Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Vilja að konur verði þvingaðar til að ganga með fötluð fóstur

Þing­menn Mið­flokks­ins, Flokks fólks­ins og einn úr Sjálf­stæð­is­flokkn­um vilja þrengja veru­lega rétt kvenna til að gang­ast und­ir þung­un­ar­rof frá því sem nú er. Stund­in rýndi í nefndarálit, breyt­ing­ar­til­lög­ur og at­kvæða­hegð­un þing­manna frá 3. maí síð­ast­liðn­um og skoð­aði hvernig rétt­ar­staða þung­aðra kvenna myndi breyt­ast ef vilji íhalds­söm­ustu þing­manna næði fram að ganga.

Þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins vilja að réttur kvenna til að gangast undir þungunarrof verði þrengri en hann er samkvæmt núgildandi lögum um fóstureyðingar.

Þetta er ljóst af nefndarálitum fulltrúa flokkanna í velferðarnefnd, breytingartillögum þeirra og atkvæðahegðun þingmanna eftir aðra umræðu um frumvarp heilbrigðisráðherra til laga um þungunarrof á Alþingi þann 3. maí síðastliðinn.

Þriðja umræðan um þetta hitamál stendur nú yfir á þinginu en lokaatkvæðagreiðslu var frestað til næsta þingfundar.

Inga Sæland og Guðmundur Ingi Kristinsson úr Flokki fólksins auk Karls Gauta Hjaltasonar úr Miðflokknum hafa tekið íhaldssömustu afstöðuna í þungunarrofsmálinu en öll greiddu þau atkvæði með breytingartillögu þess efnis að heimild til þungunarrofs miði við aðeins 12 vikur „nema fyrir hendi séu ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar sé stefnt í meiri hættu með lengri meðgöngu og/eða fæðingu“. 

Ef lögum yrði breytt með þeim hætti sem þingmennirnir leggja til má ætla, miðað við opinberar tölur um fóstureyðingar, að á hverju ári yrðu tugir kvenna látnir ganga með og fæða barn gegn vilja sínum. Slík kvöð yrði óháð félagslegum aðstæðum og lögð á konur þótt ólétta stafaði t.d. af nauðgun eða sifjaspelli.

Þótt barn hefði greinst með alvarlega fötlun mætti kona ekki gangast undir þungunarrof nema ef ljóst væri að áframhaldandi þungun stefndi lífi hennar í hættu eða fóstur teldist ekki lífvænlegt til frambúðar. Þannig yrði íslenska löggjöfin íhaldssamari en fóstureyðingarlöggjöf á hinum Norðurlöndunum og víða í Evrópu.

Tillaga Miðflokksins myndi bitna á færri konum

Anna Kolbrún Árnadóttir, fulltrúi Miðflokksins í velferðarnefnd, lagði til í nefndaráliti sínu um málið a þungunarrof yrði aðeins heimilt til loka 18. viku eins og upphaflega var gert ráð fyrir í frumvarpsdrögum heilbrigðisráðherra.

Slík breyting hefði í för með sér að konur sem samkvæmt núgildandi lögum gætu gengist undir þungunarrof vegna fósturvandamála sem greind eru seint yrði meinað um slíka aðgerð.

Félag íslenskra fæðingar- og kvensjúkdómalækna gagnrýndi upphafleg frumvarpsdrög einmitt á þeim forsendum og benti á að með 18 vikna tímamarkinu yrði lokað fyrir möguleika kvenna til að enda meðgöngu eftir að fóstur greinist með galla eins og vatnshöfuð, klofinn hrygg, litningafrávik og hjartagalla en er þó talið lífvænlegt.  

Landspítalinn og Ljósmæðrafélag Íslands gerðu sams konar athugasemdir, en á undanförnum árum hafa á bilinu 7 til 10 konur á ári rofið þungun vegna galla sem greindust við 20 vikna fósturgreiningu. 

Breytingartillaga sem Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fram í dag felur í sér 20 vikna tímamark og gerir þannig ráð fyrir að kona sem greinist með fósturvandamál í 20 vikna fósturgreiningu ákveði nær umsvifalaust hvort hún vilji eiga barnið. 

Ráðherrar sátu hjá

Athygli vakti þegar þrír ráðherrar, þau Bjarni Benediktsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Lilja Alfreðsdóttir, sátu hjá í atkvæðagreiðslu um umdeildasta ákvæðið í frumvarpi heilbrigðisráðherra, því er veitir konum skilyrðislausan rétt til þungunarrofs allt til loka 22. viku. 

Auk ráðherranna þriggja sátu fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins hjá, þeir Haraldur Benediktsson, Jón Gunnarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason og Páll Magnússon. Þannig hefur ákvæðið stuðning frá minnihluta þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

Alls lögðust 10 þingmenn gegn ákvæðinu, Ásmundur Friðriksson úr Sjálfstæðisflokknum, Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Þórarinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson úr Miðflokknum og Guðmundur Ingi Kristinsson og Inga Sæland úr Flokki fólksins. 

Óli Björn Kárason kallaði eftir því í atkvæðaskýringu sinni að velferðarnefnd tæki málið aftur til umfjöllunar og gerði „tilraun til þess að skapa víðtækari sátt í jafn viðkvæmu máli og hér um ræðir“. Ljóst er að nú þegar hafa sex nefndarmenn úr fimm flokkum, auk áheyrnarfulltrúa úr sjötta flokknum, náð sátt um frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra með lítillegum breytingum. Af orðum Óla Björns má ráða að hann vilji að sjónarmið þeirra sem vilja þrengja rétt kvenna til þungunarrofs frá því sem nú er fái meira vægi við meðferð málsins á Alþingi. 

Í dag lögðu þau Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Anna Kolbrún Árnadóttir úr Miðflokknum fram nýjar breytingartillögur, annars vegar um að miðað yrði við 20 vikna tímamark og hins vegar 18 vikna tímamark. Anna Kolbrún dró síðan tillögu sína til baka en áður hafði hún lýst sömu skoðun í nefndaráliti. 

Kröfur um að þriðju umræðu um þungunarrofsfrumvarpið yrði frestað vegna breytingartillagna vöktu hörð viðbrögð þingmanna, en þingforseti féllst á að fresta atkvæðagreiðslu um málið. Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, var heitt í hamsi þegar rætt var um málið og sakaði þingheim um að vilja „taka hér ákvörðun um það að 22 vikna ófullburða barn verði drepið í móðurkviði“.  

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár