H
vers eiga eldri borgarar þessa lands að gjalda? Af hverju er þeim sýnd sú vanvirðing að greiða þeim lífeyri sem er aðeins brot af meðallaunum á Íslandi og skattleggja svo þessi smánarlaun í þokkabót með fullri skattheimtu?
Hvar væri þessi þjóð ef ekki væri fyrir það duglega fólk sem vann hörðum höndum að því að búa í haginn fyrir þá kynslóð sem tekið hefur við? En hvernig er sú kynslóð sem tekið hefur við? Tekið hefur við að efla landsins hag, búa í haginn og hlúa að öllum sem hér búa? Því miður virðast þeir sem komið hafa sér fyrir á Alþingi gera lítið annað en að brjóta réttindi þeirra sem ekki geta varið sinn rétt. Það skiptir engu hvaða flokka við kjósum, það virðist alltaf vera sama fólkið sem hrifsar völdin og þann auð sem þetta land gefur. Ég, um mig, frá mér, til mín er þeirra mottó.
Hver treystir þeim sem svíkja?
Sú kynslóð sem nú er við stjórnvölin virðist halda að þau verði aldrei gamalt fólk eða álítur kannski að nógur tími sé til að laga lögin um skattlagningu og skerðingar áður en þau verða ellilífeyrisþegar. „Lagfæringar verða gerðar í skrefum“ er viðkvæðið. Við sem erum komin á efri ár getum ekki beðið á meðan ríkisstjórnin tekur sín hægu skref til hjálpar öldruðum, því ekki er hlaupið til nema verið sé að sóa fé í einhverja vitleysu, þeim sjáfum til dýrðar. „Peningar eru ekki til“ er viðkvæðið ef aldraðir biðja um hækkun ellilauna en peningar virðast vaxa á trjánum ef stjórninni dettur í hug að hygla að sér kauphækkun eða öðru til eigin hagsmuna. Það undarlega við eftirmála fundarins á Þingvöllum er að þó þjóðin hafi hunsað hann hefur ríkisstjórnin ekki skilið ástæðuna og ekki heldur haft sérstakar áhyggjur af fjarveru þjóðarinnar. Hrokinn er svo mikill að það nægir ríkisstjórninni að baða sig í ljóma eigin dýrkunar og annað skiptir ekki máli. Þau tala um traust, en það eru orðin tóm því þau skilja ekki hvað býr að baki trausti. Hver treystir þeim sem sí og æ svíkja?
Ef ríkisstjórnin færi betur með fé almennings væri hægt að búa eldri borgurum þessa lands þægilegra ævikvöld. En ef sjálfsdýrkun ráðherra og þeirra þingmanna sem aðeins hafa áhuga á framkvæmdum sem færa þeim sjálfum framdrátt á framabraut, þá verður ekki mikil von um bættan hag aldraðra né annarra stétta þar sem þörfin er mikil. Allir eiga rétt á að fá að njóta þess arðs sem landið gefur af sér.
Það vorum við, sem öldruð erum í dag, sem lögðum grunninn að velsæld þessa þjóðfélags með okkar striti frá barnæsku. En eins og ofdekraðir unglingar hrifsa þessir stjórnarliðar að sér hverja krónu til að framkvæma sín dekurmálefni. Þær framkvæmdir sem hjálpa myndu sjúkum, öldruðum og öryrkjum eru geymdar og gleymdar og ef eitthvað fé er í þær sett eru þær upphæðir ekki stórar. Sjálfsagt finnst þeim að við séum vanþakklát og ættum að leggjast á hnén og sýna þakklæti.
Ekki aldraðir sem báru ábyrgð á bankahruninu
Það voru ekki aldraðir sem komu hér á kollsteypu með bankahruni. Það er ekki öldruðum að kenna að fólk eldist, það er lögmál lífsins. Það er ekki við aldraða sakast að framkvæmdir á vegum ríkisins fara marga milljarða framúr áætlun. Það færi betur ef aldraðir væru með fjárráð ríkiskassans. Við fengum ekki allt upp í hendurnar eins og heimtað er í dag, við lærðum að fara vel með peninga. Við lærðum líka að bera virðingu fyrir ellinni því á flestum heimilum landsins voru ömmur og afar sem kenndu börnunum góða siði. Því miður veitti ekki af að hafa slíka kennslu á Alþingi í dag þar sem framúrakstur þingmanna og ráðherra með fé almennings er ótrúlegur og enn ótrúlegra er hvað sumum finnst sjálfsagt að mata sinn krók. Hvað er það sem gerir það að verkum að fyrir kosningar virðast frambjóðendur heiðarlegir og sannfærandi en um leið og á Alþingi er komið virðast þeir breytast í hrokafullar verur? Þarf ef til vill að sótthreinsa Alþingi? Er eitthvað að því lofti sem þingmenn anda að sér á Alþingi sem gjörbreytir þeim? Eða er það græðgi sem tekur völdin? Er lyktin svona vond vegna þess að það er farið að slá í þá sömu þingmenn sem skipta með sér ráðherrastólunum aftur og aftur?
Eldriborgarar fundu styrk í fjöldanum er þeir stofnuðu Gráa herinn en ég er hrædd um að sá her sé sigraður. Það er ekki erfitt að fella þá sem minni máttar eru. Það er ekki erfitt fyrir þá sem sterkari eru og völdin hafa, að slá niður gamalmenni. En það er dapurlegt að ríkisstjórn landsins sem ætti að hlúa að þeim sem eldri eru skuli vera sá aðili sem drepur neistann í gömlu fólki. Aldraðir eru þreyttir, þreyttir á að minna sífellt á að ellilífeyririnn dugar ekki til framfærslu þó sultarólin sé hert.
Talað fyrir daufum eyrum
Á vef Tryggingastofnunar má sjá eftirfarandi klausu: Töluverð einföldun verður á greiðslum ellilífeyris en núgildandi ellilífeyrir (grunnlífeyrir), tekjutrygging og sérstök uppbót til framfærslu sameinast í einn flokk Ellilífeyri. Ellilífeyririnn getur að hámarki verið: 280.000 kr. fyrir skatt á mánuði fyrir þá sem búa einir 227.883 kr. fyrir skatt á mánuði fyrir þá sem búa ekki einir. Gætu stjórnarliðar lifað af því eða eru þeir merkilegri manneskjur en við hin?
Lífeyrissjóðskerfinu var komið á þegar fólk hugsaði fyrir ellinni, ríkisstjórnin hefur engan rétt á að stela af þeim sjóði sem við, þá vinnandi fólk, söfnuðum í sjóð til framfærslu í ellinni. Ríkisstjórnin hefur heldur engan rétt á að banna eldriborgurum að vinna eða refsa þeim með því að segja „Ef þú vinnur þá færð þú ekki lífeyrir frá OKKUR“. Það undarlega við það allt er að aldraðir „máttu“ vinna fyrir 109.000 krónum á mánuði fyrir nokkrum árum en svo var það tekið af, en núna hrósar ríkisstjórnin sér af því að hafa gert það stórvirki að „leyfa“ eldriborgurum að vinna fyrir 100.000 krónur. Enn vantar 9.000 krónur uppá að „leiðrétt sé“ því þetta er aðeins leiðrétting og ætti að endurgreiða aftur til ársins sem þetta var tekið af.
Einnig er rétt að leiðrétta að þegar ráðherrar halda því fram að búið sé að hækka ellilífeyri í 300.000 krónur þá var það aðeins gert fyrir lítinn hóp aldraðra, þeirra sem búa einir. Það var gert með því að hækka svo kallaða heimilisuppbót í 60.516 krónur á mánuði. Við sem búum ekki ein erum ekki öll með maka og þar með sameiginlegan fjárhag. Fólk býr ýmist hjá börnum sínum eða vinir í sambúð. Það eru ekki mannréttindi að mismuna fólki þannig að fólki sé ekki leyfilegt að búa með öðrum nema að missa við það tekjur.
Allt og sumt sem eldri borgarar fara fram á er 300.000 krónur í ellilaun á mánuði fyrir alla og að þessi upphæð sé hvorki skert með skattlagningu né skerðingu á lífeyrissjóðsgreiðslum. Ef meðal laun þessa lands eru 700.000 krónur á mánuði er þetta ekki stór upphæð sem farið er fram á, en aldraðir eru bæði hæverskt og kurteist fólk. Það sorglega er að talað er fyrir daufum eyrum.
Athugasemdir