Morgunblaðið og ráðuneytið í harðri deilu út frá ólíkum gögnum

Mennta- og barna­mála­ráðu­neyt­ið og Morg­un­blað­ið tak­ast á. Ráðu­neyt­ið hef­ur sak­að fjöl­mið­il­inn um „vís­vit­andi“ rang­an frétta­flutn­ing en mið­ill­inn hef­ur set­ið fast við sinn keip.

Morgunblaðið og ráðuneytið í harðri deilu út frá ólíkum gögnum
Farið yfir gögn Guðmundur Ingi Kristinsson ráðherra ásamt Ágústi Ólafi Ágústssyni, aðstoðarmanni sínum, á Alþingi á mánudag, sama dag og umdeild yfirlýsing var send frá ráðuneyti hans. Mynd: Golli

Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, og Morgunblaðið, hafa skipst á opinberum ávítunum síðustu daga vegna umræðu og umfjallana um vímuefnanotkun barna.

Nýjasta vendingin í málinu er að Morgunblaðið birtir aðra frétt í dag þar sem kemur fram að gagnrýni ráðherrans um „léleg og villandi vinnubrögð“ sé röng og „standist ekkert af því skoðun“.

Málið á sér lengri sögu en sprakk út eftir tilkynningu á vef Stjórnarráðs Íslands frá ráðuneyti Guðmundar Inga.

Ásökunum vísvitandi rangar og villandi upplýsingar

Í fyrradag sendi mennta og barnamálaráðuneytið frá sér tilkynningu þar sem fréttaflutningur Morgunblaðsins um Guðmund Inga var gagnrýndur. Sagðist ráðuneytið líta málið alvarlegum augum og telja „miðilinn vera af þeim sökum vísvitandi að veita rangar og villandi upplýsingar“. 

Í frétt mbl.is þremur dögum fyrr var vitnað í orð sem Guðmundur Ingi lét falla á Alþingi sama dag um að ekki væru merki um aukna vímuefnaneyslu barna á árunum 2023-25. 

Í fréttinni var sagt að fullyrðing ráðherra gengi í berhögg við skýrslu Barna- og fjölskyldustofu um samanburð á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónustu árin 2022-24. Í þeirri skýrslu er tekið fram að tilkynningum um neyslu barna á vímuefnum og öðrum skaðlegum efnum árin 2023-2024 hefði fjölgað um 60 prósent. 

Það sem Guðmundur Ingi vísaði í máli sínu til stuðnings voru þó önnur gögn, Íslenska æskulýðsrannsóknin. Í henni kemur fram, líkt og ráðherra sagði, að unglingadrykkja virðist ekki vera að aukast. Ekki var minnst á þessa heimild ráðherrans í frétt Morgunblaðsins.

Ráðherra vísaði í önnur gögn en mbl.is

Morgunblaðið vísar til eins mælikvarða, tilkynninga til barnaverndar, til að leiða að því líkur að neysla barna á vímuefnum hafi aukist á síðustu árum. Guðmundur Ingi til annars, Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar. Ráðuneytinu og Morgunblaðinu ber svo ekki saman um það hvorum mælikvarðanum sé frekar mark á takandi til að mæla hvort aukning hafi orðið í vímuefnaneyslu ungmenna. Ráðuneytið gengur svo langt að fullyrða að sín heimild spegli raunveruleikann að fullu, að það sé „rangt á grundvelli fyrirliggjandi gagna“ að vímuefnaneysla barna hafi aukist.

Íslenska æskulýðsrannsóknin er, samkvæmt mennta- og barnamálaráðuneytinu, ítarlegasta rannsóknin sem framkvæmd er á vímuefnaneyslu ungmenna hérlendis. Bendir ráðuneytið á í tilkynningu að tölfræðin um tilkynningar til barnaverndar séu ekki tölfræði um almenna vímuefnaneyslu ungmenna.

„Mikilvægt er að rangfærslur um svo stórt samfélagsmál séu leiðréttar til varnar upplýsingaóreiðu og ef hnekkja á tölfræði, að bera þá saman tölfræði um sama hlutinn. Fjöldi tilkynninga til barnaverndar er ekki mælikvarði fyrir almenna vímuefnaneyslu ungmenna heldur tölfræði yfir fjölda alvarlegustu málanna sem upp koma vegna fíknivanda ungmenna og ber að tilkynna,“ segir ráðuneytið.

Er þar haldið fram að ekki sé hægt að vita hvort aukningin í tilkynningum til barnaverndar sé vegna vitundarvakningar um tilkynningaskyldu eða aukningar á fjölda mála. „Það er hins vegar ekki mælikvarði á almennri neyslu ungmenna á vímuefnum og ekki það sem var til umræðu.“

Er Íslenska æskulýðsrannsóknin lýsandi?

Bæði Morgunblaðið og ráðuneytið greina því rétt frá heimildum sínum, en deilan snýr þá að umfjöllun beggja aðila hvor um annan og svo áreiðanleika eða réttmæti heimildanna, það er að segja hvort álykta megi um raunveruleikann út frá annarri heimildinni frekar en hinni.

Í svari sínu við viðbrögðum ráðuneytisins sagði mbl.is að hvergi í skýrslu Barna- og fjölskyldustofu kæmi fram að aðeins alvarlegustu tilfellin væru tilkynnt. „Enda um að ræða fjölgun allra tilkynninga um vímuefnaneyslu barna. Getur ráðuneytið því ekki fullyrt að þetta eigi aðeins við um alvarlegustu tilfellin.“

Þá hefur einnig verið bent á það að það gæti verið að ungmenni í áhættuhópi séu ólíklegri til að hafa svarað spurningalistum Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar. Þó má gera ráð fyrir að það gildi jafnt um fyrri svör og þau nýrri, þannig að þróun greinist engu að síður með réttmætum hætti.

Á Facebook-síðu rannsóknarinnar birtist þó í gær færsla þar sem þessum efasemdum í hennar garð var svarað.

Þar sagði að vissulega væri könnun lögð fyrir grunnskólabörn á skólatíma líklegri til að vanmeta frekar en ofmeta algengi áfengisneyslu og annarrar áhættuhegðunar. „Þar sem hópurinn sem helst sýnir áhættuhegðun er líklegri til að vera fjarverandi á fyrirlagnardegi. Þetta er vel þekkt skekkja í spurningalistakönnunum á borð við ÍÆ.“

Þetta hefði þó ekki þannig áhrif að veruleg aukning í áhættuhegðun yfir tíma væri dulin. „Til þess þyrfti skekkjan að vera að breytast mikið og hratt yfir tíma. Veruleg aukning í áfengisnotkun eða annarri vímuefnanotkun meðal barna á unglingastigi myndi koma skýrt fram í niðurstöðum grunnskólakönnunar ÍÆ.“

Ásakanir um ósannindi

Í ræðu sinni á Alþingi á fimmtudag um stöðu barna, sem Morgunblaðið fjallaði um undir fyrirsögninni „Ráðherra segir fréttirnar ekki sannar“, byrjaði Guðmundur Ingi á því að vitna til Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar og vitnaði þar áður til nýrra gagna um vímuefnanotkun barna. Ræðan er um 650 orð. Í upphafi hennar setur hann fyrirvara um að tilkynningum til barnaverndar hafi fjölgað almennt, en undir lok hennar segir hann: „Ekki eru merki um aukna neyslu á árunum 2023–2025, þvert á ýmsar fréttir.“

Því má túlka orð ráðherrans þannig að hann vísi til tiltekinna gagna, en hafni áreiðanleika þess að byggja á fjölda barnaverndartilkynninga, um leið og hann telur spurningakönnun áreiðanlega. Í yfirlýsingu hans síðar meir kemur skýrt fram að hann hafni því að vímuefnaneysla hafi aukist. Morgunblaðið lítur hins vegar fram hjá niðurstöðum Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar í frétt sinni um að ráðherrann segi fréttirnar „ekki sannar“

Þrátt fyrir staðhæfingu ráðuneytisins um að Morgunblaðið hafi „gefið til kynna“ að ráðherrann „hafi sagt ósatt“, er ljóst að ekki kemur fram í frétt Morgunblaðsins að ráðherrann hafi „sagt ósatt“, þótt afneitun hans á fyrri fréttum sé stillt fram af Morgunblaðinu án tilvísunar í heimild ráðherrans sem gengur gegn annarri heimild blaðsins.

Sömuleiðis vitnar ráðherra ekki til heimildar Morgunblaðsins þegar hann gefur út yfirlýsingu sem fjallar þó um vinnubrögð miðilsins.

Ráðuneytið sakar Morgunblaðið um að „vísvitandi veita rangar og villandi upplýsingar“, en engar sannanir eru fyrir þeirri ásökun eða ásetningi, aðrar en útlistaðar fyrri umfjallanir blaðsins um ráðherrann sem hann telur ósanngjarnar. Þá er ljóst að Morgunblaðið veitti ekki beinlínis „rangar upplýsingar“ en láðist að nefna ástæður ráðherrans til að varpa efasemdum á að fréttir endurspegli raunveruleikann, eða að raunveruleikinn sé „þvert á ýmsar fréttir“.

Út frá því geta frásagnir beggja aðila flokkast sem villandi eða ósanngjarnar út frá einstökum atriðum, en í hnotskurn vitna aðilarnir til mismunandi heimilda og undanskilja eftir atvikum heimildir hins aðilans í opinberu orðaskaki sínu.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Missti heilsuna eftir alvarleg andleg veikindi yngri systur sinnar
5
Viðtal

Missti heils­una eft­ir al­var­leg and­leg veik­indi yngri syst­ur sinn­ar

Gísella Hann­es­dótt­ir fékk tauga­áfall og missti heils­una í sum­ar í kjöl­far sjálfs­vígstilraun­ar yngri syst­ur sinn­ar. Hún upp­lif­ir að að­stand­end­ur sjúk­linga með al­var­leg geð­ræn veik­indi fái ekki næg­an stuðn­ing í heil­brigðis­kerf­inu. „Það er kannski einn fjöl­skyldu­með­lim­ur sem er veik­ur en all­ir í fjöl­skyld­unni fara í hyl­dýp­ið með þeim,“ seg­ir hún.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Týndu strákarnir – sem fundu leiðina heim
2
ÚttektTýndu strákarnir

Týndu strák­arn­ir – sem fundu leið­ina heim

Á átján ára af­mæl­is­dag­inn vakn­aði Fann­ar Freyr Har­alds­son á neyð­ar­vist­un og fékk lang­þráð frelsi eft­ir að hafa þvælst í gegn­um með­ferð­ar­kerfi rík­is­ins. Hann, Gabrí­el Máni Jóns­son og Arn­ar Smári Lárus­son lýsa reynslu sinni af kerf­inu sem átti að grípa þá sem börn og ung­ling­ar. Tveir þeirra byrj­uðu að sprauta sig í með­ferð, samt sam­mæl­ast þeir um að þessi inn­grip séu lík­leg­asta ástæð­an fyr­ir því að þeir lifðu af. Ekk­ert lang­tíma­úr­ræði er fyr­ir stráka sem stend­ur.
„Eiginmaður minn hefur aldrei átt eignarhlut í Skeljungi“
3
Stjórnmál

„Eig­in­mað­ur minn hef­ur aldrei átt eign­ar­hlut í Skelj­ungi“

Hild­ur Björns­dótt­ir, odd­viti Sjálf­stæð­is­flokks í borg­ar­stjórn, fjall­aði ít­rek­að um samn­inga sem vörð­uðu lóð­ir bens­ín­stöðva þrátt fyr­ir að eig­in­mað­ur henn­ar stýrði móð­ur­fé­lagi Skelj­ungs. Lóð­ir bens­ín­stöðva Skelj­ungs hafa síð­an ver­ið seld­ar til tengdra fé­laga fyr­ir vel á ann­an millj­arð króna. Hún seg­ir hæfi sitt aldrei hafa kom­ið til álita.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár