Kaþólska kirkjan á Íslandi leggst eindregið gegn frumvarpi Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra til nýrra heildarlaga um þungunarrof. „Við berum virðingu fyrir lífinu frá getnaði til grafar,“ skrifar David B. Tencer, Reykjavíkurbiskup Kaþólsku kirkjunnar, í umsögn sinni um frumvarpið.
Í frumvarpi ráðherra er lagt til, í samræmi við tillögur ljósmæðra og fæðingarlækna, að þungunarrof verði leyft fram að 22. viku meðgöngu. Markmið laganna er að tryggja konum sjálfsforræði og fullt ákvörðunarvald um hvort þær ala barn fram að þessum tíma, óháð því hvað liggur að baki ákvörðuninni. Eftir lok 22. viku þungunar verður samkvæmt frumvarpinu heimilt að framkvæma þungunarrof ef lífi þungaðrar konu er stefnt í hættu við áframhaldandi þungun eða ef fóstur telst ekki lífvænlegt til frambúðar.
Í umsögn sinni um frumvarp heilbrigðisráðherra varpar David B. Tencer Reykjavíurbiskup fram eftirfarandi spurningu: „Er ekki kominn tími tími til að stöðva þennan heimsfaraldur sem hefur á síðustu 20 árum eytt um það bil jafnmörgum á Íslandi og þeim sem búa á Akureyri og nærsveitum?“
Guðmundur Örn Ragnarsson, prestur og forstöðumaður Samfélags trúaðra, er sama sinnis. Raunar telur hann réttast að lagt verði fram „frumvarp til laga um algjört bann við drápum barna í móðurkviði“.
Í umsögn Silju Báru Ómarsdóttur stjórnmálafræðings og Steinunnar Rögnvaldsdóttur kynjafræðings kveður við annan tón. Þær benda á að frumvarpið samræmist tillögum nefndar um endurskoðun á núverandi lögum og áliti kvennasviðs Landspítala.
„Árlega nýta um þúsund konur hérlendis sér þessa löglegu, öruggu og mikilvægu þjónustu. Meginbreytingin sem felst í frumvarpi þessu er að konur munu upplifa að þær sjálfar geti tekið ákvarðanir um framtíð sína, á eigin forsendum,“ skrifa þær. „Á tímum þar sem bakslag gegn kvenfrelsi og takmarkanir á frjósemisréttindum kvenna hafa gert vart við sig víða um heim, er það mikils virði að Ísland taki þetta löngu tímabæra skref í átt að kvenfrelsi.“
Athugasemdir