„Húsin eru ekki tveggja hæða“
Nýbyggingar við Skaftafell Bæjarstjórinn á Höfn segir að húsin séu ekki tveggja hæða og að breyting úr einni hæð í tvær hæðir, samkvæmt skilmálum í deiliskipulagi, sé aðeins tæknileg. Mynd: Spessi

„Húsin eru ekki tveggja hæða“

Hús við Skafta­fell sem áttu að vera ein hæð, sam­kvæmt skil­mál­um deili­skipu­lags, máttu síð­ar verða tvær hæð­ir. Bæj­ar­stjóri seg­ir að „ekki var um að ræða hækk­un húsa um heila hæð“.

„Ekki var um að ræða hækkun húsa um heila hæð né breytingu á hámarkshæð bygginga,“ segir Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar, um breytta skilmála deiliskipulags vegna 70 húsa við þjóðgarðinn í Skaftafelli, þar sem farið var úr því að skilgreina að „húsin skulu vera á einni hæð“ yfir í „húsin skulu vera á einni til tveimur hæðum“.

Í yfirlýsingu á vef Sveitarfélagsins Hornafjarðar tekur Sigurjón enn sterkar til orða og hafnar því að húsin séu tveggja hæða. „Ég veit að þetta kann að virðast þannig þegar horft er á framkvæmdirnar, en húsin eru ekki tveggja hæða í hefðbundnum skilningi,“ segir hann.

„Það sem skiptir mestu máli þegar ásýnd byggðar er metin er umfang hennar og ytri stærðir – og þær breyttust ekki við skipulagsbreytingu árið 2024.“

Orð hans stangast á við upplýsingar í skýrslu sem útbúin var vegna breytingar á deiliskipulagi, sem heimila átti byggingu 35 húsa á Skaftafelli 4, sem áttu að vera sambærileg 35 húsum sem höfðu verið heimiluð á Skaftafelli 3.

Breyttir skilmálar séu aðeins tæknilegir

Sigurjón AndréssonBæjarstjórinn á Höfn segir að engar breytingar verði gerðar á ákvörðun um uppbyggingu við Skaftafell, þrátt fyrir harða gagnrýni íbúa.

Breyting á gildandi skilmálum birtist í skýrslu verkfræðistofunnar Eflu frá 3. janúar 2024. Auk þess að tilgreina að húsin mættu vera á tveimur hæðum, í breyttum skilmálum, var kveðið á um að þau mættu vera allt að 64 fermetrar, en ekki 40 fermetrar, eins og áður var kveðið á um.

Þessi breyting var þó ekki tilgreind þegar deiliskipulagið var auglýst, heldur kom fram í auglýsingu að uppbygging væri „sambærileg“ og að fjölgun húsa úr 35 í 70 væri „tvöföldun á uppbyggingu“, þó svo að skilmálabreyting sem kynnt er í skýrslu Eflu fælu í sér að húsin mættu vera 60% stærri að flatarmáli og einni hæð hærri en áður var kveðið á um.

Segir ekki bætt við hæð

Sigurjón segir í svari við fyrirspurn Heimildarinnar að svo sé ekki.

„Ekki var um að ræða hækkun húsa um heila hæð né breytingu á hámarkshæð bygginga,“ segir Sigurjón í svari við fyrirspurn Heimildarinnar. „Í upphaflegum skilmálum deiliskipulags var heimilt að reisa 35 hús með 40 fermetra grunnfleti, hámarksmænishæð 6 metra frá gólfplötu og svefnlofti. Í breyttum skilmálum er hámarksgrunnflötur húsa óbreyttur. Hins vegar var kveðið á um hámarksstærð svefnlofts, allt að 24 m², til skýringar og afmörkunar. Hámarksmænishæð 6 metrar var áfram óbreytt.“

Breyttir skilmálarÍ skýrslu verkfræðistofunnar Eflu um breytingu á deiliskipulagi kemur fram að hæðir húsa megi vera tvær, en ekki ein, eins og áður gilti.
Ekki tvær hæðirBæjarstjóri sveitarfélagsins sem fer með skipulagsmál við þjóðgarðinn á Skaftafelli hafnar því að húsið sé tvær hæðir „í hefðbundnum skilningi“.

Þó segir Sigurjón að hámarkshæð útveggja verið aukin úr 4,5 metrum í 6 metra. „Um er að ræða tæknilega útfærslu á skilmálum en ekki efnislega hækkun bygginga,“ segir hann.

Þá segist hann standa við að hugtökin „tvöföldun“ og „sambærileg uppbygging“ eigi við um breytinguna. Þau „vísa í þessu samhengi fyrst og fremst til fjölda húsa og landnotkunar,“ segir hann. 

Ásýnd við þjóðgarðinn gagnrýnd

Samkvæmt heimildum er víðtæk óánægja meðal íbúa á svæðinu vegna áhrifa nýbygginganna á ásýnd svæðisins, sem er við þjóðgarð á heimsminjaskrá.

Íbúi á Skaftafelli 2 ræddi við Heimildina í gær og sagði kynningu á breytingunum hafa farið fram hjá íbúum. 

Þá hafa framkvæmdirnar verið gagnrýndar víða á samfélagsmiðlum.

„Ég varð var við að það væri búið að koma upp, að ég hélt vinnuskúrum fyrir framan Skaftafell. Svo kemur í ljós að þetta á að vera einhverskonar hótel íbúðir,“ segir ljósmyndarinn Spessi.

„Þetta er hámark smekkleysunar. Hverslags omerkingar eru það sem veita leyfi fyrir þessum hroða í anddyri þjóðgarðsins?“ segir Hinrik Ólafsson leiðsögumaður á Facebook.

Rithöfundurinn Andri Snær Magnason, sem gaf nýlega út skáldsöguna Jötunstein, tengda skipulagsmálum, bendir á áhrifin á tilfinninguna um víðáttu í færslu á Facebook.

„Sérkennilegt að sjá fyrirtæki í ferðaþjónustu gjörsamlega blint á þau verðmæti sem það gerir út á.“
Andri Snær Magnason

„Arctic Adventures virðast standa fyrir þeirri fráleitu framkvæmd að setja heilt þorp af smekklausum gámahúsum á landamerkin við Skaftafell og gjörbreyta allri tilfinningu fyrir víðáttu og náttúru á svæðinu. Sérkennilegt að sjá fyrirtæki í ferðaþjónustu gjörsamlega blint á þau verðmæti sem það gerir út á.“

Hann segir ummæli bæjarstjóra Sveitarfélagsins Hornafjarðar um að húsin séu ekki tveggja hæða, í hefðbundnum skilningi, líklega vera ummæli ársins.

Sigurjón Andrésson hefur ekki svarað öðrum fyrirspurnum Heimildarinnar, meðal annars um hvernig samráði við Vatnajökulsþjóðgarð var háttað, sem kveðið var á um í deiliskipulagsgögnum, en þjóðgarðsvörður varaði við áhrifum húsanna á ásýnd svæðisins. 

Kjósa
45
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (6)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Guðjón Jensson skrifaði
    Hvernig geta tvær hæðir orðið að einni? Eru skipulagsyfirvöldin í Hornafirði með aðra skynjun á raunveruleikanum en venjulegt fólk?
    1
  • Arnar Guðmundsson skrifaði
    Gólfið í húsinu er greinilega mishátt á milli herbergja. Ég man eftir svona smið frá í gamladaga. Hann var ekki talinn vandvirkur.
    1
  • ÓJ
    Ólafur Jónsson skrifaði
    Vonandi eru handritshöfundar skaupsins að punkta hjá sér...
    4
  • Örn Bárður Jónsson skrifaði
    Þetta er ein hæð plús háð.
    4
  • SS
    Sigurbjörn Skarphéðinsson skrifaði
    Margar skrítnar skilgreiningar hefur maður séð á hæð og/eða hæðum húsa. Þessi slær þó öll met.
    Ef þessi mynd sem fylgir þessari grein er af raunverulegu útliti hússins er þetta tveggja hæða hús samkvæmt skilningi þeirra laga sem ég þekki til. Greinilega þarf stiga til að komast milli hæða.
    Ef húsið væri með venjulegu hallandi þaki þá væri kannski hægt að tala um svefnloft í "hefðbundnum skilningi". Fyrir utan það hvað útlitið hefði þá kallast betur á við fjöllin í kring. Þetta er eins og skrattinn úr sauðaleggnum.
    Afar sérkennilegt.
    10
  • Edda Ögmundsdóttir skrifaði
    Óhugnanleg sýn á þessar byggingar sem eru ótrúlega ljótar
    og ætti alls ekki að leyfa byggingar þarna. Mega þessi Ferðaþjónustufyrirtæki
    gera allt sem þeim sýnist ? Er Skaftafell ekki þjóðgarður ?
    8
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Ferðamannalandið Ísland

Ósnortin víðerni: „Sorglegt að við getum ekki hugsað lengra fram í tímann“
SkýringFerðamannalandið Ísland

Ósnort­in víð­erni: „Sorg­legt að við get­um ekki hugs­að lengra fram í tím­ann“

„Þetta er nátt­úr­lega bara fyr­ir ákveð­inn hóp og skemm­ir í leið­inni upp­lif­un hinna sem vildu njóta nátt­úr­unn­ar,“ seg­ir Svan­hvít Helga Jó­hanns­dótt­ir um fyr­ir­hug­að­ar fram­kvæmd­ir við Hof­fell­slón. Breyt­ing­ar við lón­ið, Skafta­fell og Von­ar­skarð hafa vak­ið upp sterk við­brögð og spurn­ing­ar um nátt­úru­vernd í og við UNESCO-svæði.
Baðstaður veldur klofningi í Önundarfirði
InnlentFerðamannalandið Ísland

Bað­stað­ur veld­ur klofn­ingi í Ön­und­ar­firði

Halla Signý Kristjáns­dótt­ir, fyrr­um þing­mað­ur, seg­ir bað­stað við Holts­fjöru munu hafa áhrif á fugla­líf og frið­sæld svæð­is­ins. Baðlón séu fal­leg en dýr: „Er það sem okk­ur vant­ar, alls stað­ar?“ Fram­kvæmdarað­ili seg­ir að bað­stað­ur­inn verði lít­ill og að til­lit hafi ver­ið tek­ið til at­huga­semda í um­sagn­ar­ferli.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu