Borgarfulltrúar og sveitarstjórnarmenn fá sérstakar greiðslur, umfram föst laun sín, fyrir setu í stjórnum félaga á vegum hins opinbera. Heildarupphæðir þessara greiðslna hlaupa á tugum milljóna króna. Stjórnirnar funda misoft og eru fulltrúar borgar og bæja misduglegir við að sækja fundina. Langflestir sem eiga sæti í stjórnunum eru fulltrúar Sjálfstæðisflokksins en þeir eru jafnframt með lökustu mætinguna á stjórnarfundi.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, lagði til á fyrsta fundi borgarstjórnar á þriðjudag að banna stjórnendum og kjörnum fulltrúum borgarinnar að þiggja þóknun fyrir fundarsetu í stjórnum, ráðum og nefndum sem haldnir eru á vinnutíma.
„Fyrsta skrefið ætti að vera að banna þessu fólki að taka þóknanir fyrir fundi sem það situr í vinnutíma sinnar aðalvinnu og sem eru því augljóslega hluti af þeim starfsskyldum sem það fær greitt fyrir af föstum launum,“ er haft eftir Sönnu í fréttatilkynningu frá Sósíalistaflokknum.
„Fyrsta skrefið ætti að vera að banna þessu fólki að taka þóknanir fyrir fundi sem það situr í vinnutíma sinnar aðalvinnu“
Daníel Örn Arnarsson, varaborgarfulltrúi sósíalista og stjórnarmaður í stéttarfélaginu Eflingu, tekur í sama streng. „Konan sem skúrar skrifstofu Dags B. Eggertsson er líklega með lágmarkslaun, 300 þúsund krónur á mánuði,“ segir Daníel. „Dagur sjálfur tekur síðan 330 þúsund krónur í þóknun fyrir einn klukkutíma á fundi hjá slökkviliðinu. Borgarfulltrúar verða að stoppa þetta.“
Stundin tók saman greiðslur til borgarfulltrúa fyrir setu í stjórnum fyrirtækja. Á borgarstjórnarfundi síðastliðinn þriðjudag var endurkjörið í flestar stjórnir sem fulltrúar Reykjavíkurborgar eiga sæti í.
Laun borgarfulltrúa hækkuðu um tíu prósent í fyrra
Í kjölfar hins umdeilda úrskurðar kjararáðs á kjördag til Alþingis þann 29. október árið 2016 hafa laun kjörinna fulltrúa hjá sveitarstjórnum hækkað gríðarlega. Mörg sveitarfélög höfðu það fyrirkomulag að laun kjörinna fulltrúa voru tengd þingfararkaupi og því var útlit fyrir að laun þeirra myndu hækka um 45 prósent, eins og laun þingmanna í kjölfar úrskurðar kjararáðs.
Miklar deilur sköpuðust meðal borgarfulltrúa hvernig leysa ætti málið og vildu sumir borgarfulltrúar hækka launin í samræmi við úrskurð kjararáðs. Þann 4. apríl í fyrra samþykktu fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata í borgarráði Reykjavíkurborgar að afnema þingfararkaupstenginguna. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, þáverandi borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, greiddi atkvæði gegn tillögunni á meðan þáverandi borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, sátu hjá.
Með afnámi þingfararkaupstengingarinnar var ákveðið að tengja laun borgarfulltrúanna við launavísitiölu. Þannig nam hækkunin á launum borgarfulltrúa um tíu prósentum og hækkuðu grunnlaun úr 593.720 krónum í 653.022 krónur en þau nema í dag um 700 þúsund krónum vegna hækkunar launavísitölu.
Í grunnlaunum felast að fullu greiðslur fyrir setu í nefndum og ráðum borgarinnar, þar með talið formennsku í öðrum nefndum en fastanefndum. Þá er gert ráð fyrir því að borgarfulltrúi sitji í einni af aðalfastanefndum borgarinnar.
Fyrir formennsku í fastanefnd fá borgarfulltrúar greitt álag sem nemur 25 prósent af grunnlaununum, eða um 165 þúsund krónur. Fyrir formennsku í borgarstjórnarflokki fá borgarfulltrúar greitt sama álag og sama gegnir um þá sem sitja í þremur eða fleiri fastanefndum. Þá fær formaður borgarráðs greitt 40 prósenta álag af grunnlaununum.
Auk þess fá borgarfulltrúar greiddar rúmar 50 þúsund krónur í starfskostnað hvern mánuð. Sú upphæð er greidd vegna persónulegra útgjalda vegna starfsins, til dæmis áskriftir dagblaða, bóka- og tímaritakaupa, ferðir innan höfuðborgarsvæðisins og veitingar. Þá leggur Reykjavíkurborg hverjum borgarfulltrúa til farsíma og greiðir kostnað af notkun hans, eins og af nettengingu á heimilum borgfulltrúa. Borgarfulltrúum er jafnframt úveguð skrifstofa og almennur skrifstofubúnaður, þar með talið fartölva.
Þrátt fyrir að laun borgarfulltrúa séu rúmlega tvöfalt hærri en lágmarkslaun, með ríkulegum álagsgreiðslum, nema greiðslur til borgarfulltrúa vegna setu í stjórnum fyrirtækja tugmilljónum króna á hverju ári.
Athugasemdir