Risavaxið auglýsingaskilti fyrir H&M sem komið var fyrir á Lækjartorgi í gær hefur vakið athygli og umtal.
Samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar ber að sækja um leyfi til afnota af borgarlandi, en til þess teljast allar götur, gangstéttar, stígar, opin svæði, almenningsgarðar og torg. Þegar Stundin spurðist fyrir um skiltið í gær komu starfsmenn borgarinnar af fjöllum og könnuðust ekki við að veitt hefði verið leyfi fyrir auglýsingunni sem blasir við í gangveginum á Lækjartorgi í formi stórs innkaupapoka með enskri áletrun: “Grand Opening: See you at Smáralind! August 26”.
Síðar um daginn fékk Stundin þau svör að skiltið hefði verið sett upp í leyfisleysi og að það yrði fjarlægt við fyrsta tækifæri.
Nokkru eftir að Stundin greindi frá því tók Vísir.is viðtal við Guðmund Vigni Óskarsson, verkefnastjóra leyfisveitinga borgarlands, sem fullyrti hins vegar að H&M hefði sótt um tilskilin leyfi fyrir auglýsingunni og að hún fengi að standa fram yfir mánaðamót. Þetta stangast á við upplýsingar sem Stundin fékk frá æðstu stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Beðist er velvirðingar á mistökunum.
Fréttin var uppfærð eftir birtingu.
Athugasemdir