Í dag eru tvöfalt fleiri starfandi ljósmæður á Íslandi á aldrinum 65-70 ára en á aldrinum 28-34 ára. Í heildina eru starfandi ljósmæður á landinu 290 talsins. Þar af eru 152, eða 52 prósent, eldri en 50 ára. Á hverju ári útskrifast 7-12 ljósmæður. Úr mínum útskriftarárangi eru fimm starfandi við fagið. Það eru ekki allir tilbúnir að lækka í launum eftir tveggja ára viðbótarnám. Heimtur úr ljósmæðranámi í starf innan stéttarinnar eru ekki nægjanlega góðar. Það þarf ekki spákonu, ekki einu sinni stærðfræðing, til að sjá fram í tímann hafandi séð þessar tölur hér að ofan.
Ég útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur 2014 og sem ljósmóðir 2017. Það gefur því auga leið að ég er ekki með langa reynslu sem hjúkrunarfræðingur. Þrátt fyrir það lækkaði ég í launum við það að útskrifast sem ljósmóðir.
„Ljósmæður eru eina stéttin sem lækkar í launum við það að öðlast starfsréttindi.“
Ljósmæður eru með mestu menntunarkröfur til starfsréttinda innan BHM utan prófessora. Ljósmæður eru eina stéttin sem lækkar í launum við það að öðlast starfsréttindi.
Ljósmæður þjónusta allar konur í barneignarferlinu. Allar. Þær sinna konum í meðgönguvernd, í veikindum á meðgöngu, í fæðingu, í sængurlegu, í heimaþjónustu, sinna börnum á vökudeild og hlúa að foreldrum sem eiga um sárt að binda eftir barnsmissi og fósturlát. Auk þessa sjá þær um krabbameinsleit hjá Krabbameinsfélaginu. Ljósmæður vinna alla daga vikunnar, allt árið um kring. Fjölskyldur á Íslandi hafa greiðan aðgang að þjónustu ljósmóður allan sólarhringinn.
Hvers virði eru íslenskar ljósmæður í útrýmingarhættu?
#égstyðljósmæður
Athugasemdir