Sjálfstæðisflokkurinn vill auka ríkisútgjöld til innviðauppbyggingar um 100 milljarða á næstu árum umfram það sem gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun fráfarandi ríkisstjórnar, en um leið lækka skatta og auka framlög til velferðarmála.
Þetta kemur fram í kosningaáherslum sem birtust á vef Sjálfstæðisflokksins þann 14. október, viku eftir að Bjarni Benediktsson gagnrýndi aðra flokka harðlega fyrir „stóraukin ríkisútgjöld sem munu ekki standast“.
Svo virðist sem flokkurinn hafi nýlega ákveðið að víkja frá þeirri stefnu að einskiptistekjur og óreglulegar arðgreiðslur úr bönkum yrðu nær einvörðungu nýttar til skuldalækkunar hjá hinu opinbera. Gert var ráð fyrir slíkri tilhögun í fjármálaáætlun fráfarandi ríkisstjórnar og jafnframt í fjármálaáætlun Bjarna Benediktssonar sem samþykkt var í fyrra.
Í staðinn boðar flokkurinn að arðgreiðslur úr bönkunum til ríkisins verði notaðar til að stórauka ríkisútgjöld á næstu árum samhliða veglegum skattalækkunum, meðal annars lækkun tekjuskatts og tryggingagjalds.
Sagði óábyrgt að auka útgjöld „á toppi hagsveiflunnar“
Í Víglínunni á Stöð 2 þann 7. október síðastliðinn benti Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, talaði fyrir „tuga milljarða auknum ríkisútgjöldum á hverju ári“. Hann sagði þetta óábyrgt og til þess fallið að kynda undir verðbólgu í ljósi þess að Ísland væri „á toppi hagsveiflunnar“.
Þáttastjórnandinn Heimir Már Pétursson spurði: „Hefði það valdið óþarfa spennu í þjóðfélaginu ef það hefðu til dæmis verið settir þrír, fjórir, fimm, milljarðar til viðbótar í heilbrigðiskerfið, í Landspítalann?“
Bjarni svaraði á þá leið að umsagnaðilar við fjármálaáætlun hefðu einmitt metið það svo. „Það var mat umsagnaraðila við fjármálaáætlunina,“ sagði hann. Fjármálaráð sem fékk þetta til umsagnar, Seðlabankinn og aðrir, þeir sögðu: ‘Þið eruð alveg á ytri brún þess sem hægt er að gera í vexti ríkisútgjalda. Nú verðiði að passa ykkur.’ Þegar Seðlabankinn lækkaði vexti núna fyrir nokkrum dögum síðan, þá var verið að vísa í ábyrg ríkisfjármál. Þetta hangir nefnilega allt saman.“
„Bætum 100 milljörðum við í innviðauppbyggingu“
Þremur dögum seinna, þann 10. október, mætti Bjarni Benediktsson í Forystusætið á RÚV og sagðist vilja taka „um tugi milljarða, jafnvel allt að hundruð milljörðum“ út úr bankakerfinu og verja fénu til innviðauppbyggingar.
Þann 14. október birti svo Sjálfstæðisflokkurinn kosningaáherslur sínar á vefnum. Þar kemur fram að flokkurinn vilji nýta þessar einskiptistekjur, arðgreiðslur úr bönkunum, til innviðauppbyggingar fremur en að afla aukinna skatttekna. „Bætum 100 milljörðum við í innviðauppbyggingu,“ segir á vefnum. „Bankarnir hafa bolmagn til að greiða ríkinu allt að 100 milljarða króna í sérstakar arðgreiðslur á næstu árum. Við viljum nýta fjármagnið, til viðbótar við áður áætlaðar framkvæmdir, í nauðsynlegar innviðafjárfestingar til að bæta vegina, og styrkja samgöngur um allt land, en einnig aðra innviði svo sem í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu.“
Á skjön við fyrirheit í fjármálaáætlunum
Hvorki var gert ráð fyrir hinni miklu aukningu útgjalda vegna innviðauppbyggingar í fjármálaáætlun Bjarna Benediktssonar, sem samþykkt var í fyrra, né í fjármálaáætlun Benedikts Jóhannessonar og fráfarandi ríkisstjórnar sem samþykkt var síðasta sumar. Áætlanirnar eru settar fram og samþykktar á grundvelli laga um opinber fjármál, en fyrirkomulaginu var komið á til að tryggja gagnsæi og fyrirsjáanleika í ríkisfjármálum.
Í áætluninni sem Bjarni Benediktsson lagði fram á Alþingi vorið 2016 kom skýrt fram að tekið væri mið af því að „óreglulegar tekjur sem kunna að falla til á tímabilinu eins og sérstakar arðgreiðslur eða söluhagnaður af eignasölu“ verði nýttar „til lækkunar á skuldum og þar með til lækkunar á vaxtakostnaði ríkissjóðs“.
Þetta er jafnvel skýrara í fjármálaáætlun Benedikts Jóhannessonar og fráfarandi ríkisstjórnar þar sem tilgreint er að ráðstafanir „í formi óreglulegra arðgreiðslna, s.s. vegna lækkunar eiginfjár bankanna“ muni nýtast til að lækka heildarskuldir ríkissjóðs umtalsvert og draga úr vaxtagjöldum ríkissjóðs. Þá segir orðrétt: „Öllu óreglulegu og einskiptis fjárstreymi ríkissjóðs s.s. arðgreiðslum, ávinningi af sölu eignarhluta í fjármálafyrirtækjum, samdrætti í skuldsettum gjaldeyrisvaraforða verði varið til að hraða enn frekar niðurgreiðslu skulda eða til lækkunar á ófjármögnuðum lífeyrisskuldbindingum. Þannig verði fjárhagsstaða ríkissjóðs treyst, dregið úr vaxta- kostnaði og afkoman bætt og svigrúm myndað til uppbyggingar og skattalækkana, til að mæta áhættuþáttum eða til sveiflujöfnunar í hagkerfinu þegar á þarf að halda.“
„Þarna er fjármagn sem er ekki getið
um í langtímaáætlun í ríkisfjármálum“
Bjarni talaði um fyrirhugaða útgjaldaaukningu í Forystusætinu á RÚV fyrr í mánuðinum. „Hérna erum við að tala um tugi milljarða, jafnvel allt að hundruð milljörðum. Við höfum reyndar tekið út úr bankakerfinu hundrað milljarða í arð á síðustu tveimur árum, en þarna er fjármagn sem er ekki getið um í langtímaáætlun í ríkisfjármálum sem við í Sjálfstæðisflokknum sjáum fyrir okkur að nýta til þess að fara í þessa innviðauppbyggingu,“ sagði hann.
Raunin er hins vegar sú að getið er um fjármagnið, þ.e. möguleikann á óreglulegum arðgreiðslum vegna lækkunar eiginfjár bankanna, í fjármálaáætlun fráfarandi stjórnar (bls. 43), en þar var hins vegar gert ráð fyrir að fjármunirnir yrðu notaðir til niðurgreiðslu skulda.
Fleiri flokkar lofa stórauknum ríkisútgjöldum
Samfylkingin og Vinstri græn hafa einnig talað fyrir því að taka arð út úr bönkunum og nýta til uppbyggingar.
Flokkarnir vilja hins vegar að innviðauppbyggingin verði líka fjármögnuð með stórauknum skatttekjum, meðal annars með aukinni gjaldtöku í sjávarútvegi, auknum álögum á hátekju- og stóreignafólk, grænum sköttum og annaðhvort hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu eða komugjöldum. Áherslur Pírata eru um margt svipaðar, en þeir vilja meðal annars hækka fjármagnstekuskatt og bjóða upp fiskveiðiheimildir á markaði.
Framsóknarflokkurinn hefur varað við skattahækkunum en talað fyrir því að afgangurinn af rekstri ríkissjóðs verði nýttur til þess að auka útgjöld til heilbrigðis-, samgöngu- og menntamála um 20 milljarða árlega á kjörtímabilinu. Flokkurinn vill jafnframt leita eftir samstarfi við lífeyrissjóðina um að fjárfesta fyrir minnst 10 milljarða árlega í þjónustu- og hjúkrunaríbúðum fyrir aldraða í sveitarfélögum þar sem þörfin er brýnust.
Viðreisn vill virkja lífeyrissjóðina
Viðreisn leggur líka áherslu á samstarf við lífeyrissjóði. Í pistli eftir Benedikt Jóhannesson, stofnanda og fyrrverandi formann flokksins, hvetur hann til þess að í stað viðbótarskatta á landsmenn verði leitað samstarfs við lífeyrissjóðina um að fjármagna viðhald og uppbyggingu innviða.
„Það á að vera forgangsverkefni stjórnvalda að hefja alvarlegar viðræður við forsvarsmenn lífeyrissjóðanna um með hvaða hætti þeir geti komið með ríkinu að fjármögnun innviðaverkefna þjóðfélagsins á næstu árum,“ skrifar Benedikt í grein á vef Viðskiptablaðsins. „Þetta byggir á því að sjóðirnir fjárfesti í fjármögnun verkefnanna og þannig yrði um leið létt af þeim þrýstingi á að fjárfesta á hinum þrönga og litla íslenska hlutabréfamarkaði.“ Forystufólk í Viðreisn hefur lagt áherslu á að ríkið haldi áfram að nota einskiptistekjur til að greiða niður skuldir.
Þannig leggja flestir flokkanna áherslu á stórauknar fjárfestingar til innviðauppbyggingar en greinir á um aðferðir og tekjuöflunarleiðir. Sjálfstæðisflokkurinn er þó eini stóri flokkurinn sem lofar því að lækka skatta samhliða stórauknum ríkisútgjöldum.
Athugasemdir