Donald Trump Bandaríkjaforseti birti í morgun færslu á samfélagsmiðlinum Truth Social þar sem hann virðist stinga niður fána Bandaríkjanna á Grænlandi. Á annarri mynd, sem hann birti um svipað leyti, sést hann lesa yfir evrópskum leiðtogum á skrifstofu sinni fyrir framan kort sem gefur til kynna að Kanada tilheyri Bandaríkjunum.
Í færslu á Truth Social segir hann Grænland vera „óumflýjanlegt fyrir þjóðar- og heimsöryggi“. Trump segist hafa átt „mjög gott símtal“ við Mark Rutte, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, NATO, þar sem Grænland hafi verið til umræðu. Hann segist hafa samþykkt að funda með ýmsum í Davos í Sviss og ítrekar að ekki verði „snúið til baka“ í Grænlandsmálinu.

„Grænland er óumflýjanlegt fyrir þjóðar- og heimsöryggi,“ skrifar Trump og bætir við að Bandaríkin séu „eina valdið“ sem geti tryggt frið í heiminum, meðal annars vegna uppbyggingar bandaríska hersins á fyrra kjörtímabili hans, sem hann segir halda áfram með auknum hraða.
Á myndinni sem Trump birtir sést hann standa á grófu, norðlægu landslagi með bandaríska fánann á lofti. Við hlið hans er skilti þar sem stendur „Greenland – US Territory – Est. 2026“. Framsetning Trumps gengur jafnvel enn lengra en áður hefur sést í umræðu um Grænland og ásælni Bandaríkjaforseta í landið.
Trump lauk færslu sinni með því að segja að friður í heiminum yrði tryggður „með styrk“.
Forsetinn birti líka samskipti sín við bæði Mark Rutte, framkvæmdastjóra NATO, og Emmanuel Macron, forseta Frakklands. „Við erum algjörlega sammála um Sýrland. Við getum gert frábæra hluti gagnvart Íran. Ég skil ekki hvað þú ert að gera varðandi Grænland,“ skrifar Macron í textaskilaboðum til Trumps.
Sá franski býðst svo til að setja upp fund með G7-ríkjunum í Davos í París á fimmtudag, þangað sem hann getur boðið bæði Úkraínumönnum, Dönum, Sýrlendingum og Rússum. Svo vill hann líka bjóða Trump í kvöldmat.
















































Athugasemdir