Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Svona notuðu Bjarni Benediktsson og Engeyjar­fjölskyldan Íslands­banka

Bjarni Bene­dikts­son, nú fjár­mála­ráð­herra, stýrði fjár­fest­ing­um fyr­ir­tækja­veld­is föð­ur síns og föð­ur­bróð­ur á bak við tjöld­in á ár­un­um fyr­ir hrun­ið 2008. Eng­ey­ing­arn­ir voru ráð­andi hlut­haf­ar Ís­lands­banka og vék bank­inn ít­rek­að frá vinnu­regl­um til að ganga er­inda þeirra.

„Ég áskil mér allan rétt til að selja ekki næstum því strax BMW-inn sem ég er nýbúinn að panta mér,“ sagði Bjarni Benediktsson, þáverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fjárfestir og núverandi fjármálaráðherra, í léttum dúr í tölvupósti til Einars Arnar Ólafssonar, vinar síns og þáverandi starfsmanns Íslandsbanka, og Hermanns Guðmundssonar, viðskiptafélaga síns, í tölvupósti í október árið 2005. 

Í tölvupóstinum, sem og fleiri tölvuskeytum, ræddu þeir um hugsanleg kaup fjárfestingarfélaga Engeyjarfjölskyldunnar á Toyota-umboðinu á Íslandi, þáverandi fjölskyldufyrirtæki Páls Samúelssonar.  Í tölvupósti sínum kom Bjarni með athugasemdir um ætlaða tilboðsgerð fjárfestahóps fjölskyldu sinnar, sem hann stýrði ásamt Hermanni, í Toyota-umboðið og skaut þessari gamansömu athugasemd með inn í lok yfirlits um skoðanir sínar á tilboðsgerðinni í fyrirtækið. Bílaumboðið var á þessum tíma til sölu eftir að Páll Samúelsson hafði átt það og rekið með farsælum hætti í 35 ár.  

Í Glitnisgögnunum, sem Stundin hefur undir höndum og sem blaðið hóf að segja frá fyrir rúmu ári síðan, er meðal annars að finna margháttaðar heimildir um viðskipti Bjarna Benediktssonar og ættingja hans á árunum fyrir bankahrunið á Íslandi árið 2008. Þau sýna að aðkoma Bjarna að viðskiptunum var mun meiri en áður hafði komið fram.

Sýslumaðurinn í Reykjavík stöðvaði umfjöllun Stundarinnar um Glitnisgögnin með lögbanni í aðdraganda þingkosninganna sem fram fóru um haustið 2017. Þetta var gert að beiðni þrotabús Glitnis banka sem taldi Stundinni óheimilt að birta fréttir upp úr gögnunum sökum bankaleyndar. Héraðsdómur Reykjavíkur og Landsréttur hafa hins vegar kveðið upp dóma þess efnis að lögbannið standist ekki lög og getur Stundin þar með haldið áfram að fjalla um umrædd gögn, rúmu ári eftir að umfjöllun var stöðvuð af sýslumanni.

Stundin hafði samband við Bjarna Benediktsson og bað hann um að veita blaðinu viðtal vegna umfjöllunar um viðskipti hans og störf sem kjörinn fulltrúi árin fyrir efnahagshrunið. Bjarni varð ekki við þeirri beiðni. 

Glitnisgögnin sýna að á þessum tíma, þegar Bjarni lét orðin falla um BMW-bifreiðina sem hann hafði pantað, vann hann tvö störf sem bæði krefjast meira en 100 prósent vinnuframlags frá fólki alla jafnan. Annars vegar þingmannsstarfið, þar sem Bjarni var meðal annars formaður allsherjarnefndar um hríð,  og hins vegar starf sem var ígildi þess að vera forstjóri yfir einu stærsta fjárfestingarfélagi Íslands; félagi sem átti risastórt olíufélag, mikið magn hlutabréfa í banka, rútufyrirtæki, hlut í flugfélagi og fleira. Ráða má af gögnunum að Bjarni var í reynd eins konar skuggaforstjóri yfir þessu fyrirtækjaneti, maðurinn sem hélt á endanum utan um alla þræði. 

Viðskipti á gráu svæðiEinar Örn Ólafsson, starfsmaður ´Íslandsbanka, áttaði sig á því að viðskipti stjórnarformanns bankans sem hann starfaði hjá gætu verið á gráu svæði og ræddi hann þetta í tölvpóstum.

Áttu, stýrðu og fengu há lán í bankanum

Á þessum tíma, síðla árs 2005, þegar þreifingar stóðu yfir innan ýmissa fjárfestahópa um möguleg kaup á Toyota-umboðinu, voru föðurbróðir og faðir Bjarna, Einar  og Benedikt Sveinssynir, ráðandi hluthafar í Íslandsbanka, auk þess sem sá fyrrnefndi var stjórnarformaður hans.

Var það starfsmaður Íslandsbanka, Einar Örn Ólafsson, sem vann að tilboðinu fyrir þeirra hönd auk þess sem bankinn, sem þeir stýrðu, átti að fjármagna viðskiptin og jafnvel vera hluthafi í fyrirtækinu. Þetta kom fram í einum af þeim punktum sem Bjarni nefndi í athugasemdum sínum um tilboðið: „Taka þarf fram að við áskiljum okkur rétt til að fá fleiri fjárfesta til liðs við okkur, hvort sem það verður bankinn (tímabundið) eða aðrir aðilar. Við hyggjumst þó klárlega fara með meirihlutann,“ sagði Bjarni og var einnig ljóst að hann ætlaði að stýra bílaumboðinu sem stjórnarmaður: „Varðandi það hvernig stjórn félagsins verður skipuð, hver verður formaður og annað þá höfum við ekki klárað þá umræðu. Ég læt því duga að segja að það megi gera ráð fyrir því að við Hermann verðum þarna og aðrir fulltrúar fjárfesta,“ sagði Bjarni. 

Engeyingarnir voru ráðandi eigendur Íslandsbanka, þeir stýrðu honum í gegnum stjórn hans, starfsmenn bankans unnu fyrir þá að tilboðum í önnur fyrirtæki og bankinn lánaði þeim peninga til að fjármagna fyrirtækjakaup sín.

Misnotkun eigenda banka sem forsenda hrunsins

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er rakið að fjárfestingarfélög bræðranna Einars og Benedikts Sveinssona, sem Bjarni Benediktsson stýrði að hluta til, hafi verið með hæst lán hjá Íslandsbanka á þeim tíma sem þeir voru ráðandi hluthafar bankans eða í árslok 2006.  „Sem hlutfall af eiginfjárgrunni bankans fóru heildarútlán Glitnis til hópsins hæst í yfir 20% í byrjun árs 2006 og voru tæp 15% við fall bankans,“ segir í skýrslunni en á þessum tíma var hópurinn með lán hjá Glitni upp á ríflega 400 milljónir evra, rúmlega 40 milljarða króna. Þetta var 5 prósentustigum undir lögbundnu, heimiluðu hámarki lána til einstakra fyrirtækjahópa eins og fjárfestingarfélaga Engeyinganna líkt og nefnt er í skýrslunni: „Reglunum er ætlað að koma í veg fyrir kerfisáhættu sem lýsir sér í því að fjárhagsleg vandræði eins viðskiptavinar, eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptavina, hafi í för með sér fjárhagsleg vandræði viðkomandi fjármálafyrirtækis. Til þess að ná þessu markmiði var fjármálafyrirtækjum óheimilt að stofna til áhættu gagnvart einum viðskiptavini, eða hópi viðskiptavina sem eru innbyrðis tengdir á ákveðinn hátt, umfram 25% af eiginfjárgrunni þess á hverjum tíma.“

Þessar lánveitingar til eigenda íslensku bankanna áttu stóran þátt í að veikja íslensku bankana samkvæmt niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar á sínum tíma eins og segir í niðurstöðukafla skýrslunnar:  „Samþjöppun áhættu hjá íslensku bönkunum var orðin hættulega mikil þó nokkru fyrir fall þeirra. Bæði á það við um lánveitingar til ákveðinna hópa innan hvers banka en jafnframt mynduðu sömu hópar stórar áhættur í fleiri en einum banka. Af þeim sökum varð kerfisleg áhætta vegna útlána veruleg,“ segir í skýrslunni. 

„Ég vildi láta þig vita af þessu, því ég 
hygg að þetta geti verið á gráu svæði“

Útlán til eigenda Íslandsbanka, síðar Glitnis, urðu vissulega enn meiri eftir að Engeyingarnir og viðskiptafélagar misstu yfirráðin yfir bankanum til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Baugs um vorið 2007, enda nefnir rannsóknarnefndin Baug sérstaklega í niðurstöðukafla sínum, en útlán til fjárfestingarfélaga Engeyinganna voru samt mjög mikil alveg fram að bankahruninu, meðal annars vegna þess að þeir héldu eftir eignahlut í bankanum í gegnum félagið Þátt International. Hlutabréf þessa félags í Glitni voru endurfjármögnuð af bankanum með 10 milljarða króna láni í febrúar árið 2008 í gegnum félagið Vafning og fékkst þetta lán aldrei greitt til baka. Áhætta Íslandsbanka, síðar Glitnis, af lánveitingum til fjárfestingafélaga Engeyinganna var hins vegar alltaf mikil, alveg fram að bankahruninu, þar sem hrun fjárfestingarfélaga þeirra eins og Þáttar International hefði getað skaðað bankann. 

Viðskipti á „gráu svæði“

Vegna þessa eignarhalds Einars Sveinssonar og Engeyjarfjölskyldunnar á Íslandsbanka um það leyti sem þeir ætluðu að bjóða í bílaumboðið Toyota árið 2005 taldi Einar Örn Ólafsson að það gæti verið á „gráu svæði“ fyrir bankann að félag í eigu Einars Sveinssonar, stjórnarformanns bankans, væri meðal tilboðsgjafa í bílaumboðið. Hafði Einar Örn af þessu áhyggjur og tilkynnti þetta til yfirlögfræðings bankans, Einars Páls Tamimi. „[É]g hef verið að vinna fyrir Bílanaust að tilboði þeirra í Toyota umboðið. Nú, á síðari stigum, stefnir í að félag í eigu Einars Sveinssonar verði meðal tilboðshafa. Ég vildi láta þig vita af þessu, því ég hygg að þetta geti verið á gráu svæði m.v. vinnureglur bankans,“ sagði Einar Örn. 

Einar Örn hafði hins vegar ekki svo miklar áhyggjur af þessu þar sem það var ekki Einar Sveinsson sem leiddi fjárfestahópinn sem ætlaði að kaupa Toyota-umboðið heldur Bjarni Benediktsson og Hermann Guðmundsson. „En við [Einar Sveinsson] höfum ekki hist eða talast vegna málsins og ég hef engar efasemdir um að málið verði, hér eftir sem hingað til, alfarið í höndum Bjarna Ben og Hermanns, svona gagnvart mér og bankanum,“ sagði Einar Örn. 

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Glitnisgögnin

Selur bankann sem fjölskyldan átti
Úttekt

Sel­ur bank­ann sem fjöl­skyld­an átti

Bjarni Bene­dikts­son upp­lýsti ekki um að­komu sína að fjár­fest­ing­um Eng­ey­inga á með­an hann sat á þingi í að­drag­anda hruns. Fjöl­skylda hans átti ráð­andi hlut í Ís­lands­banka sem lán­aði fé­lög­um þeirra tugi millj­arða króna og einnig Bjarna per­sónu­lega. Nú mæl­ir hann fyr­ir sölu rík­is­ins á hlut í bank­an­um. For­sag­an skað­ar traust, að mati sam­taka gegn spill­ingu.
Atburðarásin í aðdraganda hruns: Hvað vissum við og hvað vissu þeir?
Rannsókn

At­burða­rás­in í að­drag­anda hruns: Hvað viss­um við og hvað vissu þeir?

Þeg­ar erf­ið­leik­ar komu upp hjá Glitni og stór­um hlut­höf­um, fyrst í fe­brú­ar 2008 og svo í sept­em­ber, skipt­ist Bjarni Bene­dikts­son á upp­lýs­ing­um við stjórn­end­ur Glitn­is og sat fundi um stöðu bank­anna með­an hann sjálf­ur, fað­ir hans og föð­ur­bróð­ir komu gríð­ar­leg­um fjár­mun­um í var. Hér er far­ið yf­ir at­burða­rás­ina í máli og mynd­um.
Hæstiréttur veitir Glitni HoldCo áfrýjunarleyfi til að úrskurða hvort Stundin eigi að afhenda gögn
FréttirGlitnisgögnin

Hæstirétt­ur veit­ir Glitni HoldCo áfrýj­un­ar­leyfi til að úr­skurða hvort Stund­in eigi að af­henda gögn

Lög­bann­ið er fall­ið úr gildi en mál Glitn­is HoldCo gegn Stund­inni held­ur áfram fyr­ir Hæsta­rétti, sam­kvæmt ákvörð­un rétt­ar­ins. Hæstirétt­ur ætl­ar að fjalla um kröf­ur Glitn­is HoldCo þess efn­is að við­ur­kennt verði að Stund­inni sé óheim­ilt að byggja á Glitn­is­skjöl­un­um og beri að af­henda gögn­in.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu