Nýlega fór í dreifingu myndskeið, sem ég deildi á samfélagsmiðlinum Twitter. Textinn var eftirfarandi: „Mikilvæg skilaboð frá Manúelu um innri fegurð.“
Klippan er hluti af upptöku sem Manúela Ósk Harðardóttir, skipuleggjandi og andlit fegurðarsamkeppninnar Miss Universe Iceland, setti á miðilinn Instagram í sólarhring. Þar situr hún andspænis karlmanni. Ekki er ljóst hvaða hlutverk hann hefur í keppninni, en það er greinilega tengt mataræði eða hreyfingu núverandi Miss Universe, Katrínar Leu Elenudóttur, þar sem myndskeiðið sýnir hann leiðbeina þeim stöllum um hvernig ákjósanlegast sé að keppendur líti út. Manúela tekur ákaft undir. Á borðinu fyrir framan þau liggur teikning af leggjalangri konu með grannt mitti og stóran barm. Myndin sýnir hana á nærfötunum með kórónu. Dæmi um lífsreglurnar sem ókunni herramaðurinn leggur er að það megi vera smá fylling á lærum fegurðardrottningarinnar, en aðeins á hliðunum – ekki framan á! Hún má hafa magavöðva, en alls ekki of mikla! Það mega sjást skuggar, en hún má ekki vera of „karlmannleg“! Og að lokum að ef stærð hennar er tvöfalt núll láta myndavélarnar hana líta út eins og einfalt núll og ef hún er tvistur mun hún líta út eins og núlla.
Af hverju það er yfirhöfuð til stærð sem gefur til kynna að kona sé minna en ekkert mun ég aldrei skilja, en burtséð frá því er orðræða mannsins og samþykki Manúelu í engum tengslum við veruleikann. Líkamar virka ekki svona og þótt þeir gerðu það, kæmi það virði kvenna ekkert við. Konur eru ekki verksmiðjuframleiddar vörur sem Manúela fær að þrýsta í ákveðið mót. Það myndi þýða að þær sem ekki passa væru gallaðar. Svo er ekki. Líkamar eru alls konar. Það er kannski ekkert leyndarmál hvað mér finnst um fegurðarsamkeppnir, en ég hef alla jafna haldið skoðunum mínum fyrir sjálfa mig svo lengi sem stjórnendur þeirra ýta ekki eitruðum skilaboðum um kvenmannslíkamann út á við. Þetta er eitt af þeim tilvikum.
Athugasemdir