Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Með þrjár háskólagráður og í fullu starfi en samt í fjárhagslegum nauðum

Móð­ir í fullu starfi, sem er með þrjár há­skóla­gráð­ur, er að bug­ast á ís­lensk­um leigu­mark­aði sem hún seg­ir að sé að murka úr henni líf­ið. Guð­rún Ág­ústa Ág­ústs­dótt­ir, miss­ir leigu­íbúð sína á vor­mán­uð­um og íhug­ar að flytj­ast í ósam­þykkt iðn­að­ar­hús­næði eða úr landi. Hún furð­ar sig á að­gerð­ar­leysi stjórn­valda.

Guðrún Ágústa Ágústsdóttir, einstæð móðir sem starfar sem ráðgjafi hjá SÁÁ, segir íslenskan leigumarkað vera að murka úr sér lífið hægt og rólega. Hún og fimmtán ára sonur hennar þurfa enn og aftur að flytja sig um set eftir að leigusamningi þeirra var nýlega sagt upp. Guðrún Ágústa, sem er uppeldis- og menntunarfræðingur að mennt og með þrjár háskólagráður, hefur verið á leigumarkaði síðustu tólf árin en hún segir ástandið aldrei hafa verið jafn slæmt og nú. Hún teljist heppin ef hún finni þriggja herbergja íbúð fyrir 250 þúsund krónur á mánuði. Slíkt dæmi gangi hins vegar engan veginn upp þar sem hún sé ekki með nema um 300 þúsund krónur í mánaðarlaun eftir skatt. Guðrún hefur velt því fyrir sér hvort hún þurfi mögulega að finna sér íbúð í ósamþykktu iðnaðarhúsnæði en það sé eitthvað sem hún vilji helst ekki gera syni sínum.

Mæðginin hafa búið í þriggja herbergja íbúð í Kópavogi síðastliðin tvö ár og telur Guðrún sig heppna að hafa einungis verið að greiða 180 þúsund krónur í leigu. Hún geti hins vegar ekki hugsað þá hugsun til enda hvað gerist þurfi hún að reiða fram tugþúsundum meira í leigu á mánuði. Henni var því allri lokið þegar henni barst tilkynning frá leigusala sínum þann 4. desember síðastliðinn um að hann hygðist setja íbúðina sína á sölu og þyrfti því að segja upp leigusamningnum. Guðrún brást við með því að skrifa stöðufærslu á Facebook sem fengið hefur mikla dreifingu, en þar lýsti hún meðal annars yfir furðu á aðgerðarleysi stjórnvalda í húsnæðismálum og spurði hvers vegna fólk í hennar stöðu fengi ekki lán til íbúðarkaupa þegar ljóst væri að það hefði staðið undir himinhárri leigu til þessa.

Stundin ræddi við Guðrúnu Ágústu á heimili þeirra mæðgina í Kópavogi en hún segist hafa stigið fram vegna þess að hún hafi engu að tapa lengur. Henni virðist sem menntun og/eða vinnusemi hafi ekkert að segja á Íslandi dagsins í dag. Fólk eins og hún sé einfaldlega dæmt til eilífrar fátæktar og þess vonleysis sem henni fylgir. Hún íhugar að flytja til Noregs þar sem hún fengi mun hærri tekjur fyrir sambærileg störf auk þess sem leigumarkaðurinn þar í landi lýtur manneskjulegri lögmálum. Henni finnst hins vegar sárt að neyðast ef til vill til þess að flýja eigið heimaland með þessum hætti og hefur áhyggjur af því að það yrði til þess að hún myndi fjarlægjast son sinn sem vill ekki flytja úr landi.

„Hann er það eina sem ég á“

„Mig langar bara að geta séð fyrir mínu barni og mig langar bara að eiga heimili en þetta þjóðfélag er bara að drepa mann,“ segir Guðrún Ágústa, sem bendir á að það versta sem hún geti hugsað sér í lífinu sé að þeim mæðginum verði tvístrað. Það geti þó vel farið svo sjái hún sér ekki annað fært en að flytja úr landi, þar sem drengurinn myndi helst vilja búa áfram á Íslandi. „Það er auðvitað allt í lagi að hann búi hjá pabba sínum og ég er ekkert að setja út á það,“ segir Guðrún sem tekur fram að það sé hins vegar þyngra en tárum taki að finna sig í þeirri stöðu að neyðast mögulega til þess að flytjast búferlum út fyrir landsteinana vegna þeirrar vonlausu stöðu sem uppi er á íslenskum leigumarkaði, og fjarlægjast um leið son sinn. „Ég meina, hann er það eina sem ég á.“

„Þetta þjóðfélag er bara að drepa mann“ 

Stanslaust óöryggi Guðrún Águsta og fimmtán ára sonur hennar hafa verið á leigumarkaði síðastliðin tólf ár og flutt á milli bæjarfélaga og hverfa.

Líkt og kom fram hér á undan er Guðrún með um 300 þúsund krónur í útborguð mánaðarlaun, þegar skattar og launatengd gjöld hafa verið dregin frá. Þá fær hún um 30 þúsund krónur í húsaleigubætur og annað eins í meðlag. Þar af fara nú 180 þúsund krónur í leigu og hafa þau mæðgin því úr um það bil 180 þúsund krónum að moða í hverjum mánuði. Þetta hefur gengið hingað til, þó að það hafi á stundum verið erfitt, en Guðrún sýpur hveljur yfir þeirri tilhugsun að þurfa ef til vill að reiða fram 250 þúsund krónur á mánuði fyrir næstu leiguíbúð. Þetta myndi þýða að þau þyrftu að lifa á um 100 þúsund krónum á mánuði, sem dugar skammt í rekstri heils heimilis og öllu sem því fylgir.

„Það þarf engan nóbelsverðlaunahafa í stærðfræði til þess að reikna þetta, þú sérð bara að dæmið gengur ekki upp. Það er alveg sama hvað þú reynir, bæta við þig menntun, flytja hér, flytja þar, milli sveitarfélaga, skipta um vinnu, nefndu það, vinna meira, taka aukavaktir, það dugir ekki til.“

Ekki saman um jól

Guðrún hefur velt því fyrir sér hvort hún eigi ef til vill að minnka við sig, leigja tveggja herbergja íbúð þar sem hún getur sofið í stofunni. Þá sé annar kostur að leita eftir ódýrara húsnæði í iðnaðarhverfum borgarinnar. „Maður veit að margir eru að hírast í einhverju atvinnuhúsnæði einhvers staðar eða eitthvað svona,“ segir Guðrún sem telur þetta þó ekki vænlegan kost. Sonur hennar eigi ekki að þurfa að upplifa sig jaðarsettan í íslensku samfélagi. Hann eigi rétt á því að búa í venjulegu hverfi þar sem hann umgengst aðra krakka og fái sömu tækifæri og jafnaldrar hans. „Þetta snýst um svo miklu meira en bara leiguhúsnæði. Þetta snýst náttúrlega bara um það hvernig líf ég vil skapa honum.“

Guðrún sér því miður ekki marga leiki í stöðunni. Hún hefur íhugað að bæta við sig menntun eða jafnvel fengið skringilegar hugdettur um að láta til sín taka í einhvers konar neðanjarðarstarfsemi sem blómstri sem aldrei fyrr á Íslandi í dag, eitthvað sem hún vill að sjálfsögðu ekki einu sinni hugsa sér. „Ég er einhvern veginn bara algjörlega búin að fyllast vonleysi núna.“ Hún telur líklegustu niðurstöðuna að hún þurfi að flytjast úr landi en það myndi mögulega tvístra þeim mæðginum. Það fær augljóslega mikið á hana að ræða þennan möguleika og tárin spretta fram áður en hún heldur áfram: „Það er náttúrlega bara eitthvað sem ég vil ekki sko, en ef hann vill ekki fara úr landi og ég get ekki skaffað honum húsnæði, hvað á ég þá að gera?“ spyr Guðrún sem bætir við að staðan sé hreinlega ömurleg sama hvernig á þetta sé litið.

 „Og mögulega þurfa leiðir okkar að skilja af því að maður getur ekki komið þaki yfir höfuðið“

Hún bendir á að þau mæðgin hafi til dæmis ekki getað átt jól saman síðustu fjögur árin þar sem hún hafi alltaf verið að vinna. Drengurinn hafi átt fín jól hjá pabba sínum þar sem ekki hefur væst um hann, en henni þykir leitt að þurfa að missa með þessum hætti af samverustundum með drengnum vegna fátæktar. „Þetta er bara ömurleg staða, að allar ráðstöfunartekjur þurfi að fara í það að eiga þak yfir höfuðið,“ segir Guðrún sem leggur áherslu á að hún sé að missa af eina barninu sínu, „og mögulega þurfa leiðir okkar að skilja af því að maður getur ekki komið þaki yfir höfuðið.“

Stanslaust óöryggi

Sem fyrr segir hafa mæðginin verið á stopulum leigumarkaði síðastliðin tólf ár, eða alveg síðan leiðir Guðrúnar og barnsföður hennar skildu árið 2006. „Við erum búin að búa í þessari leiguíbúð í tvö og hálft ár og þar á undan vorum við hérna úti á Kársnesi í Kópavoginum og þar á undan vorum við inni í Reykjanesbæ og þar á undan úti í Vestmannaeyjum, þannig að það er búið að vera svona svolítið flakk á okkur,“ segir Guðrún sem hefur lengi viljað festa kaup á íbúð en er með of lágar tekjur til þess að standast greiðslumat hjá bönkunum.

Hún hefur reynt hvað hún getur að skapa syni sínum það öryggi sem hún hefur getað hverju sinni. Þannig bendir hún til dæmis á að hann hafi sem betur fer bara þurft að vera í þremur grunnskólum um ævina en hann mun ná að klára tíunda bekkinn í núverandi skóla. Hún hikar aðeins áður en hún tekur fram að hún hafi sjálf alist upp við það að búa á sama æskuheimilinu til átján ára aldurs og var þannig alltaf í einum og sama grunnskólanum. „En ég get ekki skapað honum þetta öryggi. Hann er búinn að þurfa að skipta þrisvar um skóla, flytja hérna á milli hverfa, á milli sveitarfélaga og kynnast krökkum hér og krökkum þar,“ segir Guðrún sem bendir á að þetta hafi þau áhrif að hann eigi orðið erfiðara með að kynnast nýjum krökkum, enda sé næsti flutningur alltaf handan við hornið.

„En ég get ekki skapað honum þetta öryggi.“ 

Hún segir að óöryggið sem fylgi því að vera á leigumarkaði hafi markað son hennar. „Ég finn það alveg að auðvitað hefur þetta áhrif á strákinn líka. Og hann hefur spurt mig nokkrum sinnum; getum við ekki bara keypt íbúð? Getum við ekki bara verið einhvers staðar föst? Og þá er ég svona að reyna að útskýra fyrir honum að það sé bara ekki þannig hjá öllum. Það er svolítið erfitt að útskýra þetta fyrir börnum og krökkum,“segir Guðrún sem hefur alltaf reynt að hlífa drengnum við sínum áhyggjum. „Þannig að ég hef svona reynt að slá á létta strengi með þetta.“

Hafði trú á menntun

Á meðan Guðrún Ágústa og barnsfaðir hennar voru í sambandi var hún mestmegnis heimavinnandi að sjá um litla drenginn þeirra auk þess sem hún tók að sér hlutastörf meðfram því. Þegar hún stóð svo frammi fyrir þeim veruleika að verða einstæð móðir með þriggja ára gamalt barn á framfæri varð henni ljóst að hún ætti ekki séns á að kaupa sér fasteign þar sem hún kæmist aldrei í gegnum greiðslumat hjá bönkunum. Hún átti því engan kost annan en að fara á leigumarkaðinn þar sem þau mæðgin hafa verið æ síðan. Guðrún áttaði sig fljótlega á því að hún gæti ekki unnið tíu til tólf tíma vinnudaga samhliða því að ala upp lítið barn og ákvað því að ganga menntaveginn í þeirri von að það myndi að endingu borga sig fyrir þau mæðgin.

„Ég gat ekki hugsað mér að hann væri bara að ganga sjálfala þannig að úr varð að ég fór í nám,“ segir Guðrún sem kláraði meistaranám í uppeldis- og menntunarfræðum og lauk auk þess diplómagráðu á meistarastigi í fjölskyldumeðferð. Sem fyrr segir starfar hún nú við sitt fag sem ráðgjafi hjá SÁÁ, en henni finnst sem menntun hennar sé ekki metin að verðleikum. Það skjóti skökku við að manneskja í fullu starfi í því fagi sem hún hefur menntað sig í eigi ekki kost á að búa sér og barni sínu öruggt heimili. „Við erum alltaf að tala um að mennta sig, að menntun sé máttur og allt þetta,“ segir Guðrún sem veltir því fyrir sér hvað börn þessa lands eigi eiginlega að hugsa þegar þau átti sig á því að slík skilaboð byggi á sandi.

„Hann sér bara mömmu sína sveitta að skrifa hvert verkefnið á fætur öðru, þegar ég var að skrifa bæði bachelor- og masters-ritgerðirnar þá var ég vakin og sofin yfir því, og drengurinn hugsar; ókei, maður leggur sjúklega mikið á sig en maður uppsker ekki neitt.“ Guðrún Ágústa og ættingi hennar sem er öryrki hafa borið stöðu sína saman og komist að þeirri niðurstöðu að Guðrún hafi það verra. „Vegna þess að ég er ekki með öruggt húsnæði, ég er ekki með næga innkomu og ég fæ hvergi aðstoð,“ segir Guðrún sem tekur fram að öryrkjar eigi að sjálfsögðu að fá þá aðstoð sem þeir þurfa á að halda. Það sé hins vegar ótækt að fólk í hennar stöðu geti lent með þessum hætti á milli skips og bryggju.

Hefur engu að tapa

Þegar leigusamingi Guðrúnar fyrir íbúðinni í Kópavoginum var sagt upp nú í byrjun desember var henni allri lokið. „Það bara gerðist eitthvað í hausnum á mér. Ég hugsaði bara, veistu það, ég er búin að fá nóg, ég get þetta ekki. Ég varð einhvern veginn svo reið og svekkt og sár að ég settist við tölvuna og dritaði þetta niður í rauninni án þess að hugsa,“ segir Guðrún sem vakti athygli á stöðu sinni á Facebook en pistillinn fékk mikla dreifingu og var meðal annars endurbirtur á netmiðlum. Þar sagðist Guðrún alltaf hafa verið mikil baráttukona og að uppgjöf væri ekki til í hennar orðabók, „en núna finn ég að ég get ekki meir … ég get þetta ekki lengur, Ísland er að drepa mig!!! Ísland er að murka úr mér lífið hægt og rólega!!!“

Henni fannst eins og hún hefði ekki neinu að tapa lengur. „Ef ég stend frammi fyrir því að vera á götunni, á hrakhólum, og þetta verður mögulega til þess að ég og sonur minn tvístrumst þá á ég hvort eð er ekkert eftir. Af hverju ekki að segja þetta bara eins og þetta er, umbúðalaust?“ spyr Guðrún sem bendir á að margir í hennar stöðu upplifi skömm og séu þess vegna ekki tilbúnir að opna sig með þessum hætti um stöðu sína. „En ég hugsaði með mér, veistu það, ég hef engu að tapa, ég ætla bara að láta þetta flakka.“ Hún hefur áður reynt að vekja athygli á eigin stöðu, meðal annars með því að fara á fund velferðarráðherra fyrir nokkrum árum, en henni finnst eins og að þeir sem fari með völd í samfélaginu hafi lítinn áhuga á því að hlusta. „Það er bara eins og fólk loki eyrunum, það bara vill ekki heyra þetta.“ 

Hún viðurkennir að hún hafi verið við það að bugast á síðustu árum. Á stundum hafi hún verið svo búin á sál og líkama að henni hafi ekki fundist hún geta meir. Þá hafi hún hreinlega íhugað hvort hún ætti kannski bara að ganga í hafið þar sem „einfaldast og best væri að láta sig hverfa bara“. Hún hefur fullan skilning á því að sumir í sambærilegri stöðu gefist á endanum hreinlega upp. „Það er náttúrlega ömurlegt að líða svona og mér finnst ömurlegt að þetta ástand valdi manni því að maður hugsi svona,“ segir Guðrún sem leggur áherslu á að það sýni auðvitað bara hve frústreruð og þreytt hún sé orðin á þeirri vonlausu stöðu sem hún finni sig í á íslenskum leigumarkaði.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Leigumarkaðurinn

Telja mikið eignarhald hagnaðardrifinna leigufélaga skýra skarpar verðhækkanir á Suðurnesjum
FréttirLeigumarkaðurinn

Telja mik­ið eign­ar­hald hagn­að­ar­drif­inna leigu­fé­laga skýra skarp­ar verð­hækk­an­ir á Suð­ur­nesj­um

Leigu­verð held­ur áfram að hækka víð­ast hvar á land­inu sam­kvæmt nýj­asta mán­að­ar­riti Hús­næð­is- og mann­virkja­stofn­unn­ar. At­hygli vek­ur að verð fyr­ir leigu­íbúð­ir á Suð­ur­nesj­um hef­ur hækk­að óvenju hratt á síð­ustu sex mán­uð­um. Telja skýrslu­höf­und­ar að það megi rekja til óvenju hás hlut­falls leigu­íbúða í eigu ein­stak­linga og hagn­að­ar­drif­inna leigu­fé­laga.
Stjórnarformaður Ölmu segir breytingar á húsaleigulögum óþarfar
FréttirLeigumarkaðurinn

Stjórn­ar­formað­ur Ölmu seg­ir breyt­ing­ar á húsa­leigu­lög­um óþarf­ar

Gunn­ar Þór Gísla­son, stjórn­ar­formað­ur Ölmu íbúð­ar­fé­lags seg­ir frum­varp inn­viða­ráð­herra um breyt­ing­ar á húsa­leigu­lög­um vera gegn­sýrt for­ræð­is­hyggju og skriffinnsku sem vegi að samn­inga­frels­inu. Í um­sögn sem Alma sendi til vel­ferð­ar­nefnd­ar Al­þing­is er lagst gegn öll­um helstu meg­in­at­rið­um frum­varps­ins.
Óheyrilegar verðhækkanir á leigumarkaði: „Þeir eru eins og óðir hanar í mannaskít“
NeytendurLeigumarkaðurinn

Óheyri­leg­ar verð­hækk­an­ir á leigu­mark­aði: „Þeir eru eins og óð­ir han­ar í manna­skít“

Aug­lýs­ing sem birt­ist á fast­eigna­vefn­um Igloo hef­ur vak­ið mikla at­hygli og um­ræðu. Þar er fjög­urra her­bergja íbúð í Reykja­vík aug­lýst til leigu fyr­ir 550.000 krón­ur á mán­uði. Guð­mund­ur Hrafn Arn­gríms­son, formað­ur Leigj­enda­sam­tak­anna, seg­ir stöð­una vera grafal­var­lega. Hann seg­ir mörg heim­ili á leigu­mark­aði búi í dag við grimmi­lega og kerf­is­bundna fjár­kúg­un.
Staða fjölskyldna á leigumarkaði hríðversnar milli ára
FréttirLeigumarkaðurinn

Staða fjöl­skyldna á leigu­mark­aði hríð­versn­ar milli ára

Sam­kvæmt nið­ur­stöð­um leigu­könn­un­ar Hús­næð­is- og mann­virkja­stofn­un­ar versn­aði samn­ingstaða leigj­enda gagn­vart leigu­söl­um um­tals­vert milli ár­anna 2022 og 2023. Könn­un­in bend­ir einnig þess að bæði hafi leigu­verð hækk­að og fram­boð á hús­næði við hæfi dreg­ist sam­an milli ára. Þró­un­in leggst þyngst á fjöl­skyld­ur sem bjuggu við þrengri kost ár­ið 2023 í sam­an­burði við ár­ið 2022.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár