings í aðdraganda efnahagshrunsins.
Tveir þingmenn Pírata hafa meðal annarra gagnrýnt skipan Ásgeir á þeim grundvelli að hann hafi verið lykilmaður og klappstýra Kaupþings banka í starfseminni fyrir efnahagshrunið. Ásgeir gagnrýndi meðal annars gagnrýnendur bankanna fyrir „hysteríu“ árið 2008, nokkru áður en bankarnir féllu.
Seðlabankastjóri er skipaður til fimm ára, að hámarki til tíu ára. Í núgildandi lögum er gerð sú krafa að hann sé menntaður í hagfræði eða tengdum greinum. Ásgeir skrifaði doktors um sveiflujöfnun yfir skamman tíma í litlu, opnu hagkerfi. Hann lauk doktorsprófi frá Indiana University í Bandaríkjunum með alþjóðafjármál, peningamálahagfræði og hagsögu sem aðalsvið.
Forveri Más Guðmundssonar í starfi var Svein Harald Øygard, sem skipaður var til bráðabirgða í febrúar 2009 eftir að Jóhanna Sigurðardóttir, þá forsætisráðherra, sendi Davíð Oddssyni seðlabankastjóra í reynd uppsagnarbréf, þar sem hún kynnti lagabreytingu sem myndi leggja niður stöðu hans. Davíð er lögfræðimenntaður og fyrrverandi forsætisráðherra til þrettán ára.
„Ég varð um tíma að halda símtólinu vel frá mér, svo æstur var hann,“ sagði Jóhanna um síðasta samtal hennar og Davíðs, í bók hennar Minn tími.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, skipaði Ásgeir í kjölfar þess að hann var metinnmeðal þeirra hæfustu af hæfisnefnd. Ásgeir er sonur fyrrverandi ráðherra Vinstri grænna, Jóns Bjarnasonar, en Jón yfirgaf flokkinn á sínum tíma.
„Við erum svolítið eins og hálfgerður klúbbur“
Ásgeir tekur við ágætu búi í sögulegu samhengi. Skuldir ríkisins eru í lágmarki, verðbólga er 3,1 prósent og stýrivextir sögulega lágir. Næsti vaxtaákvörðunardagur er miðvikudagurinn 28. ágúst næstkomandi.
Í samtali við Stöð 2 sagði Ásgeir að stýrivaxtalækkanir „gætu hæglega haldið áfram“ vegna fækkunar ferðamanna. „Við erum líka að sjá kjarasamninga sem ég tel að stuðli að stöðugleika í landinu og allt þetta undirbyggir frekari stýrivaxtalækkanir. En þetta veltur dálítið á því hvernig hagkerfið þróast. Ísland er svo lítið land og við erum svolítið eins og hálfgerður klúbbur þannig að hagkerfið er mjög fljótt að snúast.“
Athugasemdir