Plakötum með mynd af Hauki Hilmarssyni, sem talinn er hafa fallið þegar Tyrkir réðust inn í Afrin-hérað í Sýrlandi fyrr á þessu ári, hefur verið dreift í Aþenu, höfuðborg Grikklands. Er Haukur kallaður píslarvottur Afrin og plakötin merkt helstu aðilum sem berjast gegn innrás tyrkneska hersins í héraðið. Myndum af plakötunum hefur verið dreift á Twitter.
Enn er ekkert vitað um afdrif Hauks rúmum sjö mánuðum eftir að fregnir bárust um meint andlát hans í sprengjuárás tyrkneska hersins. Haukur var sagður hafa farið til Sýrlands í gegnum tengsl við grískan anarkistahóp til að berjast með Kúrdum gegn ISIS. Íslensk yfirvöld hafa verið gagnrýnd fyrir linkind og meðvirkni gagnvart Tyrklandsstjórn, en Tyrkland er bandalagsríki Íslands innan NATO auk þess sem Réttlætis- og framfaraflokkur Recep Tayyip Erdoğan Tyrklandsforseta er systurflokkur Sjálfstæðisflokksins í Evrópusamtökum íhalds- og umbótasinna.
Fjöldi þjóðþekktra Íslendinga sendi Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra opið bréf þann 23. apríl síðastliðinn, kallaði eftir metnaðarfyllri aðgerðum og gerði athugasemdir við að svo virtist sem rannsókn utanríkisráðuneytisins á hvarfi Hauks hefði verið framkvæmd „með sem minnstri fyrirhöfn og með það fyrir augum að styggja ekki tyrknesk yfirvöld – þau sömu og talin eru hafa sært, handsamað eða jafnvel myrt Hauk“. Katrín hefur því svarað að málið sé í algjörum forgangi hjá utanríkisþjónustunni.
Athugasemdir