Þrátt fyrir aukna þekkingu á áföllum barna og aukin réttindi barna í lögum og stefnumótun hefur leikskólinn á Flateyri haldist nánast ósýnilegur í opinberri umfjöllun um snjóflóðið 1995. Í fjölmiðlum, heimildaefni og minningargreinum er sjónum fyrst og fremst beint að björgunarstarfi, samfélagsáföllum, húsnæðistjóni og grunnskólanum. Leikskólastarfið er hins vegar ekki nefnt, nema í meistararitgerð undirritaðrar, þrátt fyrir að eitt leikskólabarn hafi látist og leikskólinn sjálfur hafi verið í jaðri flóðsins. Í ljósi þessa ósýnileika er mikilvægt að draga fram reynslu þeirra sem sinntu yngstu börnunum á þessum tíma. Hér færi ég því á blað reynslu mína frá Flateyri strax eftir snjóflóðið og vitnisburð minn um það hvernig yngstu börnin og umhverfi þeirra voru jaðarsett í aðgerðum og frásögnum hamfaranna.
Úr dagbók á Flateyri eftir snjóflóðin 1995
Það var fimmtudagurinn 26. október 1995. Við hjónin vorum á leið heim frá New York eftir fertugsafmælisferð, þakklát fyrir dvölina. Á sama tíma héldu Sameinuðu þjóðirnar upp á 50 ára afmæli sitt í borginni. Nokkrum dögum síðar, á flugvellinum í New York á heimleið, settumst við niður í rólegri biðstofu eftir annasama daga í borginni. Friðurinn entist þó stutt; flugi til Íslands var aflýst vegna veðurs. Við biðum eins og aðrir, þar á meðal forsætisráðherra, Davíð Oddsson, sem virtist hafa fengið alvarleg tíðindi.
Skömmu síðar bárust fréttirnar: snjóflóð hafði fallið á Flateyri og fólk farist. Þungur skuggi lagðist yfir hópinn og við fylgdumst með fréttaflutningi langt fram á kvöld. Ekki fyrr en um miðja nótt fengum við loks leyfi til að fljúga heim.
Skrefið til Flateyrar
Þegar við loks stigum út úr flugvélinni á Íslandi tóku börnin okkar á móti okkur með fögnuði. Heimkoman var ljúf, en utan heimilis ríkir djúp sorg; snjóflóðið á Flateyri hafði tekið mörg líf. Við fylgdumst með fréttum og harmi þjóðarinnar og fundum fyrir samkennd með þeim sem misstu ástvini.
Sunnudaginn 29. október er ég enn þreytt eftir ferðalagið og hafði ákveðið að vera í fríi komandi viku. Þá er haft samband við mig og spurt hvort Félag leikskólakennara, sem ég veitti forystu, gæti aðstoðað við að finna fólk í starfið. Hópur fólks hafði fundað um mikilvægi þess að koma skólastarfi sem fyrst aftur af stað á Flateyri. Skipulagið fyrir grunnskólann var klárt, kennarar tilbúnir, en svo hefðu þau allt í einu munað eftir leikskólanum. Þar væri staðan gjörólík: ekkert af starfsfólkinu treysti sér til að snúa aftur til starfa að svo stöddu og þau væru í stökustu vandræðum með að manna hann. Úr varð að Unnur Jónsdóttir og ég færum, og síðar bættist Þröstur Brynjarsson við.
Leikskóli í miðri sorg
Mánudaginn 30. október, aðeins fjórum dögum eftir heimkomuna frá New York, sat ég aftur í flugvél, nú á leið inn í miðjan harmleikinn á Flateyri. Unnur sat við hliðina á mér og þó við vissum lítið um hvað beið okkar, vissum við þetta:
-
eitt leikskólabarn hafði farist,
-
snjóflóðið stöðvaðist rétt við dyr leikskólans,
-
og þar sem leikskólinn var á hættusvæði yrði honum komið fyrir í nýju húsnæði sem við þyrftum að útbúa fyrir leikskólastarf.
Við lentum á Ísafirði og héldum áfram til Flateyrar, snjórinn lá þykkur yfir þorpinu. Nýi leikskólinn átti að vera í gömlu gulu íbúðarhúsi sem síðar varð að verbúð. Neðri hæðin yrði leikskóli.
Leikskólastjórinn tók á móti okkur stuttlega áður en hún hélt suður. Hún fór yfir helstu upplýsingar um börnin og barnið sem lést. Svo stóðum við eftir tvær í ókunnugu húsi með mikla ábyrgð.
Við óðum snjóinn að gamla leikskólanum og sáum hversu naumlega húsið hafði sloppið; flóðið hafði stöðvast rétt við dyrnar. Við hófum flutninga á smærra dóti yfir í verbúðina; gangandi fram og til baka í þungum snjó, á meðan stærri hlutir voru keyrðir.
Þegar kvölda tók vorum við þreyttar og úrvinda. En starfið beið: að breyta gamalli verbúð í lítinn leikskóla í miðri sorg.
Verbúð verður leikskóli
Ég vakna við ókunnugt birtustig og rifja smám saman upp hvar ég er. Við Unnur höfum aðeins einn dag til að koma öllu í stand áður en börnin mæta. Við hefjumst handa við að skapa hlýlegt og öruggt rými. Þrjú herbergi verða leikherbergi, auk eldhúss og baðherbergis. Við röðum húsgögnum, hengjum upp myndir og setjum leikföng á sinn stað. Hlutirnir eru úr gamla leikskólanum, þó umhverfið sé allt annað.
Seinnipartinn förum við í göngutúr. Snjórinn liggur þykkur yfir öllu; sum hús eru horfin undir fönn, úr öðrum standa brotnar sperrur og brak uppúr snjónum. Götur eru varla færar og fólk gengur hægt um með skóflur og prik. Allt í kringum okkur eru merki um missi og eyðileggingu, líkt og eftir stríð, snjóflóðið hafði verið „herinn“ sem gekk þar yfir.
Síðar heyrum við að áfallateymi frá Landspítalanum sé komið í þorpið og hafi sett upp fjöldahjálparstöð við Kamb. Við förum þó ekki þangað, enginn hefur kallað okkur til og við vitum ekki hvort við eigum erindi. Skólasálfræðingur kemur þó, nokkrum sinnum og ræðir við okkur, þótt honum sé ekki ætlað að sinna leikskólastiginu sérstaklega. Það er engu að síður gott að finna fyrir einhverjum stuðningi.
Börnin mæta í leikskólann
Nýr dagur rann upp og með honum það verkefni að taka á móti börnunum í leikskóla sem var bæði ókunnugur og nýr. Leikskólinn sem þau þekktu var þeim horfinn; nú voru þau í öðru húsi, með ókunnugum kennurum. Við reyndum að skapa ró og öryggi þó við vissum ekki hvernig dagurinn myndi þróast.
Ekki mættu öll börnin fyrsta daginn, sem reyndist hjálplegt. Þau sem komu þurftu tíma til að kynnast okkur og nýju umhverfi. Þrátt fyrir allt var gleði yfir því að hitta vini sína aftur.
Að ráðleggingu skólasálfræðingsins létum við eigur barnsins sem lést vera áfram sýnilegar - inniskóna, peysuna og myndverk þess. Þetta hjálpaði börnunum að halda í minningu vinar síns, þó það væri fullorðnum oft þyngra að horfa á.
Leikurinn tók fljótlega á sig myndir áfalls. Stundum léku börnin flótta undan snjóflóði. Við heyrðum til dæmis þegar eitt barn kallaði upp úr þurru: „Drífið ykkur í stígvél og snjógalla!“ Þá spruttu hin upp, léku að þau klæddu sig í og flýðu síðan úr einu herbergi yfir í annað. Þau voru að endurupplifa það sem hafði gerst, á þann hátt unnu þau úr áfallinu.
Sum barnanna sýndu afneitun. Eitt þeirra talaði aldrei um flóðið og virtist ekki viðurkenna að neitt væri að, jafnvel þótt það færi daglega fram hjá hrundum húsum. Það var ekki fyrr en í samtali við leikfélaga að afneitunin kom skýrt í ljós, þegar umræðan barst að barninu sem lést í flóðinu, talaði það eins og vinur þeirra væri enn á lífi.
Barn A: „XXX er dáinn.“
Barn B: „Nei!“
Barn A: „Jú, víst er hann dáinn.“
Barn B: „Nei, hann er ekki dáinn.“
Barn A: „Jú, víst!“ (horfir á leikskólakennarann) „Er það ekki?“
Leikskólakennari: „Jú, XXX er dáinn.“
Barn A: „Já, hann dó í snjóflóðinu.“
Barnið tjáði sig ekki meira um atburðinn fyrr en átta mánuðum síðar, þegar leikskólinn flutti aftur í gamla húsnæðið. Þá bað það um að kennari skrifaði bréf frá sér til barnsins sem dó.
Sum börn sýndu einnig reiði, sem birtist í orðum eins og:
Barn: „Ég hata þessa snjóflóðahættu, tökum hana, fljúgum og hendum henni út í sjó.“
---
Barn: „Ég skal höggva snjóflóðið í tætlur.“
Leikskólakennari: „Hvers vegna?“
Barn: „Ég geri bara allt sumar. Ég geri bara við öll húsin.“
Dagurinn var aðeins fyrsta skrefið í löngu ferli. Við vissum ekki hvað biði, en hlutverk okkar var ljóst: að halda leikskólanum gangandi og skapa rými þar sem börnin gátu leikið sér og unnið úr sorginni á sínum forsendum.
Leitin að þekkingu um áfallahjálp fyrir börn
Þegar ég spurði skólasálfræðinginn hvort hann hefði lesefni um áföll barna, kvaðst hann ekki þekkja neitt slíkt. Þá hófst mín eigin leit. Ég hafði samband við kollega á hinum Norðurlöndunum, fékk leyfi til að hringja til útlanda og sendi fax frá Ísafirði til að afla upplýsinga.
Norrænu kollegarnir bentu mér á prestinn Stig Jonsson, sem skrifað hafði bók um áfallahjálp eftir rútuslys í Noregi árið 1988, þar sem 16 manns létust, þar af 12 börn. Bókin sem hann skrifaði ásamt Annika Hagström, heitir En bro över mörka vatten og fjallar um áhrif stórslysa á samfélög.
Ég sendi honum fax og hringdi og fékk skjót svör. Hann faxaði til mín nokkrar síður og sendi síðan bókina sjálfa með pósti, með beiðni um að ég skilaði henni þegar notkun minni væri lokið, sem ég og gerði.
Að vinna með ótta barnanna
Á foreldrafundi kom fram að eitt barnanna hafði sagt: „Þegar þessir björgunarsveitarmenn fara, þá verður allt gott aftur.“ Þessi orð sýndu hversu ólík upplifun barna og fullorðinna var. Hundruð björgunarsveitarmanna voru í litla þorpinu, einkennisklæddir og oft í hópum. Fyrir barnið gátu þeir litið meira út eins og innrás en björgun, ógn sem þyrfti að hverfa svo lífið gæti orðið eðlilegt á ný.
Við ræddum hvernig mætti vinna með þennan ótta og ákváðum að fá björgunarsveitarmann í heimsókn í fullum búnaði. Hann kom daginn eftir; börnin spurðu spurninga og hlustuðu, og við sáum viðhorfið breytast. Strax seinna sama dag, þegar barn sem áður hafði verið hve hræddast mætti björgunarsveitarbíl í gönguferð, sagði það ákveðið: „Nei, við þurfum ekkert að vera hrædd. Þetta er björgunarsveitarbíll. Hann er svo góður. Hann passar okkur áreiðanlega.“
Kvöldið 2. nóvember
Það er myrkur og aðeins eitt ljós í einu húsi sjáanlegt í þorpinu. Flestir íbúar hafa farið suður til Reykjavíkur þar sem 15 manns verða jarðaðir næstu daga. Þorpið er autt og þögult. Við Unnur erum þó hér enn, því tvö börn munu koma í leikskólann á morgun og við verðum að vera til staðar. Við erum þreyttar, bæði á líkama og sál; erum búnar að vera í fjóra daga sem er eins og fjórir mánuðir. Farið er að snjóa og hvessa mjög, hrollur fer um mig. Ég lít á Unni og segi: „Ef eitthvað gerist í nótt, þá veit enginn að það sé einhver sem sefur hér í þessu húsi.“ Þannig leið mér: eins og við værum ósýnilegar. Við héldum leikskólanum opnum, en enginn virtist vita af okkur, ekki ráðamenn og ekki áfallateymið. Og þegar fólkið fór suður, fóru áfallateymin líka. Þau komu ekki aftur. Þegar allir snéru heim úr jarðarförunum yrði ekkert áfallateymi til staðar fyrir samfélagið, sumir að koma í fyrsta sinn aftur eftir flóðið. Það þótti mér óskiljanlegt og ófyrirgefanlegt.
Fundur með ráðherra
Þann 6. nóvember þurfti ég að fara til Reykjavíkur til að halda erindi á ráðstefnu. Ég var úrvinda, þegar ég settist um borð í flugvélina á Ísafirði og horfði út á skýin langaði mig að leggjast á þau og hvíla mig og faðma fjölskyldu mína. Á ráðstefnunni sat ég á fremsta bekk, ásamt Birni Bjarnasyni menntamálaráðherra, bæði þreytt og djúpt uggandi yfir stöðunni á Flateyri.
Ég sneri mér að honum og sagði: „Ég þarf að fá fund með þér sem fyrst varðandi Flateyri.“ Eftir stutta umhugsun svaraði hann: „Geturðu komið klukkan eitt?“
Ég yfirgaf ráðstefnuna eftir fyrirlesturinn minn og fór beint á fund ráðherrans. Þar sagði ég honum umbúðalaust að margt þyrfti að laga: að ráðuneytin yrðu að vinna saman, að áfallateymi Landspítalans þyrfti að vinna mun nánar með skólum og samfélagi og að leikskólinn væri algjörlega gleymdur í aðgerðum.
Ég hafði þá verið nánast samfleytt í tíu daga á Flateyri, á meðan einstaklingarnir úr áfallateyminu máttu ekki vera lengur en fjóra daga í senn, þar sem lengra tímabil þótti of mikið álag á hvern og einn. Sjálf fann ég hvað þessi dvöl var djúpstæð; það tók mig nærri tvö ár að jafna mig eftir hana.
Kerfislæg ábyrgð og ósýnileiki yngstu barnanna – sama mynstrið endurtekur sig 30 árum síðar
Reynslan af fyrstu dögunum á Flateyri eftir snjóflóðið 1995 varpar ljósi á hvernig yngstu börnin voru ekki skilgreind sem forgangshópur í opinberum neyðaraðgerðum. Að leikskólinn gleymdist í skipulagi sveitarfélags og ríkis, sýnir að hann var ekki talinn hluti af grunnstoðum samfélags sem þyrfti að verja og endurreisa samhliða öðrum stofnunum Áfallateymið sem sent var á vettvang hafði ekki umboð til að sinna leikskólabörnum og leikskólastarfið fékk hvorki sambærilega athygli né faglegan stuðning og aðrir þættir í samfélaginu. Þetta endurspeglar viðhorf þess tíma, þar sem leikskólar voru ekki metnir sem fullgildar menntastofnanir og yngstu börnin ekki talin hafa sértækar og brýnar þarfir í kjölfar hamfara.
Þrátt fyrir að leikskólabörn á Flateyri hafi upplifað hamfarir, misst leikfélaga og orðið daglega vitni að hrundum húsum og eftirmálum snjóflóðsins, var sértækur stuðningur við þau takmarkaður eða nánast ekki til staðar. Leikskólinn sem samkvæmt fræðilegum viðmiðum getur veitt öryggi, rútínu og tækifæri til úrvinnslu áfalls, var settur til hliðar í opinberu skipulagi og faglegri forgangsröðun.
Svipað mynstur birtist enn í dag, þrjátíu árum síðar. Í opinberri frásögn og miðlum um snjóflóðið 1995 eru leikskólinn og yngstu börnin enn nánast ósýnileg. Þrátt fyrir umfangsmikla umfjöllun um björgunaraðgerðir, samfélagsáföll og starf grunnskólans er leikskólastarfið vart nefnt eins og fyrr segir. Þessi fjarvera leikskólans úr minningasögu hamfaranna sýnir að rödd og reynsla yngstu barnanna hafa enn ekki fengið rými í opinberri umfjöllun.
Viðvarandi ósýnileiki yngstu barnanna bendir til rótgróins kerfislægs viðhorfs þar sem þau njóta hvorki sambærilegrar athygli né verndar og eldri börn eða fullorðnir í tengslum við hamfarir. Þegar hamfarir eru rammaðar inn sem samfélagsleg reynsla gleymast oft þeir hópar sem hafa minnstu röddina en mestu þörfina fyrir stuðning, viðurkenningu og vernd. Leikskólabörn eru meðal þessara hópa og reynslan af Flateyri sýnir á skýran hátt hvernig þau geta orðið ósýnileg bæði í ákvarðanatöku stjórnvalda og í sameiginlegri frásögn samfélagsins af hamförum, atriði sem hefur einnig fengið nýja birtingarmynd í samtímanum, til dæmis í umræðu og aðgerðum vegna eldgosanna í Grindavík.














































Athugasemdir