92 ára gömul kona var látin sofa inni á salerni á lyflækningadeild Landspítala síðustu nótt, með kúabjöllu til að gera vart við sig. Ástæðan var sögð plássleysi. Konan datt illa fyrir rúmri viku og fékk slæmt höfuðhögg. Dætur konunnar segjast hafa fengið skammir frá sjúkrahússtarfsfólki fyrir að taka mynd af aðstöðunni og birta á Facebook til að vekja athygli á stöðu mála.
„Við fengum skammir fyrir að vekja athygli á þessu í morgunmatnum í morgun, þegar komið var með hann og honum nánast skellt ofan á klósettsetuna,“ segir Berglind Sigurðardóttir, dóttir konunnar, í samtali við Stundina. „Okkur var sagt að ekki væri leyfilegt að taka myndir af aðstöðunni. Við svöruðum því til að við gætum ekki annað, við hefðum bara fengum bara áfall þegar við sáum við hvaða aðstæður hún þurfti að búa. Við báðum um að henni yrði í það minnsta rúllað fram svo hún fengi nú að borða morgunmatinn sinn frammi á gangi frekar en inni á klósettinu.“
„Skyldu ráðherrarnir láta bjóða sér þetta ef þeim yrði rúllað hér inn.“
Þegar blaðamaður talaði aftur við Berglindi nú í hádeginu var búið að koma móður hennar fyrir inni á sjúkrastofu. Í gær var okkur sagt að þeir vissu ekki hversu langur tími myndi líða þar til hún fengi inni á deild. Okkur var sagt að þetta væri bara staðan, svona væri heilbrigðiskerfið og væri búið að vera í tuttugu ár. Það síðasta sem hún sagði við okkur í gærkvöldi, grátandi, var: „Skyldu ráðherrarnir láta bjóða sér þetta ef þeim yrði rúllað hér inn.“
Athugasemdir