Icelandair keypti ekki öryggisbúnað í Boeing 737 MAX vélar sínar sem seldur var aukalega. Þetta herma heimildir Stundarinnar. Skortur á slíkum búnaði er talinn tengjast því að tvær vélar af þessari gerð hafa hrapað á undanförnum mánuðum og á fjórða hundrað manns látist.
Boeing hefur rukkað flugfélög aukalega fyrir öryggisbúnaðinn, en fyrirtækið hefur lýst því yfir að hann verði staðalbúnaður héðan í frá þegar hugbúnaðaruppfærsla verður tilbúin. Sum lággjaldaflugfélög hafa því sleppt að kaupa hann vegna kostnaðar.
Tvær vélar af gerðinni Boeing 737 MAX hafa brotlent á undanförnum mánuðum. Ein hrapaði 29. október 2018 við Indónesíu og létust allir um borð, 189 manns. Hin hrapaði í Eþíópíu 10. mars með 157 manns um borð og lifði enginn af. Hvorug vélanna var með þennan öryggisbúnað.
Icelandair á þrjár vélar af gerðinni Boeing 737 MAX sem bera nöfnin Dyrhólaey, Jökulsárlón og Látrabjarg. Allar voru kyrrsettar 12. mars eftir flugslysið í Eþíópíu. Icelandair bætir sex slíkum vélum við flotann á vormánuðum.
Fjöldi flugfélaga hefur tilkynnt að öryggisbúnaðurinn sé í vélum þeirra. Meðal þeirra flugfélaga eru American Airlines og Southwest Airlines.
Athugasemdir