Dómsmálaráðuneytið afhenti Stundinni bréf vegna tillögu fyrrverandi innanríkisráðherra um uppreist æru kynferðisbrotamannsins Roberts Downey sama dag og Stundin óskaði eftir slíkum upplýsingum, þann 3. ágúst síðastliðinn.
Ráðuneytið hefur hins vegar enn ekki afhent sams konar bréf um uppreist æru Hjalta Sigurjóns Haukssonar þótt meira en tvær vikur séu liðnar síðan þess var óskað. Stundin sendi upplýsingabeiðnina 28. ágúst, ítrekað beiðnina 31. ágúst og aftur í þessari viku en hefur ekki fengið bréfið afhent.
Nú liggur fyrir að Hjalti Sigurjón fékk meðmæli frá Benedikt Sveinssyni, föður Bjarna Benediktssonar, þegar hann sótti um uppreist æru í fyrra.
Stundin sendi ráðuneytinu eftirfarandi fyrirspurn þann 6. september eftir að blaðið fékk upplýsingar sem taldar voru trúverðugar um að Hjalti hefði fengið meðmæli frá Benedikt:
1. Tengist einn af umsagnaraðilum Hjalta Sigurjóns Haukssonar, vegna uppreistar æru hans, forsætisráðherra nánum fjölskylduböndum?
2. a) Ef já, vissi dómsmálaráðherra af fjölskyldutengslunum þegar ákveðið var að upplýsa ekki um nöfn umsagnaraðila þeirra sem fengið hafa uppreist æru og að svara ekki fyrirspurnum þolenda um málin? b) Upplýsti forsætisráðherra aðra ráðherra um tengsl sín við umsagnaraðila eins af umsækjendum um uppreist æru þegar málin voru afgreidd úr ríkisstjórn á haustmánuðum 2016?
Athugasemdir