Stjórnarandstaðan gæti misst einn af þremur formönnum sínum í fastanefndum Alþingis en þingflokksformenn ríkisstjórnarflokkanna hafa nú til skoðunar að skipta Bergþóri Ólasyni, þingmanni Miðflokksins, út sem formanni umhverfis- og samgöngunefndar fyrir Jón Gunnarsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins og fyrsta varaformann nefndarinnar.
Bylgjan greindi frá þessu í hádeginu og hafði eftir Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, þingflokksformanni Vinstri grænna, að farið gæti svo að Ari Trausti Guðmundsson yrði fyrsti varaformaður nefndarinnar og Bergþór annar varaformaður.
Bergþór settist aftur á þing í lok janúar eftir að hafa tekið sér leyfi í kjölfar þess að Stundin og DV birtu upptökur af svívirðingum sem hann lét frá sér í drykkjusamsæti með fleiri þingmönnum. Meðal þess sem Bergþór heyrðist segja var að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, væri „húrrandi klikkuð kunta“, að Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum væri „miklu minna hot í ár en hún var bara fyrir tveimur árum“, að Albertína Elíastdóttir, þingkona Samfylkingarinnar hefði reynt að nauðga sér, að hann vildi „ríða“ Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra og hún væri „skrokkur sem typpið á mér dugði í“ auk annarra ógeðfelldra ummæla um konur og kollega sína.
Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, tjáir sig um nýjustu vendingar á Facebook og segir að stjórnarandstaðan hafi lagt til að Miðflokkurinn myndi einfaldlega velja annan úr sínum hópi sem formann umhverfis- og samgöngunefndar.
„Forysta Miðflokksins virðist hins vegar ekki treysta þeim Þorsteini Sæmundssyni, Birgi Þórarinssyni og Sigurði Páli til verksins. Til að leysa þetta leggja stjórnarflokkarnir til þrjá karla í stjórn nefndarinnar, þar af áfram þann sem enginn þarna treystir til að stýra fundi,“ skrifar hún. Hér ber að taka fram að nefndinni er nú þegar stýrt af þremur körlum, þessum sömu með annarri uppröðun.
„Af hverju leggja þau til Jón Gunnarsson? Jú af því að Miðflokkurinn styður Jón Gunnarsson og það virðist vera gagnkvæm virðing á milli þeirra. Þessi ákvörðun um að veita Miðflokki dagskrárvaldið hér þykir mér afskaplega áhugaverð. Meirihlutinn ræður, þess vegna er það ríkisstjórnarflokkanna að taka ákvörðun í málinu og þetta er þeirra tillaga að lausn skv. þingflokksformanni VG.“
Athugasemdir