Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður og ráðherra Samfylkingarinnar, fullyrðir að sagnfræðingurinn Stefán Pálsson sé vænlegur bjargvættur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem féll af þingi í síðustu kosningum og mælist enn utan þings.
„Stefán Pálsson er líklega skarpasti kutinn í ræflinum sem eftir er af skúffu VG. Hæfilega skrítinn, mælskari en andskotinn, krullhærður - sem er plús - og sérlega fimur í að verja vondan málstað,“ segir Össur.
Tilefnið er framkoma og frammistaða Stefáns í Silfrinu í kvöld, sem hann telur undirstrika mannkosti og kjörþokka umfram Svandísi Svavarsdóttur og Guðmund Inga Guðbrandsson, fyrrverandi ráðherra og eftirmenn Katrínar Jakobsdóttur.
„Þetta kom allt vel fram í Silfrinu í kvöld. Hann er maður að mínu skapi. VG þarf óvænta leiki til að lifa af og finna forystufólk með meiri kjörþokka en Svandís og Guðmundur Ingi sem bókstaflega slátruðu VG með ótrúlegum afleikjum á helspretti flokksins í blálok síðustu ríkisstjórnar. Bæði vilja þó leiða leifarnar í næstu kosningum,“ segir hann.

„Stefán yrði hins vegar óvænt útspil sem formannsefni og myndi kjafta VG gegnum múrinn. En hann er ekki í flokkseigendaklíkunni, VG er á hraðri leið fyrir endanlegan ætternisstapa og fyrir löngu búið að tapa tengslum við raunveruleikann. Líklegast er að Svandís verði klöppuð upp til að veita tætlunum sem eftir eru af VG síðustu nábjargirnar,“ segir Össur og bætir við af kerskni. „En enginn getur skammað mig fyrir að hafa ekki bent þeim á leið til lífs.“
Svandís Svavarsdóttir er nú formaður VG og Guðmundur Ingi Guðbrandsson varaformaður. Flokkurinn mælist enn utan þings, með aðeins 3,2% fylgi.
Stefán Pálsson er varaborgarfulltrúi VG. Hann var útskrifaður sagnfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1998. Þá lauk hann MSc-gráðu í vísinda- og tæknifræðum frá Edinborgarháskóla árið 2001.
Hann var formaður Samtaka hernaðarandstæðinga fá 2000 til 2015, var spurningahöfundur Gettu betur og leiðbeindi lengi við bjórskóla Ölgerðarinnar. Þá er hann þekktur stuðningsmaður Fram og Luton Town.











































Athugasemdir