Í seinni heimsstyrjöld lentu Norðurlöndin hvort sínum megin við víglínurnar og reyndar allan hringinn, allt frá því að vera í liði með Þjóðverjum og yfir í að vera hermundir af þeim yfir í að vera í liði með bandamönnum eða hernumdir af þeim, eða þá að reyna að feta sig einhvern veginn þarna á milli.
En hvert var stefna Norðurlanda þegar ófriður braust út í álfunni árið 1939? Hún var sú sama og í fyrra stríði, að halda sig utan við átökin. Þetta hafði þeim tekist árin 1914–18, að frátöldu Finnlandi sem þá var hluti af rússneska keisaradæminu. En hver var besta leiðin til að viðhalda hlutleysinu?
Upplausn Þjóðabandalagsins
Á millistríðsárunum settu Norðurlöndin traust sitt á Þjóðabandalagið, sem var nokkur konar blanda af Sameinuðu þjóðunum og NATO. Árás á eitt ríki átti að kalla á viðbrögð allra hinna. Á fjórða áratugnum fór þetta kerfi að gliðna í sundur. Þýskaland sagði sig úr bandalaginu árið 1933, Sovétríkin voru tekin inn í staðinn, en Bandaríkin höfðu haldið sig utan við frá upphafi. Ekkert var aðhafst þegar Japanir lögðu undir sig Mansjúríu árið 1931 og þegar Ítalir réðust á Eþíópíu 1935 og enn var ekkert gert virtist mörgum sem bandalagið þjónaði litlum tilgangi. Árið 1936 sögðu Norðurlöndin sig úr varnarsamstarfinu, og ætluðu þar eftir að taka afstöðu til hvers máls fyrir sig. Og það kom brátt að því að röðin kæmi að þeim.
Ástæða þess að sótt var að Norðurlöndunum úr ýmsum áttum árin 1939–40 var ekki síst sú að ekkert stórveldanna treysti þeim til að geta varið sig gagnvart hinum. Stalín hafði áhyggjur af því að Þjóðverjar myndu sækja að sér í gegnum Finnland, á meðan Þjóðverjar treystu ekki Norðmönnum til að vernda hlutleysi sitt gagnvart Bretum sem lögðu tundurdufl í norska landhelgi. En hvers vegna mynduðu Norðurlöndin þá ekki sameiginlegt varnarbandalag, sem hefði kannski ekki getað sigrað í stríði við stórveldin, en þó haft nægan fælingarmátt til að halda þeim frá?
Norðurlöndin voru reyndar ekki alltaf samstiga og áttu í ýmsum innbyrðisdeilum á fyrri hluta 20. aldar. Svíar og Norðmenn höfðu næstum lent í stríði þegar Norðmenn lýstu yfir sjálfstæði árið 1905 þó ekki hafi orðið úr. Svíar og Finnar deildu um Álandseyjar svo að Þjóðabandalagið varð að skerast í leikinn, og norskir ævintýramenn með stuðningi varnarmálaráðherrans Vidkun Quisling gerðu innrás í Austur-Grænland árið 1931. Þá stefndi um tíma í stríð við Dani, en aftur skarst Þjóðabandalagið í leikinn og úrskurðaði Dönum í vil svo að Norðmenn létu undan. Ef finna ætti sameiginlegan óvin var heldur ekki ljóst hver sá ætti að vera. Finnar höfðu mestar áhyggjur af Rússum, Danir og Norðmenn af Þjóðverjum og Svíar urðu að líta í báðar áttir. Niðurstaðan varð sú að eftir að stríð hafði brotist út í álfunni hittust kóngarnir þrír og forseti Finnlands í Stokkhólmi í október árið 1939 og lýstu sameiginlega yfir hlutleysi sínu, en ekkert var gert til að samrýma aðgerðir. Þegar ráðist var á Finnland rúmum mánuði síðar stóðu þeir því einir gegn Sovétríkjunum.
Vetrarstríðið
En hvers vegna kusu Finnar að berjast gegn Rússum, þó ljóst væri flestum, þar á meðal Mannerheim marskálki, yfirmanni hersins, að þeir gætu aldrei sigrað í slíku stríði? Kröfur Stalíns voru ekki svo ýkja ósanngjarnar, hann vildi færa landamærin frá Moskvu en bauð Finnum meira landsvæði á móti annars staðar. Þá vildi hann fá að hafa rússneska herstöð á finnskri jörð, og var þetta betra tilboð en Finnar fengu að stríði loknu. En var Stalín treystandi? Eystrasaltslöndin gengust við álíka tilboðum, með þeim afleiðingum að löndin voru öll innlimuð í Sovétríkin. Vel má vera að það sama hefði hent Finna. Sú ákvörðun Stalíns að stofna finnskt Sovétlýðveldi sín megin landamæranna með finnska kommúnistann Otto Ville Kuusinen í fararbroddi bendir og til þess að ætlunin hafi verið að sameina löndin tvö undir sovéskri stjórn. Það sem við vitum fyrir víst er að Stalín bjóst við fjögurra vikna stríði og gaf skriðdrekum sínum skipun um að nema staðar við sænsku landamærin, lengra átti ekki að halda.
En það fór á annan veg. Finnski herinn hafði verið kallaður út í tæka tíð og veitti öflugt viðnám og stríðið stóð í þrjá mánuði. Svíar lýstu ekki yfir hlutleysi heldur sögðust ekki beinir þátttakendur. Þeir sendu Finnum talsvert magn vopna, sænskir sjálfboðaliðar héldu af stað á vígstöðvarnar og sænski flugherinn tók að sér varnir Lapplands, þó málaður í einkennislitum Finna. Bretar og Frakkar, þrátt fyrir að vera þegar í stríði við Þjóðverja, ákváðu seint og um síðir að skerast í leikinn og senda her í gegnum Noreg og Svíþjóð til stuðnings Finnum, sem átti um leið að skera á járngrýtisbirgðalínur Svía til Þýskalands. Á sama tíma átti að gera loftárásir á olíuvinnslustöðvar Rússa í Kákasushéruðunum frá frönskum bækistöðvum í Sýrlandi. Þessi mjög svo metnaðarfulla áætlun um að sigra í stríðinu án þess að ráðast á óvininn beint komst þó aldrei til framkvæmda, því þann 13. mars sömdu Finnar um frið. Finnar misstu næststærstu borg sína, Viipuri, og um 13 prósent landsvæðis síns, en þeir héldu sjálfstæðinu.
Heimildarmynd um Finnska vetrarstríðið.
Þjóðverjar sækja norður
Brölt þetta hafði fært athygli stórveldanna norður á bóginn og þann 9. apríl 1940 réðust Þjóðverjar á Danmörku og Noreg. Lítið var um varnir í fyrstu. En hefðu menn getað gert betur?
Danir börðust reyndar í fyrstu á Jótlandsskaga með nokkrum árangri þar til sú ákvörðun var tekinn eftir sex klukkutíma að gefast upp af ótta við loftárásir á Kaupmannahöfn. Vissulega var útilokað fyrir Dani að sigra í stríði við Þjóðverja til lengri tíma litið, en þeir hefðu getað veitt öflugra viðnám sem mögulega hefði haft áhrif á vígstöðvarnar annars staðar. En þetta hefði kostað miklar fórnir. Í staðinn var farin sú leið að vinna með Þjóðverjum, og var þeirri stefnu fylgt allt fram í ágúst 1943 þegar beint hernám tók við.
Lega Danmerkur gerði varnir vissulega erfiðar, en öðru máli gilti um Noreg. Landið er langt og mjótt og með ótal náttúrulegra farartálma. Þar að auki gátu Norðmenn reitt sig á hjálp frá Bretum, sem réðu lögum og lofum á sjó. Því má í raun furða sig á að innrás Þjóðverja hafi gengið jafn vel og raun bar vitni. Er þetta að hluta til Norðmönnum sjálfum að kenna, sem hunsuðu allar viðvaranir og kölluðu ekki herinn út strax af ótta við að styggja Þjóðverja. Sumum sveitum var jafnvel sagt að mæta til herstöðva sinna að þrem dögum liðnum, en þá var Suður-Noregur löngu fallinn.
Minnstu mátti þó muna að enn verr færi. Ætlun Þjóðverja var að grípa ríkisstjórnina og konunginn í bólinu og knýja þannig Norðmenn til uppgjafar. En í hinu forna Oscarsborg virki í Óslóarfirði ákvað yfirmaðurinn Birger Erikssen að hefja skothríð án þess að hafa fengið um það skipun að ofan. Flaggskipi Þjóðverja, Blücher, var sökkt og hinum stökkt á flótta. Konungurinn og ríkisstjórnin komust undan og ákveðið var að berjast áfram. Baráttunni lauk ekki fyrr en 10. júní þegar fall Frakklands stóð fyrir dyrum, en útlagastjórn Noregs í London hélt stríðsrekstrinum áfram allt fram að stríðslokum.
Þýsk samtímamynd fjallar um aðgerðir Þjóðverja til að „verja hlutleysi“ Danmerkur og Noregs, með innrás.
Ófarir í Noregi komu Churchill að
Þetta hefði þó auðveldlega getað farið á annan veg. Ríkisstjórnin íhugaði um stund að gefast upp og hefði þá farið dönsku leiðina, starfað með Þjóðverjum en líklega hefði staðan eftir sem áður snúist upp í beint hernám þegar fór að halla undan fæti hjá Hitler eins og raunin varð í Danmörku. En hinn möguleikinn var einnig fyrir hendi, að kalla út herinn strax eins og Finnar gerðu, sem hefði gert Þjóðverjum mun erfiðara fyrir. Þetta hefði jafnvel getað haft afleiðingar fyrir gang stríðsins. Eftir ófarirnar í Noregi sagði Chamberlain, forsætisráðherra Breta, af sér og Winston Churchill kom í hans stað. Ef tekist hefði að stökkva Þjóðverjum á flótta í Noregi hefði Chamberlain líklega enn verið forsætisráðherra þegar Frakkar gáfust upp, og hver veit nema hann hefði þá reynt að semja um frið og stríðinu lokið árið 1940 með sigri Þjóðverja.
Svíar hafa fengið afar bágt fyrir framgöngu sína í stríðinu, Norðmenn eru þeim gramir fyrir að hafa ekki veitt sér aðstoð gegn Þjóðverjum og Finnar sömuleiðis gegn Rússum. En staða þeirra var flókin. Svíar voru stærst Norðurlanda og varnarbandalag við Finna hefði hugsanlega dugað til að halda þeim utan við stríðið. Tilraunir voru gerðar í þá átt árið 1938 þegar Svíar og Finnar íhuguðu í sameiningu að koma fyrir vörnum á Álandseyjum, en við þetta var hætt sökum andstöðu Rússa. Þá var íhugað að stofna sambandsríki með Finnum árið 1940, en í þetta sinn lögðust bæði Rússar og Þjóðverjar gegn því, enda voru Þjóðverjar þá farnir að íhuga innrás í Sovétríkin og vildu hafa Finna með.
Svíar hefðu getað veitt Norðmönnum beinan stuðning, en Þjóðverjar voru með viðbragðsáætlun gegn slíku og reiknuðu með að fjórar vikur tæki að hernema landið. Erfitt er að sjá að hernumin Svíþjóð hefði reynst gagnlegri en hlutlaus, en gyðingar og aðrir flóttamenn frá Noregi og Danmörku áttu athvarf þar. Þá tókst diplómatanum Wallenberg að bjarga þúsundum gyðinga í Ungverjalandi með því að gefa þeim sænska passa. Ólíkt fyrri heimsstyrjöld, þar sem Svíar íhuguðu að taka þátt í stríðinu við hlið Þjóðverja, voru í þetta sinn engar áætlanir gerðar um innrás í önnur lönd, nema að menn gerðu ráð fyrir þeim möguleika að þurfa að ráðast inn í Danmörku og Noreg árið 1945 ef Þjóðverjar gæfust ekki friðsamlega upp þar eða þá að kommúnistar yrði líklegir til að komast til valda. Eftir stendur að Svíar frömdu hlutleysisbrot til handa Þjóðverjum, leyfðu þeim að flytja hermenn yfir landið og seldu þeim járngrýti nánast fram á síðasta dag, jafnvel eftir að mesta innrásarhættan var gengin yfir.
Áróðurskvikmynd nasista um stríðið um Noreg, frá árinu 1940.
Stærstu orrustur í sögu Norðurlanda
Svíar héldu hlutleysi sínu einir Norðurlanda, en það voru Finnar sem komu verst út úr stríðinu. Friður hélst í rúmt ár á Kirjálaeiði eftir endalok Vetrarstríðsins, en þann 25. júní 1941 braust stríð þar út á ný, og í þetta sinn voru það Finnar sem áttu upptökin. Hvað olli?
Í raun hafði hvorugur stríðsaðila verið ánægður með niðurstöðu Vetrarstríðsins. Stalín hafði verið niðurlægður og margir ráðamenn í Helsinki óttuðust að hann myndi reyna aftur. Á sama tíma var almenningur í Finnlandi óánægður með að svo mikið land hefði verið látið af hendi. Hafði stríðið ekki þrátt fyrir allt gengið nokkuð vel? Finnar leituðu á náðir Þjóðverja eftir lok stríðsins og öflugur þýskur her kom sér fyrir í Lapplandi. Þrem dögum eftir að Þjóðverjar réðust á Sovétríkin ákváðu Finnar að gera hið sama.
Markmið Finna í stríðinu voru takmörkuð. Endurheimta skyldi hin glötuðu landsvæði en haldið var áfram yfir gömlu landamærin og öll Karelía hernumin. Fólk þar talaði mállýsku sem var svipuð finnsku og nú skyldi innlima svæðið allt í Finnland og höfuðborgin Petrozavodsk var endurskírð „Äänislinna“. Var þetta hinn gamli draumur margra þjóðernissinna um stór-Finnland, sem þeir höfðu viljað stofna strax árið 1918 þegar Rússar voru uppteknir í borgarastríði sínu. Sumum fannst þó fulllangt seilst. Churchill hafði stutt Finna í Vetrarstríðinu, en var nú kominn í bandalag við Stalín. Hann sendi Mannerheim skeyti þar sem Finnar voru beðnir um að nema staðar, en við því var ekki orðið og Bretar lýstu Finnum stríð á hendur, án þess að mikið yrði úr átökum þeirra á milli. Bandaríkjamenn gerðu það þó ekki þegar þeir gengu með Rússum í lið undir lok árs.
Eigi að síður námu Finnar staðar þegar Petrozavodsk hafði verið hernumin og við tók stöðustríð þar sem víglínan færðist lítið fram á sumar 1944. Þá voru Þjóðverjar teknir að hörfa út úr Rússlandi og Bandamenn lentir í Normandí. Finnar höfnuðu kröfum Stalíns um skilyrðislausa uppgjöf og í júlí hélt meginþungi Rauða hersins, sem nú var orðinn stríðshertur og vel vopnum búinn, gegn Finnum. Aftur tókst að stöðva hann í stærstu landorrustum í sögu Norðurlanda, en Viipuri glataðist enn á ný. Friður var saminn og Finnar héldu svipuðum landamærum og þeir þurftu að sætta sig við árið 1940 en misstu Petsamo, sem hafði tryggt þeim aðgang að Atlantshafi, að auki. Í friðarskilmálunum voru einnig ákvæði um að þeir yrðu að segja fyrrum bandamönnum sínum, Þjóðverjum, stríð á hendur og greiða Rússum háar stríðsskaðabætur. En sjálfstæðinu héldu þeir sem fyrr.
Sovét-Finnland?
En hvernig hefði farið ef Finnar hefðu tapað eða gefist upp sumarið 1944? Líklega hefðu þeir hlotið svipuð örlög og frændur þeirra Eistar, verið innlimaðir í Sovétríkin eða gerðir að leppríki. Sjálfstæðið hefðu þeir vafalaust endurheimt árin 1989-91 eins og önnur austantjaldslönd, en átt langt í land með að ná þeim norrænu lífsgæðum og þeir búa við í dag. Á hinn bóginn er líklegt að sem hluti af Sovétríkjunum hefðu þeir fengið hin gömlu landsvæði aftur, og væri Finnland þá nokkru stærra.
En hefðu Finnar getað haldið friðinn eftir 1940? Þegar þýskur her var kominn inn í landið og innrásin hófst sumarið 1941 var það orðið of seint, en ef til vill hefðu þeir getað haldið fast í hlutleysið að Vetrarstríði loknu og látið gott heita. Rússar hefðu haft um nóg annað að hugsa næstu árin en að ráðast aftur á Finnland. Var því nokkuð ógætilegt af Finnum að halda í stríð þar sem þeir sjálfir höfðu lítil áhrif á úrslitin en yrði sigrað eða tapað af Þjóðverjum við borgarmörk Moskvu eða suður í Stalíngrad. Vafalaust munu margir Íslendingar berja hin mikla minnisvarða um síðarnefndu orrustuna augum í sumar þegar landsliðið spilar í Volgograd, sem er það sem borgin heitir í dag. Um þátt Finna segir í skáldsögunni Óþekkti hermaðurinn eftir Väinö Linna, sem sjálfur barðist í framhaldsstríðinu. Hefur hún nú verið kvikmynduð í þriðja sinn og er sýnd í Bíó Paradís.
Athugasemdir