Hópur kvenna sem starfar hjá Kópavogsbæ hefur sent frá sér eftirfarandi bréf, sökum óánægju með viðbrögð bæjaryfirvalda við kröfu þeirra um að fá að taka þátt í kvennafríi í dag:
Allt frá því fyrir helgi höfum við ýtt á eftir upplýsingum varðandi kvennafríið 24. október og ynnt eftir svörum við því hvort að konur starfandi hjá bænum hefðu það almennt í hyggju að sýna samstöðu og ganga út kl. 14:55. Skýr svör fengust ekki fyrr en seinnipartinn í gær þegar sérstök tilmæli bárust frá bænum til stjórnenda stofnana Kópavogsbæjar. Tilmælin voru á þá leið að hagræða skuli vinnudeginum þannig að þær konur sem óska þess að komast á baráttufundinn á Arnarhóli kl. 15:30 fái tækifæri til þess svo framarlega sem lágmarksþjónusta sé tryggð. Þeim stofnunum sem um ræðir verður því ekki lokað í dag kl. 14:55. Það gefur auga leið að tilmæli sem þessi eru í besta falli vanhugsuð fyrir þær stofnanir bæjarins þar sem starfsfólk er að mestu eða öllu leyti konur.
Um það leyti sem tilmælin bárust frá Kópavogsbæ bárust fregnir af því að bæjarstjóri og bæjarritari væru ósamþykkir kvennafríinu og að ekki verði stutt við þær konur sem hafa í hyggju að taka þátt í baráttufundinum á Arnarhóli. Því hafi þessi ákvörðun verið tekin, að hleypa þeim örfáu konum sem bærinn má missa og eru fyrstar til að lýsa yfir áhuga á að ganga út. Restinni er þó skipað að sitja sem fastast til að halda starfseminni gangandi, sem rennir stoðum undir mikilvægi þess að berjast fyrir launajafnrétti, mikilvægi kvenna í samfélaginu og þar með mikilvæginu sem felst í slíkum baráttufundi.
Það skal að auki tekið fram að núverandi bæjarstjóri hrinti úr vör jafnréttis- og mannréttindastefnu Kópavogsbæjar árið 2015 þar sem bærinn „hefur einsett sér að vera í fararbroddi í mannréttindamálum með sérstakri áherslu á jafna stöðu kynjanna.“
Með bréfi þessu lýsum við yfir ósætti við stöðu mála og vonum að ákvörðunin verði endurskoðuð að ári.
Með vinsemd og virðingu,
Starfskonur í Kópavogi
Athugasemdir