„Mannfyrirlitningin er alltaf fyrsta verkfæri Össurar – og hluti af þeirri lítilsvirðingu er að tala um flokka sem ‘ræfil’ eða ‘skúffu’,“ skrifaði Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna á Facebook í dag.
Tilefnið eru ummæli Össurs Skarphéðinssonar, fyrrverandi formanns og ráðherra Samfylkingarinnar, um að sagnfræðingurinn Stefán Pálsson gæti orðið bjargvættur VG, sem féll af þingi í síðustu kosningum og mælist enn utan þings.
Sagði Stefán búa yfir meiri kjörþokka en Svandís
„Stefán Pálsson er líklega skarpasti kutinn í ræflinum sem eftir er af skúffu VG. Hæfilega skrítinn, mælskari en andskotinn, krullhærður - sem er plús - og sérlega fimur í að verja vondan málstað,“ skrifaði Össur á Facebook í gær.
Sagði hann þetta eftir frammistöðu Stefáns í Silfrinu í gærkvöldi, sem hann taldi undirstrika mannkosti og kjörþokka hans umfram Svandísi Svavarsdóttur og Guðmund Inga Guðbrandsson, fyrrverandi ráðherra og eftirmenn Katrínar Jakobsdóttur.
„Þetta kom allt vel fram í Silfrinu í kvöld. Hann er maður að mínu skapi. VG þarf óvænta leiki til að lifa af og finna forystufólk með meiri kjörþokka en Svandís og Guðmundur Ingi sem bókstaflega slátruðu VG með ótrúlegum afleikjum á helspretti flokksins í blálok síðustu ríkisstjórnar. Bæði vilja þó leiða leifarnar í næstu kosningum,“ segir hann.
Össur vildi hins vegar meina að Stefán væri ekki í „flokkseigendaklíkunni“ og að VG væri á hraðri leið fyrir „endanlegan ætternisstapa“ auk þess að hafa tapað tengslum við raunveruleikann. „Líklegast er að Svandís verði klöppuð upp til að veita tætlunum sem eftir eru af VG síðustu nábjargirnar,“ skrifaði Össur.
„Skepnuskapur í eigin þágu“
Svandís hefur nú svarað þessum hörðu orðum og segir þau einkennast af „mannfyrirlitningu“ og „skepnuskap“ í eigin þágu. Með þeim sé Össur að beina athyglinni frá vandræðum ríkisstjórnarinnar og þar með Samfylkingarinnar.
„Þetta orðfæri segir miklu meira um hann sjálfan en þau sem orðin beinast að. Um leið beinir hann athyglinni frá vandræðum ríkisstjórnarinnar og þar með Samfylkingarinnar. Erindi Össurar er skepnuskapur í eigin þágu.
Stefán Pálsson er frábær, og það vita allir sem á hann hlusta. Og VG á áfram erindi, hvort sem Össuri líkar það betur eða verr. Og það erindi snýst um samfélagið.“
Í síðasta Þjóðarpúlsi Gallups mældist VG með 3,2% fylgi en Samfylkingin 31,1% fylgi. Þá mældist stuðningur við ríkisstjórnina 58,9%,













































Athugasemdir