Hætt var að innheimta komugjöld af öryrkjum og öldruðum í heilsugæslu og hjá heimilislæknum þann 1. janúar síðastliðinn, samkvæmt ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, að því er fram kemur á vef velferðarráðuneytisins. Þar kemur jafnframt fram að þar gildi jafnt hvort sem um er að ræða komu á dagvinnutíma eða á öðrum tímum sólarhringsins. Þá var gjald fyrir vitjanir lækna til aldraðra og öryrkja einnig fellt niður.
„Þetta er mikilvæg aðgerð og liður í stefnu stjórnvalda um að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu og auka á móti framlög hins opinbera. Þetta er einnig í samræmi við þá áherslu að efla hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar fólks í heilbrigðiskerfinu“ er haft eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í tilkynningunni. Á vef Öryrkjabandalags Íslands er ráðherrann hvattur til að beita sér fyrir því að kostnaður við sálfræðimeðferð verði einnig felldur inn í heilsugæsluna og að aðgengi að þeirri mikilvægu þjónustu verði aukið til muna.
Athugasemdir