Óðinn Jónsson, einn umsjónarmanna Morgunvaktarinnar á Rás 1 og fyrrverandi fréttastjóri RÚV hefur sagt upp störfum á Ríkisútvarpinu eftir ríflega 32 ára starf. Þetta staðfestir Óðinn við Stundina.
Hann segist munu hætta í blaðamennsku og fjölmiðlum og hefja störf sem ráðgjafi hjá almannatengslafyrirtækinu Aton með hækkandi sól. Um ástæður þess að Óðinn hefur sagt upp vill hann ekki tjá sig frekar.
Óðinn hóf störf við dagskrárgerð hjá Ríkisútvarpinu árið 1982 og varð fastráðinn fréttamaður árið 1987. Hann vann sem fréttamaður Ríkisútvarpsins á Norðurlöndunum á árunum 1994 til 1996 en kom heim árið 1996 og tók við starfi þingfréttamanns útvarps. Því starfi gengdi hann til ársins 2002.
Árið 2005 varð hann fréttastjóri fréttastofu útvarps og fréttastjóri RÚV frá sameiningu fréttastofa útvarps og sjónvarps árið 2008 og til 2014. Frá þeim tíma hefur hann starfað sem fréttamaður og síðar dagskrárgerðarmaður.
Athugasemdir