Borgarráð samþykkti í gær að keypt verði húsnæði fyrir neyðarskýli fyrir unga vímuefnaneytendur. Starfsemin á að hefjast í mars á næsta ári, samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Skýlið verður fyrir unga karlmenn í vímuefnaneyslu og kostar rekstur þess um 115 milljónir króna á ári. Sólahringsvakt verður í húsnæðinu sem er staðsett að Grandagarði 1A. Þar til starfsemin hefst verður tímabundin fjölgun plássa í Gistiskýlinu við Lindargötu með því markmiði að ekki þurfi að vísa neinum frá í vetur, samkvæmt tilkynningu.
,,Opnun neyðarskýlis fyrir unga vímuefnaneytendur verður mikilvægur áfangi í að bæta þjónustu við þann hóp borgarbúa,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar. „Á næsta ári munum við innleiða endurskoðaða aðgerðaáætlun í málefnum heimilislausra, það er því margt á döfinni í þessum mikilvæga málaflokki.“
Velferðarsvið Reykjavíkurborgar þjónustar 65 einstaklinga í virkri neyslu sem búa í sérstöku húsnæði á vegum borgarinnar. Á fundi borgarráðs var einnig ræddur undirbúningur vegna kaupa á 25 smáhýsum sem verða staðsett í nokkkrum þyrpingum vestan Elliðaáa. Þeim framkvæmdum á einnig að ljúka í mars 2019.
Áætlaður kostnaður Reykjavíkurborgar á árinu 2019, vegna þjónustu við vímuefnaneytendur í virkri neyslu eða í kjölfar meðferðar er um 1,2 milljarðar króna, samkvæmt tilkynningunni.
Athugasemdir