Stendur með Grænlandi og lýsir nýrri heimsskipan

Þjóð­ar­leið­tog­ar rísa upp gegn yf­ir­gangi Trumps. Mark Car­ney, for­sæt­is­ráð­herra Kan­ada, skil­grein­ir nýja heims­skip­an og hvernig brjót­ast megi und­an und­irok­un stór­veld­anna.

Stendur með Grænlandi og lýsir nýrri heimsskipan
Carney á Davos Forsætisráðherra Kanada úr Frjálslynda flokknum, náði kjöri eftir að forveri hans og flokksbróðir, Justin Trudeau, ákvað að gefa ekki kost á sér vegna fallandi fylgis. Eftir árásir og hótanir Bandaríkjaforseti reis fylgi flokks hans á ný. Mynd: AFP

Forsætisráðherra Kanada, Mark Carney, hélt tímamótaræðu um ástand heimsins á Alþjóðaefnahagsráðstefnunni í Davos í dag. Hann lýsti afdráttarlausum stuðningi við fullveldi Grænlands.

Þjóðarleiðtogar hafa gert upp við yfirgang Bandaríkjastjórnar á ráðstefnunni og gefið til kynna að þeir muni ekki sætta sig við hann.

Carney, sem er hagfræðingur og fyrrverandi seðlabankastjóri Englandsbanka, lýsti margvíslegum aðgerðum Kanada til þess að takast á við breytta heimsskipan.

„Gamla heimsskipanin kemur ekki aftur. Við ættum ekki að syrgja það. Fortíðarþrá er ekki stefna. En úr brotunum getum við byggt eitthvað betra, sterkara og réttlátara,“ sagði hann í ræðu sinni.

Carney sagði að frá því hann tók við embætti hafi hann unnið að því að breyta stefnu Kanada: tvöfaldað útgjöld til varnarmála, aukið fjölbreytni í viðskiptum með því að undirrita 12 viðskipta- og öryggissamninga í fjórum heimsálfum á sex mánuðum og styrkt böndin enn frekar við Evrópusambandið.

Hann lýsti aðkomu að nýju öryggiskerfi Evrópusambandsins og samstarfssamningi við Kína. Þá sagðist hann vinna með lýðræðisríkjum að aðhaldi með gervigreind.

„Kanada stendur þétt með Grænlandi og Danmörku og styður fullkomlega einstakan rétt þeirra til að ákveða framtíð Grænlands,“ sagði Carney við dynjandi lófaklapp.

Án þess að nefna Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, á nafn sagði Carney að „stórveldi“ notuðu efnahagslegan samruna sem „vopn“, en Trump boðar refsitolla á þau ríki sem rísa gegn því að hann innlimi Grænland í Bandaríkin. Með því yrði Kanada umkringt Bandaríkjunum, hvers forseti hótar að innlima einnig Kanada, úr öllum áttum öðrum en norðri.

„Kanadamenn vita að sú gamla og þægilega forsenda okkar að landfræðileg lega okkar og aðild að bandalögum tryggði sjálfkrafa velmegun og öryggi er ekki lengur í gildi,“ sagði Carney.

Þegar Kanada glímir við þessa nýju stöðu sagði Carney að landið yrði að sýna „prinsippfestu og raunsæi“ og snúa sér inn á við til að byggja upp landið og auka fjölbreytni í viðskiptasamböndum til að verða minna háð löndum eins og Bandaríkjunum, nú þegar ljóst er að efnahagslegur „samruni“ getur leitt til „undirokunar“.

Carney sagði að fjölþjóðahyggja og „skipulag sameiginlegrar lausnaleitar“ – sem byggir á stofnunum eins og Alþjóðaviðskiptastofnuninni, Sameinuðu þjóðunum og aðildarríkjaráðstefnu (COP) um loftslagsmál – hafi „hnignað“ og lönd verði að sætta sig við að þau gætu þurft að standa meira ein og sér en áður.

„Mörg lönd eru að draga sömu ályktanir. Þau verða að þróa meira stefnumarkandi sjálfræði: í orkumálum, matvælum, mikilvægum málmum, í fjármálum og aðfangakeðjum.“

„Land sem getur ekki fætt sig, séð sér fyrir eldsneyti eða varið sig hefur fáa kosti. Þegar reglurnar vernda þig ekki lengur verður þú að vernda þig sjálfur,“ sagði Carney.

Carney sagði að þessi einangrunarstefna, þar sem heimurinn er fullur af „virkjum“, muni gera lönd fátækari, viðkvæmari og minna sjálfbær. En hún sé engu að síður yfirvofandi og Kanada verði að vinna með bandamönnum með svipað hugarfar þar sem það er mögulegt til að sporna gegn yfirráðum stærri, ríkari og vel vopnaðra landa.

„Þetta er ekki barnaleg fjölþjóðahyggja. Né er það að treysta á hnignandi stofnanir. Það er að byggja upp bandalög sem virka, í hverju máli fyrir sig, með samstarfsaðilum sem eiga nægilega mikið sameiginlegt til að bregðast við saman. Meðalstór ríki verða að bregðast við saman því ef þú situr ekki við borðið ertu á matseðlinum,“ sagði Carney.

Kjósa
9
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Bandaríki Trumps

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár