Miðflokkurinn bætir enn við sig fylgi í nýjum Þjóðarpúlsi Gallups og er kominn í 19,5%, eftir að hafa mælst með 16,3% fyrir mánuði síðan. Flokkurinn hefur aldrei mælst eins sterkur í könnuninni.
Fyrir tæplega tveimur vikum vakti athygli þegar Miðflokkurinn náði 17,3% í könnun Maskínu, sem er meira en áður hafði mælst.
Hægri flokkar næðu meirihluta þingmanna
Sjálfstæðisflokurinn mælist nú með 16,5% fylgi og Viðreisn 12,8% fylgi. Samtals eru hægri flokkarnir þrír með 48,8% fylgi og 34 þingmenn, en það dugar fyrir meirihluta á Alþingi.
Samfylkingin mælist þó enn sterk, nú með 31,1% fylgi, en aðrir vinstri flokkar eru veikir.
Píratar, Vinstri græn og Sósíalistaflokkur Íslands mælast ekki inni á þingi, ekki frekar en í síðustu kosningum.
Frá kosningum hefur Flokkur fólksins misst mest fylgi. Flokkurinn fékk 13,8% í síðustu kosningum fyrir ári en mælist nú með aðeins 5,2% fylgi.
Viðreisn hefur misst 3 prósentustiga fylgi frá kosningum.
Þjóðarpúls Gallups hefur enn ekki verið birtur á vef Gallups, en Ríkisútvarpið er með samning um frumbirtingu niðurstaðna Þjóðarpúlsins. Þar kemur fram að alls hafi fylgi Samfylkingar og Miðflokksins aukist um 18 prósentustig frá kosningum.
Könnun Gallups var gerð frá 3. til 30. nóvember.












































Athugasemdir