Umræða um loftslagsmál einkennist oft af vanþekkingu, tálsýn og grænþvotti. Ég er sammála Jóhanni Páli Jóhannssyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, um að við eigum ekki að horfa á loftslagsaðgerðir sem fórn. En að tala um að loftslagsaðgerðir séu fyrst og fremst tækifæri til vaxtar og verðmætasköpunar, eins og Jóhann Páll segir, gerir lítið úr alvarleika loftslagsvárinnar auk þess sem það býr til tálsýn um að við getum haldið áfram í sama kerfi með sömu áherslum. Loftslagsaðgerðir geta falið í sér, ef við horfum á þær á heildstæðan hátt í anda sjálfbærrar þróunar, að við getum leiðrétt kúrsinn og komið okkur út úr ógöngunum þar sem hagræn sjónarmið ráða öllu, og í betra líf þar sem velferð fólks og náttúru eru í forgrunni. Auk þess eru loftslagsaðgerðir auðvitað eitthvað sem við verðum að gera til að tryggja áframhaldandi líf okkar mannkyns á þessari dásamlegu plánetu.
Grænn hagvöxtur er tálsýn
Eins og algengt er hjá vestrænum þjóðum er stefnan sett á grænan hagvöxt í þeirri trú á að loftslagsaðgerðir geti náð tilsettum markmiðum innan núverandi hagkerfis með hagvöxt að leiðarljósi. Hér ætti hins vegar að hlusta á fjölmargt virt vísindafólk sem hefur með rannsóknum sýnt fram á að ekki er hægt að rjúfa fylgni milli hagvaxtar og losunar eða aukinnar auðlindanotkunar til langs tíma á hnattrænan hátt. Fleira og fleira vísindafólk um allan heim er sannfært um það að hagvöxturinn sé vandamálið m.t.t. ástands jarðar. Árið 2018 sendu 238 vísindamenn hvatningarákall til Evrópusambandsins um að skipuleggja hagkerfi án hagvaxtar þar sem velferð vistkerfa og manna er forgangsraðað framar vergri landsframleiðslu. Árið 2020 birtu síðan rúmlega 11 þúsund vísindamenn frá fleiri en 150 mismunandi löndum grein þar sem stjórnvöld í heiminum voru hvött til að breyta áherslum frá vergri landsframleiðslu með tilheyrandi hagvexti og ofneyslu í vernd og endurheimt vistkerfa, aukningu á vellíðan allra og að forgangsraða grunnþörfum og draga úr ójöfnuði. Þetta þarf að ræða og verður að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda um allan heim, líka hér á Íslandi.
Staða Íslands
Þrátt fyrir að 99,9% raforkuframleiðslu hérlendis sé í endurnýjanlegri orku erum við meðal þeirra þjóða heims sem eru með stærsta vist- og kolefnissporið og þar af leiðandi engan vegin til fyrirmyndar eða í forystu. Vinna þarf markvisst að því að minnka með afgerandi hætti allt vistsporið (kolefnisspor er hluti af vistspori og nemur núna um 60% þess). Eins og rannsóknir sýna þá útvista Íslendingar stórum hluta af losun gróðurhúsalofttegunda vegna neyslu sinnar til annarra landa þar sem þessar neysluvörur hafa verið framleiddar. En gróðurhúsalofttegundir þekkja engin landamæri og það er ekki fyrr en við drögum líka stórlega úr þessari losun með lífsstílsbreytingum og breytingum á hagkerfinu, sem við getum náð árangri og staðið undir ábyrgð.
Stefna um betra líf allra
Þó að við getum ekki lengur stoppað ýmsar hamfarir vegna loftslagsbreytinga þá getum við ennþá með réttum loftslagsaðgerðum afstýrt verstu hamförunum auk þess að breyta kerfum og lífsháttum í átt að meiri jöfnuði, réttlæti og velferð allra innan þolmarka náttúrunnar. Aðalspurningin núna er ekki hvernig við getum fóðrað og viðhaldið núverandi hagkerfi sem byggir á ofneyslu, arðráni náttúrunnar og fólks og óraunsæjar kröfur um óendanlegan hagvöxt. Heldur hvernig við getum fært okkur yfir til hagkerfis sem heldur sig innan þolmarka náttúrunnar og hefur velferð allra að markmiði. Slík þróun væri ekki fórn heldur nauðsyn og möguleiki til áframhaldandi þróunar mannkyns í takt við sjálfbæra þróun. Ég lýk þessari grein með orðum Dr. David C. Korten, bandarísks höfundar, fræðimanns og félaga í Rómarsamtökunum: „Kerfið okkar er ekki bara gallað og þarfnast viðgerðar — þetta er kerfi sem hefur mistekist og verður að skipta út.“ „Annaðhvort þrífumst við í leit að lífinu eða glötumst í leit að auði. Valdið liggur í okkar höndum.“
Höfundur er fræðslustjóri Landverndar









































Athugasemdir