Jón Jacobsson eða einfaldlega Jakobsson var sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu á ofanverðri 18. öld og fram á þá 19. Hann lýsti einu sinni eftir strokumanni sem Björn hét.
„Björn er um 60tugs aldur, með hærri mönnum, en í grennra lagi á þeim vexti, dökkjarpur á hár og skegg, með slétt hár liðalaust, situr vel á öxlum, og liggur niður um gagnaugun.
Hann er langleitur í andliti, skinndökkur, réttnefjaður og meðal varaþunnur, lotinn á háls og herðar, luralega vaxinn, fótahár, lendamikill og ganga mjög til mjaðmirnar, þá [hann] gengur.
Ólesandi.
Brúkar mikið tóbak í munninn og talar um það gjarnan, digurrómaður, í hærra lagi talandi, og stamar mjög við, einkum þá ógeðfellt til orða tekur, viprar þá vörum og breytir ýmislega röddinni, hnykkir höfðinu áfram og teygir hálsinn sem hann kyngi.
Segir þá gjarnan: Ty jaa jaa, hvar gjarnan eftir því sem við hann er talað, með afturmunni, og bætir við: Hvað sagðerðu?
Snýr að þeim baki er hann talar við, potar oft úr tönnum sér og spýtir á hlið við sig, þakkar og kveður með þessum orðum tví- og þvíteknum: Guðlaun fyrir, guðlaun fyrir góðgerðirnar.
Umbiðjast kónglegrar majestates sýslumenn, að láta taka nefndan Björn, hvar hittast kann, og foranstalta hann til Eyjafjarðarsýslu undir forþént staff færður verði.“
Eins og Guðmundur Finnbogason benti á:
„Hér sést að sýslumaður ritar rammíslenskt mál, þegar hann talar um alþýðlegt efni, en verður dönskuskotinn þegar hann fer að tala í embættisins nafni.“
Athugasemdir