Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri er einn umsækjenda um stöðu Þjóðleikhússtjóra en umsóknarfrestur um stöðuna rennur út í dag. Magnús Geir tilkynnti starfsfólki Ríkisútvarpsins þetta í morgun.
Magnús Geir segir í tölvupósti til starfsfólks að hann sé ótrúlega stoltur af þeim árangri sem náðst hafi á síðustu misserum í rekstri Ríkisútvarpsins. „Þrátt fyrir að vera ánægður í starfi og að allt gangi hér vel, þá á leikhúsið samt alltaf rosalega stóran sess í hjarta mínu,“ skrifar Magnús Geir um leið og hann tilkynnir að hann hafi sóst eftir starfi Þjóðleikhússtjóra sem skipað verður í frá og með næstu áramótum.
„Ég trúi því að ég hafi heilmikið fram að færa í það starf og mig langar mikið að fá aftur að taka þátt í leikhústöfrunum. Þá hef ég að undanförnu fengið hvatningar frá leikhúsfólki sem ég tek mark á og þykir vænt um,“ skrifar Magnús Geir einnig og bætir við að hann voni að samstarfsfólk hans skilji og virði ákvörðunina.
Magnús Geir er leikhúsfræðingur frá University of Wales og stýrði Leikfélagi Akureyrar á árunum 2004 til 2008. Þá tók hann við stöðu leikhússtjóra Borgarleikhússins sem hann stýrði allt þar til hann tók við stöðu útvarpsstjóra árið 2014.
Viðbót kl. 13:00
Kristín Eysteinsdóttir borgarleikhússtjóri hefur einnig sótt um stöðu Þjóðleikhússstjóra. Þá er Ari Matthíasson, núverandi leikhússtjóri, á meðal umsækjenda.
Athugasemdir