Rétt væri að hlusta á leiðbeiningar og ráð Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta, þegar kemur að samskiptum við Bandaríkin og stjórn Donalds Trump forseta. Þetta sagði Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, á Alþingi í dag, en hann sagði Ólaf Ragnar hafa gefið utanríkisstefnu Viðreisnar falleinkunn.
Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingar, sagði hins vegar ómögulegt að „strjúka hærum Bandaríkjaforseta réttsælis“ og þannig myndum við „gjaldfella orðið fullveldi“.
Vísaði Karl Gauti í ræðu sinni til viðtals við Ólaf Ragnar í Silfrinu á RÚV í gærkvöldi og sérstaklega til þeirra spakmæla sem hann lagði áherslu á. Annað þeirra var „allt kann sá sem bíða kann“ og hitt var „fæst orð bera minnsta ábyrgð“.
Eigum að hafa okkur hæg
Í viðtalinu sem Karl Gauti vísaði til sagði Ólafur Ragnar að Íslendingar ættu að láta lítið fyrir sér fara meðan Bandaríkin reyndu að taka yfir Grænland og innlima það í sitt landsvæði. Karl Gauti sagði að ummæli Ólafs Ragnars væru ekki sögð að tilefnislausu, „í ljósi þess að ýmislegt hefur nýlega verið sagt ógætilega sem betur hefði verið látið ósagt.“
Ítrekaði hann að Bandaríkin væru á meðal okkar nánustu vina og bandalagsþjóða. Við ættum varnir landsins undir þeim.
„Ólafur taldi til að mynda ráðlegt að fyrir hvern fund í Brussel ættum við að sækja tvo slíka í Washington. Vitaskuld eru ummæli Trumps um Grænland fráleit en stóru fréttirnar eru þær að Ólafur Ragnar, sem er prófessor og fyrrum forseti og hefur áratugareynslu og víðtæk sambönd, gaf utanríkisstefnu Viðreisnar falleinkunn í gær.“
„Er ekki rétt, frú forseti, að Samfylkingin og Flokkur fólksins taki mið af ofangreindum ráðleggingum fyrrum forseta lýðveldisins?“
Stefna á Evrópuatkvæðagreiðslu
Miðflokkurinn hefur verið sérlega gagnrýninn á stefnu Viðreisnar um að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið að nýju. Fékk flokkurinn það í gegn í meirihlutaviðræðum eftir síðustu kosningar að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort taka ætti upp viðræður að nýju. Sú atkvæðagreiðsla á að fara fram ekki seinna en á næsta ári.
Þrýst hefur verið á að flýta þeirri atkvæðagreiðslu vegna stöðunnar í heimsmálunum. Þannig hefur Evrópuhreyfingin nýlega sent frá sér ályktun – sem beint var til allra þingmanna – þar sem skorað er á stjórnvöld að flýta atkvæðagreiðslunni.
„Það er niðurstaða hreyfingarinnar að hagsmunum Íslands sé best borgið með því ganga til liðs við Evrópusambandið og vera þar í hópi líkt þenkjandi, fullvalda þjóða, m.a. þriggja annarra Norðurlanda. Íslenska þjóðin á að eiga síðasta orðið og það er brýnt að hún fái að segja álit sitt sem fyrst,“ segir í ályktuninni.
Stuðningur við að aðildarviðræður verði teknar upp að nýju hefur aukist á undanförnu ári. Í könnun Maskínu sem gerð var í desember kom fram að 53 prósent vildu taka upp viðræður við Evrópusambandið að nýju en 47 prósent væru andvíg.
Svarað af Sigmundi
Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingar, svaraði Karli Gauta, án þess að ávarpa hann sérstaklega í umræðunum, og sagði að reisa ætti fána Grænlands í þingsal og reisa hann hátt við hún í íslenskri umræðu. „Við þurfum að taka af allan vafa um að við stöndum með Grænlendingum á komandi tímum. Orðið fullveldi og frjáls þjóð er í húfi,“ sagði hann.
Sigmundur sagði að öllu væri snúið á hvolf varðandi ásælni Bandaríkjaforseta gagnvart Grænlandi. Engin væri ógnin af Rússlandi og Kína við Grænland og þar hefði Trump-stjórnin bæði óheftan aðgang til að bæta við herafla sinn og til að sækja í verðmæta málma.
„Við þurfum að hafa í huga að ef við ætlum í málflutningi okkar að strjúka hærum Bandaríkjaforseta réttsælis þá erum við að gjaldfella orðið fullveldi. Við erum að gjaldfella orðið frjáls þjóð. Við erum að gjaldfella orðið mannréttindi. Við erum að gjaldfella flest, ef ekki öll, okkar gildi sem lýðræðisþjóð,“ sagði hann og hélt áfram:
„Við erum að hampa manni sem er tilbúinn að fórna öllum þessum gildum sem við sem þingheimur höfum trúað á, ég held allir hér inni, í allri okkar pólitík.“

















































Athugasemdir