Þegar synir mínir urðu unglingar varð ég skelfingu lostin hvað biði þeirra. En þeir voru heppnir, hafa hvorki drukkið né reykt, eða notað fíkniefni. Annað en ég sem var mörg ár í neyslu og er nýbúin að uppgötva að neyslan er áfall. Hvað er maður eiginlega að gera sjálfum sér? Hvað er maður að gera lífinu? Eða mömmu sinni? Líkaminn og sálin fá áfall.
Neyslan mín var svo hatrömm að sonur minn var tekinn frá mér og kærastanum mínum fimm ára gamall. Nú hef ég ekki séð þennan son minn í hálft ár og veit ekkert með hann. Þó sagði hann mér þegar ég rakst á hann fyrir tilviljun fyrir nokkrum vikum að hann væri að vinna í fortíðinni. Svona getur fortíðin verið grimm. Hún getur tekið yfir lífið, tekið yfir framtíðina þannig að það verður engin framtíð.
Kannski dugar ekki alltaf að vinna í sjálfum sér, fá stuðning, meðferð. Eins og stúlkan sem hefur verið í fjölmiðlum upp á síðkastið, sem varð fyrir kynferðisofbeldi, vann í sjálfri sér og hjálpaði öðrum en endaði á því að taka líf sitt.
Kannski er ekki hægt að lækna öll sár. En við verðum að reyna.
Það er ekki auðvelt þegar samfélagið er eins og það er. Við getum kennt erfðum um, áföllum og einelti (sem er samfélagslegt mein, eins og reyndar mörg áföll), en það er samfélagið sem er stærsti áhrifavaldurinn.
„Ég held það vanti meiri kærleika í samfélagið
Unglingadrykkja þykir sjálfsögð, hún er hafin upp á stall. Rétt eins og flestar bíómyndir segja frá ofbeldi og fíkniefnaneyslu. Ég horfði á fallega bíómynd um daginn og leið svo vel á eftir.
Af hverju tekur ungt fólk líf sitt? Ég veit það ekki. Það er talað um að ímynd karlmanna geri ekkert fyrir sjálfsmynd þeirra. Hann Dagbjartur, ellefu ára strákur sem ég hef alltaf taugar til, tók líf sitt því hann var lagður í einelti. Hvílíkur harmleikur.
Strákarnir sem hafa verið í fréttum upp á síðkastið eru flestir á unglingsaldri. Það er spurt um meðferðir. Hópur mæðra safnar nú fyrir meðferð í Suður-Afríku, en fá engan styrk frá hinu opinbera.
Ég held það vanti meiri kærleika í samfélagið. Við þurfum að skilgreina kærleika. Líka kærleika til sjálfs síns.
Það vantar pólitík. Það er talað um að það vanti meiri stuðning á bernskuárum, sérstaklega fyrir stráka. Ef við horfum á auðveldari mál, þá er hópur unglinga í vandræðum, ekki búinn undir fullorðinsárin. Verið er að safna fyrir sálfræðitímum handa þeim hjá SÁÁ. Ríkið veitir milljónum ef ekki milljörðum í hernaðaruppbyggingu í Úkraínu en þykist ekki hafa efni á að styrkja góðgerðarfélög eða búa til meðferðir fyrir ungt fólk. Ætlum við kannski að senda þau í herinn?
Öll unglingsár elsta sonar míns var ég á nálum en þurfti jafnframt að sleppa tökunum. Orð mín mega sín lítils. Ég kann engin huggunarorð.
Við getum rannsakað málið. Við getum kannski beðið unglinga um að hjálpa öðrum unglingum. Við getum sagt söguna okkar, því í sögunni okkar felst ákveðin lausn. Sagan skýrir svo mikið. Við kynnumst sjálfum okkur í gegnum söguna. Sagan býr okkur til og við búum til söguna.
Það var hvorki ég né samfélagið sem urðu til þess að tvíburasynir mínir voru edrú. Það kom mest frá pabba þeirra sem var áfengisráðgjafi á þessum tíma og svo höfðu þeir stuðning hver af öðrum. Bræðralagið, systralagið. Pabbi þeirra þekkti hvað hann var að tala um.
Við þurfum að læra aðferðir til að gera okkur grein fyrir sjálfsmynd okkar og búa hana til. Og fræðast. Ég tek undir þau orð að ríkisstjórnin þurfi að búa til nýja vímuefnastefnu. Nýja pólitík. Nýjan kærleika.















































Athugasemdir