Forsætisnefnd Alþingis telur að of langt sé gengið í gagnsæisátt í frumvarpi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um útvíkkun á gildissviði upplýsingalaga.
Frumvarp ráðherra var samið af starfshópi ríkisstjórnarinnar um umbætur á löggjöf er varðar tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingarfrelsi og felur meðal annars í sér að efnisákvæði upplýsingalaga verða látin ná til Alþingis og þess hluta starfsemi dómstóla sem ekki felur í sér meðferð einstakra dómsmála. Þá er mælt fyrir um að ráðuneyti skuli birta almenningi upplýsingar úr málaskrám sínum með rafrænum hætti auk þess sem komið verði á fót sérstöku starfi ráðgjafa um upplýsingarétt almennings sem vinni að bættri upplýsingagjöf stjórnvalda.
Forsætisnefnd Alþingis hefur, í samráði við ríkisendurskoðanda og umboðsmann Alþingis, lagt til að upplýsingalög verði aðeins látin ná yfir stjórnsýslu Alþingis en ekki aðra starfsemi þess. Þá skuli vera hafið yfir allan vafa að stofnanir Alþingis, umboðsmaður Alþingis, Ríkisendurskoðun og rannsóknarnefndir séu undanþegnar gildissviði upplýsingalaga.
Steingrímur J. Sigfússon sendi nýlega stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd erindi vegna málsins þar sem þessi afstaða forsætisnefndar er áréttuð. Fram kemur að með því að takmarka þannig gildissvið upplýsinga vilji forsætisnefnd „varðveita sjálfstæði þessara stofnana þingsins m.a. frá framkvæmdarvaldinu og þeim reglum sem gilda um starfsemi þess“.
SA vilja gera erfiðara
að nálgast „gögn sem geta varðað einkahagsmuni“
Umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um frumvarp forsætisráðherra og gildissvið upplýsingalaga hefur ekki aðeins kallað á viðbrögð frá forsætisnefnd þingsins heldur einnig orðið tilefni athugasemda frá Samtökum atvinnulífsins (SA), stærstu hagsmunasamtökum fyrirtækjarekenda á Íslandi.
SA hvetja Alþingi til að breyta upplýsingalögum til að „tryggja rétt einkaaðila við afgreiðslu upplýsingabeiðna, hjá þeim sem falla undir upplýsingalögin“. Til að mynda vilja SA að þeir sem óska eftir upplýsingum frá hinu opinbera verði skyldaðir til að „tiltaka tilgang beiðninnar“ auk þess sem stjórnvöld verði látin eiga samráð við einkaaðila áður en veittur er aðgangur að „gögnum sem geta varðað einkahagsmuni“ þeirra. Stungið er upp á ýmsum nýjum ákvæðum til að verja réttindi einkaaðila sem hafa hagsmuni af því að upplýsingar á vegum hins opinbera fari leynt.
Athugasemdir