Ég verð fertug eftir eitt ár og nokkra mánuði. Ég er ekki í neinni sérstakri krísu yfir þeim tímamótum, enda tók ég hana út þegar ég varð þrítug og fannst eins og skemmtilega hluta lífs míns væri lokið. Nú væru tóm leiðindi og hnignun fram undan. Svo varð ég þrítug og mér til furðu hélt lífið bara áfram að vera skemmtilegt, svona að mestu leyti. Ég var líka svo sniðug að eignast mann sem er átta árum eldri en ég. Varla get ég kvartað, þó ég sé að verða fertug, þegar hann er að nálgast fimmtugt, gamli maðurinn?
Ég hef sem sagt náð þeim þroska að finnast í góðu lagi að eldast og er farin að hlakka til ársins 2019 því þá verður mér boðið í mörg fertugsafmæli þar sem verður boðið upp á bollu og snittur. Þar verður gaman – en eitt er þó ekki gaman. Það er að horfa á auglýsingar á samfélagsmiðlum. Þar er óþægilegur spegill.
Á tímabili fékk ég ekki annað á fréttaveituna mína en myndskeið af „þægilegasta inniskó í heimi“. Forljótum skó sem ég vil ekki sjá, enda nota ég ekki inniskó. Nú upp á síðkastið eru það túrnærbuxur. Þær eru reyndar stórkostleg uppfinning og ég myndi kannski þola auglýsingarnar, ef það fylgdi ekki alltaf þessi texti: „My teenage daughter absolutely loves these“, eins og mér hljóti að vera hætt að blæða sjálfri, að ég hljóti að vera komin á breytingaskeiðið. (Ég er ekki komin á breytingaskeiðið, svo því sé haldið til haga.) Svo er það mussukjólasíðan. Jú, ég er veik fyrir víðum kjólum en bara fallegum og litríkum. Ég er ekki mussukona. Beislitað hörefni gerir ekkert fyrir mig.
Það sem ég óttast er að auglýsingarnar endurspegli persónuleika minn betur en ég vil viðurkenna. Að Facebook þekki mig betur en ég þekki mig sjálf. Er eftir allt saman kominn tími til að detta í krísu yfir fertugsafmælinu? Eru tóm leiðindi fram undan?
Athugasemdir