Axel Pétur Axelsson, umsjónarmaður Frelsis TV hefur stofnað stjórnmálaflokk. Stofnfundurinn var haldinn 18. september þar sem meðal annars var ákveðið að flokkurinn héti Víkingaflokkurinn. Axel Pétur sjálfur er stjórnarformaður flokksins og varaformaður er Bjarni Axelsson.
Samkvæmt vefsíðu flokksins er tilgangur hans að „Vikingar taki aftur stöðu sína sem sjálfsvalda menn á Íslandi og losni undan hremmingstaki erlendra afla.“ Þessu hyggst flokkurinn ná með því að bjóða fram til Alþingis og/eða sveitastjórnakosninga í öllum kjördæmum.
Lög flokksins voru samþykkt á stofnfundinum, þar sem formennska Axels Péturs er bundin í lögin. Formaðurinn hefur einnig neitunarvald um öll mál þrátt fyrir að tekið sé fram að einfaldur meirihluti mættra félagsmanna á aðalfundum ráði úrslitum mála.
Axel Pétur hefur áður stofnað stjórnmálaflokk, en Stundin greindi frá því fyrir rúmum tveim árum síðan. Sá fékk nafnið Sjálfsveldisflokkurinn. Þar voru markmiðin enn háleitari en nú og boðað að valdstjórnin yrði lögð niður og valdið fært aftur til Íslendinga. Flokkurinn átti að bjóða fram til Alþingiskosninga hið sama ár en ekkert varð úr því.
Athugasemdir