Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Barnahús taldi föður hafa brotið gegn börnum en ráðuneytið vill kanna hvort afstaða þeirra litist af „neikvæðu viðhorfi móður“

Sýslu­mað­ur taldi gögn frá lækn­um og frá­sagn­ir barna af meintu kyn­ferð­isof­beldi hafa „tak­mark­aða þýð­ingu“. Dóms­mála­ráðu­neyt­ið legg­ur áherslu á að í Barna­húsi hafi sjón­um ver­ið beint að hugs­an­legu of­beldi en ekki því hvort börn­in vilji um­gang­ast meint­an ger­anda. Nú þurfi að „kom­ast að því hver raun­veru­leg­ur vilji barn­anna sé“.

Dómsmálaráðuneytið hefur fellt úr gildi umgengnisúrskurð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í máli þar sem sýslumannsembættið taldi læknabréf, upplýsingar úr Barnahúsi, álit sálfræðinga og frásagnir barna af meintum kynferðisbrotum föður þeirra hafa „takmarkaða þýðingu“ og sló því föstu að vanlíðan barnanna væri sprottin af „tengslarofi“ þeirra við föður.

Í málinu liggja fyrir lokaskýrslur úr Barnahúsi þar sem fram kemur að „brot og framkoma föður“ hafi haft „mikil áhrif á líðan“ barnanna og bréf barnageðlæknis sem taldi það að þvinga börnin til umgengni við föðurinn „læknisfræðilega ekki forsvaranlegt“ og óttaðist að slíkt gæti haft „varanleg áhrif á þroska og geðheilsu þeirra til framtíðar“. 

Yfirmaður ráðuneytisinsSigríður Andersen er dómsmálaráðherra en lögfræðingar ráðuneytisins kveða upp úrskurði á borð við þann sem hér er fjallað um fyrir hennar hönd.

Dómsmálaráðuneytið leggur hins vegar áherslu á að í Barnahúsi hafi sjónum verið beint að hugsanlegu kynferðisofbeldi en ekki því hvort börnin vilji umgangast meintan geranda. 

Telur ráðuneytið brýnt að „komast að því hver raunverulegur vilji barnanna sé og hvort það kunni að vera að hann sé litaður af neikvæðum viðhorfum móður í garð föður“.

Er það einkum á þessum grundvelli sem ráðuneytið hefur fellt úrskurð sýslumanns úr gildi og beint því til embættisins að taka málið til meðferðar á ný. 

Ólíklegt til sakfellis

Tæpt var á umræddu máli í fréttaskýringu Stundarinnar þann 11. maí síðastliðinn þegar blaðið fjallaði ítarlega um réttarframkvæmd í umgengnis- og dagsektarmálum. 

Við meðferð málsins hjá sýslumanni voru lögð fram gögn frá barnageðlækni og sálfræðingi, bréf skólahjúkrunarfræðings, yfirlýsing kennara, tilkynningar leikskóla, barnasálfræðings og barnageðlæknis til barnaverndarnefndar, kæra til lögreglu og ítarlegar frásagnir barnanna sjálfra af atvikum hjá föður sem samrýmdust kynferðislegri misnotkun að mati meðferðaraðila. 

Héraðssaksóknari og ríkissaksóknari töldu málið ólíklegt til sakfellis, meðal annars vegna þess hve langur tími var liðinn síðan meint brot voru sögð hafa átt sér stað. Sálfræðingur í Barnahúsi sagði þó „brot og framkomu föður“ hafa haft mikil áhrif á líðan barnanna sem hefðu áhyggjur af því að þau gætu endurtekið sig. 

Dómsmálaráðuneytið bendir á að viðtölin í Barnahúsi „fóru fram í öðrum tilgangi en að kanna vilja barnanna til umgengni við föður“. Vill ráðuneytið að sýslumaður rannsaki betur vilja barnanna og kanni hvort andstaða þeirra við að umgangast föður sé ef til vill sprottin af neikvæðum viðhorfum móðurinnar í hans garð. 

Vildi að móðir hvetti börn til umgengni
þrátt fyrir frásögn þeirra í Barnahúsi

Ráðuneytið telur að þótt sérfræðingur í málefnum barna hafi komist að þeirri niðurstöðu eftir nýleg viðtöl við börnin að „regluleg umgengni við föður sé andstæð hagsmunum barnanna“ þá hafi sérfræðingurinn ekki metið „hvort eða að hve miklu leyti afstaða barnanna skýrist af neikvæðum viðhorfum móður í garð föður“. Þess vegna skuli sýslumaður taka málið aftur til meðferðar og ræða við börnin að nýju.

„Brýnt er að komast að því hver raunverulegur vilji barnanna sé og hvort það kunni að vera að hann sé litaður af neikvæðum viðhorfum móður í garð föður,“ segir í úrskurði ráðuneytisins. Þetta er í annað sinn sem ráðuneytið vísar málinu aftur til sýslumanns vegna hnökra á málsmeðferðinni þar.

Eins og Stundin greindi áður frá taldi sýslumaður gögn frá meðferðaraðilum og Barnahúsi um meint kynferðisofbeldi hafa takmarkaða þýðingu í ljósi þess að móðir hefði aflað þeirra „einhliða“ án þess að sömu meðferðaraðilar hefðu rætt við föðurinn. 

Andlit embættisinsÞórólfur Halldórsson sýslumaður hefur lýst því hvernig málsmeðferð í fjölskyldumálum er afrakstur samvinnu starfsmanna og sagst hreykinn af sínu starfsfólki og bera fullt traust til þess.

Niðurstaða sýslumanns var að auka skyldi umgengni barnanna við föður þeirra til að vinna úr því „tengslarofi“ sem hefði orðið milli barna og föður. Dregin var sú ályktun að vanlíðan barnanna mætti rekja til ágreinings foreldranna og „afstöðu móður til umgengninnar“. Móðir, sem sjálf bar við að henni bæri skylda til að vernda börn sín fyrir hvers kyns vanvirðandi háttsemi og ofbeldi, var sögð hafa „í veigamiklum atriðum brotið skyldur sínar samkvæmt 46. barnalaga [sic]“.

Gaf sýslumaður móðurinni fyrirmæli um að „gæta þess að börnin finni einungis fyrir jákvæðu viðhorfi til föður og fái hvatningu frá henni til að umgangast föður“. Var ætlast til þessa af móðurinni þrátt fyrir frásagnir barnanna af meintum kynferðisbrotum og álit sálfræðings og barnageðlæknis sem töldu börnunum stafa hætta af umgengni við föðurinn. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Barnaverndarmál

Barnaníðskæru dagaði uppi fyrir „mjög bagaleg mistök“
FréttirBarnaverndarmál

Barn­aníðs­kæru dag­aði uppi fyr­ir „mjög baga­leg mis­tök“

Al­var­leg mis­tök lög­regl­unn­ar á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og óvenju­leg af­skipti þá­ver­andi for­stjóra Barna­vernd­ar­stofu af Hafn­ar­fjarð­ar­mál­inu urðu til þess að kæra barna­vernd­ar­nefnd­ar vegna meintra kyn­ferð­is­brota fékk ekki lög­mæta með­ferð og lá óhreyfð í meira en tvö ár. „Lög­regla beið eft­ir gögn­um frá barna­vernd sem aldrei komu,“ seg­ir í bréfi sem lög­regla sendi rík­is­sak­sókn­ara vegna máls­ins.
Barn talið óhult hjá föður þrátt fyrir sögu um barnaníð
FréttirBarnaverndarmál

Barn tal­ið óhult hjá föð­ur þrátt fyr­ir sögu um barn­aníð

Rann­sókn á meint­um kyn­ferð­is­brot­um föð­ur gegn barni var felld nið­ur án lækn­is­skoð­un­ar og Barna­hússvið­tals, en í kjöl­far­ið komu fram yf­ir­lýs­ing­ar frá kon­um sem segja mann­inn hafa mis­not­að þær í æsku. Dóm­stól­ar telja að „það þjóni hags­mun­um barns­ins að það njóti meiri og sam­felld­ari um­gengni við föð­ur“ og hafa úr­skurð­að um um­gengni án eft­ir­lits.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár