Áætlun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um loftgæði á Íslandi 2018 til 2029 gerir meðal annars ráð fyrir að fjármála- og efnahagsráðuneytið vinni að fumvarpi þar sem kveðið verði á um auknar álögur á notkun dísilvéla fyrir árslok 2022 í því skyni að draga úr notkun dísilvéla. Einnig vinni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að frumvarpi til laga um breytingu á vegalögum þar sem kveðið verði á um gjaldtöku fyrir árslok 2022 vegna nagladekkja með það að markmiði að draga úr notkun þeirra. Þessar aðgerðir eiga að fækka árlegum fjölda daga þar sem svifryk fer yfir skilgreind heilsufarsmörk af völdum umferðar.
Í áætluninni, sem var gefin út 22. nóvember síðastliðinn, eru skilgreind þrjú undirmarkmið; að fækka árlegum ótímabærum dauðsföllum af völdum loftmengunar á Íslandi úr 80 (árið 2013) í færri en fimm fyrir 2029, að fækka árlegum fjölda daga þar sem svifryk fer yfir skilgreind heilsufarsmörk af völdum umferðar úr 7 til 20 skiptum niður í núll skipti fyrir árslok 2029 og að ársmeðaltal brennisteinsvetnis verði áfram undir skilgreindum mörkum.
Heildarkostnaður Umhverfisstofnunar vegna loftgæðaáætlunar til ársins 2029 er áætlaður tæpar 729 milljónir króna og þar af eru tæpar 439 milljónir fjármagnaðar og þegar gert ráð fyrir í gildandi fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022. Ófjármagnaður kostnaður ríkissjóðs vegna áætlunarinnar, sem ekki er gert ráð fyrir í fjármálaáætlun, er áætlaður um 290 milljónir króna. Sá kostnaður er einkum vegna innleiðinga Evrópugerða á grundvelli skuldbindinga EES-samningsins, eins og segir í áætluninni.
Eins og Stundin fjallaði um í vor er loftmengun af svifryki í Reykjavík á pari við margar milljónaborgir í kringum okkur. Þá fer mengun vegna bílaumferðar vaxandi í miðborginni samhliða fjölgun ferðamanna.
Samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir á umhverfis- og auðlindaráðherra að gefa út almenna áætlun um loftgæði til tólf ára í senn. Í áætluninni eiga að koma fram upplýsingar um loftgæði, mælanleg markmið, stefnumörkun til að bæta loftgæði og aðgerða- og tímaáætlun. Ákvæðið var lögbundið árið 2013, en áætlunin tafðist vegna manneklu og álags hjá sérfræðingum Umhverfisstofnunar.
Athugasemdir