European Security Academy Iceland heldur kynningarfund um námskeið í vopnaburði, öryggisgæslu og skyldum verkefnum á Grand Hotel í Reykjavík næstkomandi laugardag.
Einhverjir þeirra sem sækja fundinn vilja nýta sér námskeiðið til að verjast straumi innflytjenda sem hingað koma, samkvæmt fullyrðingum þeirra við Stundina.
Stærsti herskóli Evrópu
European Security Academy, eða ESA, er stærsti öryggis- og herskóli í Evrópu. Á heimasíðu ESA kemur fram að herskólinn hefur þjálfað yfir fimm þúsund konur og karla frá sextíu og átta löndum, þar á meðal nokkra Íslendinga. ESA býður upp á námskeið sem ætluð eru einstaklingum sem koma á eigin vegum, starfsmönnum öryggisfyrirtækja og stjórnvöldum í ýmsum löndum. Á Facebook-síðu ESA kemur fram að námskeið þeirra krefjist ekki neinnar fyrri reynslu í vopnaburði eða öryggisgæslu.
Þeir sem hafa skráð sig á viðburðinn á Facebook hafa mismunandi ástæður til að sækja kynningarfundinn. María Magnúsdóttir, stjórnarmeðlimur Frelsisflokksins, segist sækja fundinn í þeirri von að læra að verja sig ef til átaka kemur vegna straums innflytjenda og flóttamanna til landsins.
Aðspurð hvernig Maríu hafi frétt af téðum fundi svarar hún að Guðmundur Sigurfreyr Jónasson hafi sent henni skilaboð um hann. Á Facebook-síðu Sigurfreys kemur fram að hann hafi umsjón með Facebook-síðu samtakanna Vakur, sem titla sig samtök um evrópska menningu. Sigurfreyr tilheyrir einnig hópi útibús ESA á Íslandi, að því er kemur fram á Facebook-síðu hópsins. Sigurfreyr var einn af þremur fyrstu meðlimum hópsins. Til annarra meðlima þess hóps má telja Guðmund Þorleifsson, formann Íslensku þjóðfylkingarinnar og Helga Helgason varaformann.
Stundin hefur heimildir þess efnis að Sigurfreyr biðji fólk sem hyggst sækja kynningarfundinn að svara ekki blaðamanni. Sömuleiðis hefur Sigurfreyr gert það ljóst að blaðamanni verði vísað á dyr ætli hann sér að mæta á kynningarfundinn.
Í skilaboðum frá ESA kom fram að DV hefði fengið einkarétt á því að fjalla um kynningarfundinn. Fundurinn var kynntur í frétt á DV.is fyrir skemmstu. „Við lofuðum DV einkabirtingu (exclusive) á umfjöllun umfjöllun um kynningarfund ESA, sem þeir hafa þegar birt,“ segir í svari European Security Academy til Stundarinnar.
Segist búa sig undir yfirtöku íslams
Aðspurð um hvað vakti áhuga Maríu á kynningarfundinum talar hún um ástandið sem ríki að hennar mati í Evrópu.
Maríu finnst Evrópa illa farin af innflytjendum og „pólitískri yfirtöku íslams“ eins og hún orðar það, án þess að útskýra nánar hvað hún á við með því. „Ég horfi út í Evrópu og sé hvernig löndin eru illa farin,“ segir hún.
María kallar leiðtoga í Evrópu gungur og segir að almenningur sé búinn að fá nóg. „Almenningur í Evrópu er mjög þreyttur. Hann vill löndin sín til baka. Almenningur vill halda sinni menningu og sínu þjóðríki og sérkennum þess og einkennum. En hnattvæðing í dag er að vaða yfir allt og alla,“ segir María.
Að sögn Maríu á það sama við um Ísland. Hún telur íslensk stjórnvöld vera „gungur“ og telur sömuleiðis að eina fólkið sem þori að tala á Íslandi séu litlir flokkar sem eru í þann mund að rísa upp. „Það er Frelsisflokkurinn, Íslenska þjóðfylkingin og jú, og svo Miðflokkurinn,“ segir María.
Í byrjun janúar 2018 hafði innflytjendum á Íslandi fjölgað um tvö prósent á einu ári, eða úr 10,6 prósentum í 12,6 prósent íbúa. Langflestir innflytjendur á Íslandi koma frá Póllandi, eða um 40 prósent. Næststærsti hópurinn eru karlar sem koma frá Litháen og Lettlandi til að vinna hér á landi, eða um 5 prósent. Síðan er það fólk frá Filippseyjum sem leitar hingað til lands. Þessi hópur hefur haft gott aðgengi að vinnumarkaði, er almennt í stéttarfélögum og býr við áþekk gæði og öryggi og aðrir. Þeir mæta hins vegar hindrunum við að sækja sér menntun, fá síður störf við hæfi, búa við þrengri húsnæðiskost og verri fjárhagsstöðu en innlendir íbúar.
Athugasemdir