Nýlega fjallaði Stundin um nýútkomna bók mína sem ber titilinn The Economic Crisis and its Aftermath in the Nordic and Baltic Countries - Do As We Say and Not As We Do. Í næsta blaði sá ég svo heilsíðu viðtal við Prófessor Dr. Baldur Þórhallsson sem var ekki alveg sáttur við umfjöllun mína um skjólskenningar. Reyndar er það svo að mín bók fjallar lítið um skjólskenningar. Ég nefni þó að skjól hafa kosti og galla. Þau geta orðið gildra ef hagsmunaárekstrar verða milli smáríkja annarsvegar, og stærri ríkja og alþjóðastofnana hinsvegar, eins og tilvikin sem ég ræði í bókinni sýna.
Á undanförnum árum hef ég margt gott lesið eftir Baldur Þórhallsson um ýmis málefni sem tengjast smáríkjafræðum og rætt við hann nokkrum sinnum mér til gagns og fróðleiks og oft vitnað í hann, enda maðurinn leiftrandi gáfaður og virtur fræðimaður á alþjóðlegan mælikvarða. Vonandi mega samt Íslendingar, að mér meðtöldum, nota orðið skjól í framtíðinni án þess að fá leyfi frá stjórnmálafræðingum með skilgreiningum og forskrift. Orðið skjól er eldra en stjórnmálafræðin.
Bók mín snýst um viðbrögð Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna við kreppunni sem skall á 2008 og árangur af mismunandi efnahagsstefnum. Norðurlöndin, einkum Svíþjóð, eiga bankakerfi Eystrasaltsríkjanna að mestu leyti. Í bókinni er meðal annars lögð áhersla á að greina áhrif þessa eignarhalds á efnahagsstefnu Eystrasaltsríkjanna þegar alþjóðlega fjármálakreppan skall á árið 2008. Segja má að þeim erlendu bönkum sem starfa í Eystrasaltsríkjunum hafi verið bjargað frá hruni meðal annars með fastgengisstefnu. Auk eignahalds Norðurlandanna á bönkum í Eystrasaltsríkjunum sýnir rannsóknin mikil eignatengsl milli Norðurlandanna sjálfra (að Íslandi undanskildu) og hvernig vandamál eru fljót að breiðast út frá einu landi til annars í Evrópu. Þetta er enn mikið vandamál 10 árum eftir hrun.
Efnahagsþróunin á Íslandi var frábrugðin þróuninni í Eystrasaltsríkjunum. Gengi krónunnar féll, bankarnir hrundu, en niðurskurður í ríkisfjármálum var mun minni en hjá Eystrasaltsríkjunum. Ef við skoðum árangur efnahagsstefnunnar á Íslandi er hann miklu betri. Mikill hagvöxtur, lítið atvinnuleysi og aukið svigrúm til velferðarútgjalda og uppbyggingar. Norðurlöndin, einkum Svíar, kröfðust fastgengisstefnu hjá Eystrasaltsríkjunum 2008 til þess að bjarga sínum bönkum. Evrópusambandi studdi þá dyggilega í þessu. Nú sjáum við að þetta hefur haft slæm áhrif á efnahag Eystrasaltsríkjanna. Svíar og Finnar lentu sjálfir í bankakreppu árin 1992-3. Þeir felldu gengið líkt og Ísland gerði svo árið 2008 og í kjölfarið jókst útflutningur um leið, hagvöxtur jókst og atvinnuleysi minnkaði. Þeir gripu sjálfir ekki til þeirra efnahagsaðgerða 1992-3 sem þeir kröfðust af Eystrasaltsríkjunum 2008. Svíum sem hafa elsta seðlabanka í heimi dettur ekki í hug að taka upp evruna. Þeir hafa fljótandi gengi og verðbólgumarkmið.
Það er ekki hægt með góðu móti að greina frá efni bókar minnar í stuttri blaðagrein eða viðtali. Að mínu mati er lærdómurinn sem við getum dregið af reynslu þessara ríkja samt sá að efnahagsaðlögun með fastgengisstefnu eins og Eystrasaltsríkin reyndu tekur langan tíma og fórnarkostnaðurinn er gríðarlegur. Mikið aðhald í ríkisfjármálum á sama tíma gerir illt verra, sérstaklega í löndum með mjög ójafna tekjudreifingu og veik velferðarkerfi. Sum lönd innan Evrusvæðisins eru líka í vandræðum eins og við þekkjum og eiga erfitt með að aðlagast fastgengisstefnu sem felst í sameiginlegum gjaldmiðli. Ég sá þetta vel í Grikklandi þegar ég var gestaprófessor við National and Kapodistrian University í Aþenu á vormisseri 2018.
Annar lærdómur er hversu vafasamt það er fyrir smáríki eins og Eystrasaltsríkin að treysta á stærri og ríkari lönd eins og Svíþjóð, og stofnanir eins og Evrópusambandið þegar kreppa skellur á. Auðvitað beita önnur ríki og alþjóðastofnanir sér fyrst og fremst í þágu eigin hagsmuna. Þetta þekkja Íslendingar af Icesave-málinu og framgöngu Hollendinga og Breta gagnvart okkur. Þessi lönd voru líka studd af Evrópusambandinu.
Því miður snérust aðgerðir ESB í fjármálakreppunni að miklu leyti um að bjarga stórum bönkum. Eystrasaltsríkin eru ekki eina dæmið heldur líka Grikkland og Írland og fleiri dæmi mætti nefna. Sumir ganga svo langt að segja að bankahagsmunir stjórni ESB að miklu leyti. Ég fullyrði ekki að svo sé í bók minni en það er alveg ljóst að stórir bankar ráða miklu innan ESB og hagsmunum almennings er stundum fórnað. Meira að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðnum blöskraði framganga Svía og ESB í Lettlandi.
Að getnu tilefni vil ég taka fram að ég segi hvergi í bók minni að Eystrasaltsríkin hefðu ekki átt að gagna í ESB eða taka upp evruna. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þau hefðu átt að fá að lækka gengi sinna gjaldmiðla áður en þau gerðust aðilar að evrusvæðinu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mælti með þessu í Lettlandi en ESB og Svíar sem eiga bankakerfi þessara landa og ESB höfnuðu því. Útflutningsgeirar Eystrasaltsríkjanna væru öflugri í dag hefðu þessi lönd farið inn í myntbandalagið með leiðréttu gengi.
Eystrasaltsríkin voru í skjóli ESB og Norðurlandanna (að Íslandi undanskildu) í hruninu og skjólið reyndist gildra, því miður. Eins og fram kemur í minni bók álít ég að Eystrasaltsríkin (líkt og Finnland) hafi gengið í ESB og farið inn á evrusvæðið ekki síður af öryggisástæðum en efnahagslegum ástæðum. Þau telja ólíklegt að Rússland ráðist inn á evrusvæðið sem er sennilega rétta mat. Mér finnst að ESB og Norðurlöndin (að Íslandi undanskildu) hafi notfært sér þetta og ýtt þeim inn í það sem sumir kalla „bad equilibrium.
Ég veit ekki hvort Baldur geri sér almennilega grein fyrir því hvílíkar þrengingar Eystrasaltsríkin hafa gengið í gegnum. Fólksflótti frá Eystrasaltsríkjunum hefur verið gríðarlegur, einkum meðal ungs fólks þannig að í kjölfar kreppunnar má segja að ungt menntað fólk hafi orðið þeirra aðal útflutningsvara. Þegar Eystrasaltsríkin urðu sjálfstæð árið 1991 voru íbúar þar 7,8 milljónir. Nú eru 6,1 milljónir eftir. Íbúar í Svíþjóð voru 8,6 milljónir árið 1991, en eru nú 10,6 milljónir. Íbúar Eystrasaltsríkjanna voru því um 90% af íbúafjölda Svíþjóðar árið 1991 en eru nú innan við 60%. Þetta mun hafa slæm áhrif á hagkerfi þeirra til lengri tíma því þetta fólk flytur oft til Evrópulanda með hærri tekjur og hæpið að það snúi aftur til Eystrasaltsríkjanna.
Það hefur að vísu verið hagvöxtur hjá Eystrasaltsríkjunum undanfarin ár en hann er of lítill fyrir nýmarkaðsríki og þau eiga litla von að ná ríkari löndum ESB í fyrirsjáanlegri framtíð. Tekjudreifing innan Eystrasaltsríkjanna er líka ein sú ójafnasta sem fyrirfinnst, ekki aðeins í samanburði við Norðurlöndin heldur einnig í samanburði við önnur Evrópulönd á svipuðu tekjustigi og Eystrasaltsríkin, til dæmis Tékkland, Slóvakíu og Slóveníu. Velferðarkerfin sem voru veik fyrir eru varla til lengur vegna mikils niðurskurðar í ríkisfjármálum í kjölfar hrunsins, meðal annars vegna stefnu ESB í ríkisfjármálum sem setja aðildarríkjum þröngar skorður. Hagvöxtur er ekki mikil huggun þegar lífsgæðum er svona misskipt. ESB gortar svo af því að þjóðartekjur á mann séu að hækka í Eystrasaltsríkjunum. Þetta skýrist þó að verulegu leyti af því að ungt háskólamenntað fólk flýr löndin í stað þess að fara á vinnumarkaðinn, en slíkt hefur lamandi áhrif á hagkerfin til lengri tíma litið.
Í viðtalinu er haft eftir Baldri: „Veikt evrukerfi spilar upp í hendurnar á stóru ríkjunum“ og „Þegar stofnanir sambandsins eru ekki nógu sterkar til að bregðast við áföllum, þá taka stóru ríkin yfir.“
Þetta er rétt hjá Baldri og ég hef ekki séð neina lausn á þessu enn. Hagsmunir þeirra stóru og sterku ráða innan ESB. Ísland mætti sín lítils í því spili, því miður. Vonandi ná evrulöndin að þróa kerfi sín og stofnanir til betri vegar. Enn er þó langt í land og mikil vinna óunnin. Ég tek undir það sem John Maynard Keynes sagði eitt sinn, “When the facts change, I change my mind.”
Stundum er best að smáríki standi ein þegar áföll dynja yfir. Ef Ísland hefði fengið risalán frá erlendum seðlabönkum til að bjarga íslensku bönkum í hruninu hefðu lánin verið veitt með ríkisábyrgð og orðið þung byrði á komandi kynslóðum. Ísland fékk lán frá norrænum seðlabönkum, en þau dugðu ekki til að bjarga hinu ofvaxna bankakerfi sem var einfaldlega látið hrynja. Þjóðaratkvæðagreiðslur reyndust svo ómetanlegar þegar gera þurfti upp mál eins og Icesave-deiluna. Á endanum var það lýðræðislegur sjálfsákvörðunarréttur Íslendinga og kjarkurinn til að fara okkar eigin leiðir, án þess að fylgja forskrift stórvelda og alþjóðastofnana gagnrýnislaust, sem reyndist besta skjólið.
Athugasemdir