Fjörutíu sveitarfélög á Íslandi eru of fámenn samkvæmt nýjum viðmiðum um lágmarksíbúafjölda. Er það meira en helmingur allra sveitarfélaga, sem eru í heildina 72 talsins. Sveitarfélög munu fá fjárhagslegan stuðning til sameiningar.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur birt tillögu sína til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033. Samkvæmt henni verður stefnt að innleiðingu lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga á tímabilinu. Lagt er til að lágmarksíbúafjöldi verði 250 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2022 en 1000 frá kosningum árið 2026.
Samkvæmt mannfjöldatölfræði Hagstofunnar eru 14 sveitarfélög á Íslandi með færri íbúa en 250 manns. Þar af eru sjö með færri en 100 íbúa. Fámennast er Árneshreppur með 40 íbúa, en fjölmennast í þessum hópi er Ásahreppur með 248 íbúa. Nái þingsályktunartillagan fram að ganga munu þessi sveitarfélög þurfa að sameinast öðrum eða fjölga íbúum með öðrum hætti fyrir kosningar árið 2022.
Önnur 26 sveitarfélög eru með á milli 250 og 1000 íbúa. Meðal þeirra fjölmennustu eru Vesturbyggð, Bolungarvík og Blönduóssbær. Munu þessi sveitarfélög þurfa að grípa til aðgerða fyrir sveitarstjórnarkosningar árið 2026.
Samstaða var um það í starfshópi ráðherra að koma á lágmarksíbúafjölda. „Það er sameiginleg niðurstaða að til þess að ná því markmiði að efla sveitarstjórnarstigið og gera sveitarfélögin að enn sjálfbærari þjónustu- og rekstrareiningum þurfi að fækka þeim,“ segir í greinargerð með tillögunni. „Skiptar skoðanir voru um það í starfshópnum og meðal þeirra sem tóku þátt í samráðinu hver þessi tala ætti að vera, sjónarmið komu fram um að hún væri allt of lág, en niðurstaðan varð sú að þessi einstaka aðgerð myndi engu að síður hafa mikil áhrif.“
Aðeins 30 sveitarfélög árið 2026
Nái tillagan fram að ganga verða því aðeins um 30 sveitarfélög á landinu öllu árið 2026. Búist er við talsverðum hagrænum áhrifum af sameiningunni. Samkvæmt tillögunni mun reglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verða breytt til að tryggja aukinn stuðning við sameiningar sveitarfélaga og heildarendurskoðun á Jöfnunarsjóði fyrir árið 2022.
„Allt að 15 milljarðar gætu farið í þennan stuðning á tímabilinu, þ.e. fram til ársins 2026 er 1.000 íbúamarkið tekur gildi og í allt að sjö ár eftir það, sem væri endanlegur útgreiðslutími,“ segir í greinargerð með tillögunni. „Nefndin leggur til að sjóðurinn fái heimild strax á árinu 2020 til að hefja söfnun í sjóð sem mætir þessum kostnaði, auk þess sem reglur um framkvæmd stuðnings yrðu endurskoðaðar í heild sinni.“
Athugasemdir