„Ha, efast einhver um það?“ kynnu einhverjir að hafa spurt þegar þeir ráku augun í pistil Gunnars Jóhannessonar guðfræðings og prests með sama titli í byrjun mars. Hinir sömu gætu jafnvel ályktað að fyrst presturinn spyr (og reynir að svara) sé spurningin kannski ekki svo fjarstæðukennd.
Í grein sinni fullyrti Gunnar að hugsanleg ekki-tilvist Jesú væri eitthvað sem „enginn ábyrgur sagnfræðingur tekur alvarlega.“ En hvað meinar Gunnar með „ábyrgur“? Er það „innmúraður og innvígður“ sagnfræðingar eða sagnfræðingur sem telur sig bera ábyrgð á því að viðhalda viðtekinni hugmyndafræði? Hvað svo sem Gunnar var að reyna að segja er ljóst að sagnfræðingar, guðfræðingar og aðrir fræðimenn á þessu sviði sem hafa efast um tilvist Jesú eru talsvert færri en hinir.
Langflestir fræðimenn á þessu sviði eru enda kristnir eða koma frá kristnum bakgrunni, tilvist Jesús er fyrir þeim sumum trúarleg nauðsyn, en fyrir öllum svo stór partur af menningu og uppeldi að erfitt er að horfa framhjá.
Eftirfarandi grein er samantekt af greinaröð sem birtist nýlega á Vantrú.is þar sem ég leitast við að sýna að það er full ástæða til að efast um tilvist Jesú. Ytri heimildir um Jesú eru engar frá hans eigin samtíma seinni heimildir eru fátæklegar, óáreiðanlegar og vafasamar.
En það eru bækur Nýja Testamentisins sem fyrst og fremst vekja efa um tilvist Jesú. Guðspjöllin eru með öllu ótæk sem heimildir og Pálsbréfin virðast um himneskan Jesú, ekki jarðneskan.
Ytri heimildir
Fyrsta og önnur öld okkar tímatals var mikill blómatími ritlistar og fræðimennsku og þögn samtímahöfunda um Jesú er sláandi. Kristnir höfundar á annarri og þriðju öld voru meðvitaðir um þennan skort á heimildum og jafnvel á fjórðu öld bendir heimspekingurinn, rithöfundurinn og keisarinn Júlían, náfrændi Konstanínusar keisara, á að engar heimildir finnast um atburði guðspjallanna eða Pálsbréfa. Sjálfsagt hefur enginn einstaklingur fornaldar haft betri aðgang að heimildum, jafnt opinberum skjölum sem öðrum ritum.
Eusebíus biskup og fylgismaður Konstantínusar var þá reyndar nýbúinn að bæta úr þessum heimildarskorti með því að skeyta furðulegum kafla inn í bókina Gyðingastríðin eftir Jósefus sagnaritara sem skrifuð er við lok fyrstu aldar. Eintak Júlíans hefur sjálfsagt enn verið í upphaflegri mynd.
Þeir rómversku heimildarmenn sem stundum er vitnað til, þeir Plíníus yngri, Svetóníus og Takítus, skrifa við upphaf annarrar aldar og segja í raun ekkert sem getur staðfest tilvist Jesú.
Gyðingurinn Jósefus sagnaritari er langbesta heimild okkar fyrir atburðum fyrir botni Miðjarðarhafs á fyrstu öld, og í sínu mikla sagnfræðiriti, Gyðingastríðin, rekur hann pólitískar og trúarlegar sviptingar fyrstu aldar í Palestínu en nefnir hvergi Jesú eða kristna söfnuði.
Eusebíus hefur sjálfsagt ekki lagt í að krukka í þessa vel þekktu bók Jósefusar, en annað og minna þekkt rit hans, Saga Gyðinga, lá vel við höggi, og svokallaður Testímóníum Flavíus leit dagsins ljós. Stutt klausa í sömu bók, um Jakob bróðir Jesú, er heldur ekki áreiðanlegur vitnisburður um tilvist Jesú.
Frá fyrstu og annarri öld eru sem sagt fjórar heimildir sem nefna Jesú: þrjár rómverskar sem í raun segja ekki neitt, og ein gyðingleg sem er bæði óljós og óáreiðanleg.
Guðspjöllin
Heimildargildi guðspjallanna er nánast ekkert eins og fjölmargir fræðimenn hafa bent á og ítrekað er í guðfræðideildum háskóla um allan heim. Gunnar hefur auðvitað lært þetta í sínu námi en vera má að hann telji trúarsannfæringu trompa fræðimennsku.
Margt í guðspjöllunum stangast á, til dæmis röð atburða, tímasetningar og staðsetningar, og þar sem tveir segja ólíkar sögur geta ekki báðar verið sannar. Guðfræði þeirra er ólík, sem og sú mynd sem dregin er upp af Jesú. Enda er það mikið áhyggjuefni guðfræðinga að engin niðurstaða hefur enn fengist í það hver hinn “sögulegi” Jesú hafi verið og hvað honum hafi gengið til, og eru þó tilgáturnar býsna margar.
Guðspjöllin eru því vafasamar heimildir jafnvel áður en minnst er á að kraftaverkin eru augljós skáldskapur. Frásagnirnar eru helgisögur, skrifaðar í trúarlegum tilgangi. Fjölmörg önnur guðspjöll en þau fjögur sem eru í Nýja Testamentinu hafa fundist (og vitað er um enn fleiri) og enginn efast um að þau séu einnig skáldskapur.
Fræðimenn hafa skorið trúverðugleika guðspjallanna við trog þar til þeir flestir enda í tveimur atriðum sem þeir telja nokkuð örugg: Að Jesú var til og var tekinn af lífi. Og um eitt geta allir verið sammála, að fylgismenn hans trúðu því að hann hefði risið upp frá dauðum.
Upprisin goðmenni
Við vitum að dauðir rísa ekki upp aftur, en jafnvel þótt slíkur atburður hefði orðið eru litlar líkur á því að þeir sem það sáu gætu sannfært aðra. Sögur af slíkum kraftaverkum voru algengar, og fjölmörg önnur trúarbrögð snérust bókstaflega um dauða og upprisu goðmenna.
Steinkistur Rómverja voru gjarnan skreyttar lágmyndum úr ævi Díónýsusar enda var hann talinn hafa sigrast á dauðanum með upprisu sinni. Hann er oft sýndur staursettur (guðspjöllin eru rituð á grísku og þar er Jesú staursettur, latneska þýðingin breytir því í krossfestingu) en til er lágmynd sem sýnir hann krossfestan eins og latneska þýðing guðspjallanna segir að Jesú hafi verið.
Ísistrú upprunnin í Egyptalandi var ein útbreiddasta trú Rómarveldis á keisaratíma og fram á 4. öld. Ósíris og Ísis mynduðu ásamt hinum meyfædda frelsara Hórus hina heilögu þrenningu og á árlegri hátíð var upprisu Ósírisar fagnað á þriðja degi. Líkami Ósírisar var landið sjálft og jarðargróðurinn og Egyptar framfleyttu lífinu með neyslu holds hans í formi brauðs.
Upprisa Jesú er það eina sem getur skýrt tilurð kristinnar trúar, ekkert sem Jesús segir eða gerir í guðspjöllunum gefur tilefni til nýrra trúarbragða. Og þar sem upprisur verða ekki í raunheimum (en eru algengar í goðheimum), hvernig er þá hægt að skýra uppruna kristinnar trúar?
Pálsbréfin og hinn andlegi Jesú
Dauði og upprisa Jesú er aðalatriðið hjá Páli postula. Páll hefur annars nánast ekkert um Jesú að segja, hann vitnar aldrei til orða hans eða gjörða máli sínu til stuðnings þótt ærin séu tilefnin. Kristur er fastagestur hjá Páli, en persónuna Jesú er vart að finna.
Fræðimenn hafa löngum furðað sig á þessu. Pálsbréfin eru elstu heimildir okkar um kristna trú, skrifuð á sjötta áratug fyrstu aldar, og Páll þekkti persónulega þá einstaklinga sem áttu að hafa verið fylgismenn Jesú. Hvernig stendur á því að Páll er svona skeytingarlaus um persónu Jesú, orð hans og athafnir?
Jafnvel á þeim fáu stöðum þar sem Páll virðist vera að vitna í þekkta atburði úr lífi Jesú segist hann hafa “meðtekið frá Drottni” vitneskju sína, en ekki frá kunningjum sínum. Páll segir frá því að Jesús hafi birst sér eftir upprisuna og telur það jafnfætis því þegar Jesús birtist postulunum. Samkvæmt Páli birtist Jesús “Kefasi, síðan þeim tólf.” Þessu næst birtist Jesús “fimm hundruð bræðrum í einu”, síðan “Jakobi og postulunum öllum” og loks “einnig mér” (Fyrra Kórintubréf, 15:3-8).
Í hugarheimi fornaldar var veröldinni skipt í himneskt svið og jarðneskt. En í hinu jarðneska sviði leyndist urmull ósýnilegra vera, engla og djöfla en þar var einnig að finna “arkóna” svokallaða, “upphafsmenn” eða “stjórnendur” sem stýrðu atburðum raunheima bak við tjöldin. Gyðingar jafnt sem heiðnir skrifuðu upp á þessa heimsmynd og það eru einmitt “arkónar” sem samkvæmt Páli stóðu fyrir krossfestingu Jesú.
Hið Íslenska Biblíufélag þýðir arkóna sem “heimsvættir”, “tignirnar og völdin”, “valdhafar loftsins”. Hið himneska svið veraldarinnar var bústaður Guðs almáttugs, og algeng sýn fornaldar á samskipti Guðs við hið veraldlega svið var að það ætti sér stað þannig að Guð miðlaði, gegnum visku sína Sófíu, vilja sínum til Lógos sem var handhafi guðlegs valds á jörðu niðri. Algeng trú manna var að slík samskipti ættu sér ekki lengur stað, Lógos væri horfinn úr heiminum.
Jóhannesarguðspjall er ekki í nokkrum vafa um hver Lógos (orðið) var: „Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er.“ Lógos Guðs er Jesú Kristur.
Þessi þrenning, Guð, Sófía og Lógos, eru einnig vel þekkt hjá Fíló frá Alexandríu, gyðinglegum heimspekingi sem fléttar gríska heimspeki saman við gyðingatrú við upphaf fyrstu aldar.
Hin fræðilega nálgun Fíló var að rýna í ritninguna og túlka hana upp á nýtt. Höfundar Dauðahafshandritanna notuðu sömu aðferðir af miklum trúarhita. Páll virðist hafa gert hið sama - hann finnur Jesú í ritningunni, dauða hans og upprisu. En hann hefur aldrei heyrt um jarðneskan Jesú.
Ef þetta er rétt skilið, hvernig getur himneskur Messías sem aðeins er að finna gegnum skapandi lestur ritninganna orðið að persónuninni Jesú í Guðspjöllunum? Nafnið sjálft, Jesús, er grísk útgáfa Jósúa (“guð frelsar”), þess sem leiddi gyðinga til fyrirheitna landsins. Nafnið liggur því í augum uppi - og var furðu algengt á fyrstu öld.
Skáldsögur um goðmenni voru einnig algengar á fornöld. Og loks má ekki gleyma því að milli þeirra Fílós og Páls annars vegar og guðspjallanna hins vegar var Palestína skekin af stórstyrjöld sem endaði með eyðingu musterisins, miðpunkti gyðingatrúar, árið 70. Heimur jafnt gyðinga sem hinna frumkristnu söfnuða í Palestínu hrundi, og það tók marga áratugi að finna fótfestu aftur.
Annað eins hefur gerst í veraldarsögunni – þegar nógu langt er liðið frá atburðum, og ekki síst, ef skrifaðar hafa verið um það bækur, virðist fólk geta trúað hverju sem er. Hin andlega kristni Páls breytist í hina jarðbundnu, og að mati samtímamanna, einfeldningslegu trú á persónulegan Jesú.
____________________
Hér hefur verið stiklað á stóru en þeir sem hafa áhuga á að kynna sér málið nánar geta byrjað á því að líta á greinaflokk minn á Vantrú.is.
Var Jesús til?
Guðspjöllin sem heimildir
Páll postuli og dauðahafshandritin
Athugasemdir