Alcoa Fjarðaál, Norðurál á Grundartanga og Icelandair eru þau einstöku fyrirtæki sem ollu mestri losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2018. Þetta kemur fram í gögnum sem eru aðgengileg á upplýsingavef Evrópusambandsins um útblástur sem fellur undir ETS-viðskiptakerfið með losunarheimildir.
Fyrirtækin þrjú losuðu hvert um sig meira en 500 þúsund tonn koltvísýringsígilda á árinu. Aðrir stórir mengunarvaldar voru Elkem Ísland, sem rekur kísilverið á Grundartanga, Rio Tinto Alcan, sem rekur álverið í Straumsvík og flugfélagið WOW air sem nú er farið í þrot.
Kísilver PCC á Bakka var gangsett í fyrra og losaði alls 50.402 tonn af CO2. Samkvæmt mati á umhverfisáhrifum PCC er áætlað að árleg losun gróðurhúsalofttegunda frá kísilverinu verði um 181.500 tonn CO2-ígilda á ári í fyrsta áfanga og tvöfalt meiri þegar annar áfangi hefur verið tekinn í notkun, eða 363.000 tonn CO2-ígilda á ári. Fram kemur í samantekt Umhverfisstofnunar að losun í iðnaði hafi aukist lítillega milli ára, úr 1.831.667 tonnum af CO2 árið 2017 í 1.854.715 tonn af CO2 árið 2018.
Þá er áætlað að heildarmagn losunar í kísilveri Thorsil verði 396.000 tonn CO2-ígilda á ári miðað við full afköst fyrsta áfanga samkvæmt vöktunaráætlun vegna ETS-kerfisins og tvöfalt meira eftir að seinni áfangi verður kominn í rekstur, eða 792.000 tonn.
Þannig mun losun frá stóriðju aukast verulega næstu árin, að stórum hluta vegna stóriðjuverkefna sem ýtt var úr vör í stjórnartíð þeirra flokka sem skipa núverandi ríkisstjórn. Til að mynda má ætla að kísilver PCC á Bakka, sem samþykkt var að reisa með milljarða ívilnunum frá hinu opinbera í stjórnartíð Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, verði einn stærsti mengunarvaldurinn á sviði iðnaðar næstu árin.
Athugasemdir