Þrátt fyrir að vera stærsti flokkurinn á landsvísu hafa danskir stjórnmálaskýringar lýst sveitastjórnarkosningunum sem katastrófu fyrir Jafnaðarmannaflokk Mette Frederiksen. Stuðningur við flokkinn dróst saman um meira en fimm prósent frá því árið 2021.
Jafnaðarmenn bjuggust við að tapa fylgi miðað við síðustu sveitarstjórnarkosningar en snemma í gærkvöldi viðurkenndi formaður flokksins og forsætisráðherra, Mette Frederiksen, að útlitið virtist vera verra en búist hafði verið við.
Nú í morgunsárið er ljóst að Jafnaðarmenn töpuðu fylgi í 87 af 98 sveitarfélögum.
Kaupmannahöfn var vígi sem Jafnaðarmenn höfðu haldið í meira en 100 ár og átt yfirborgarstjóra allar götur síðan 1938, þegar það embætti var fyrst skipað. Flokkurinn missti einnig völd í Gladsaxe, Næstved, Holstebro, Køge og Fredericia – fimm sveitarfélögum sem lengi hafa verið talin sterk vígi Jafnaðarmanna.
Hvergi var fylgistapið þó meira en í Frederikshavn, þar sem Jafnaðarmenn töpuðu meira en 31 prósent fylgi frá síðustu kosningum.
Hægri flokkurinn Venstre hefur í nótt staðið í ströngu við myndun meirihluta víða um land og hefur þegar tryggt sér borgar- og bæjarstjóraembætti í 39 sveitarfélögum, þrátt fyrir að hafa tapað fylgi í kosningunum. Flokkurinn er því í leiðtogastöðu í fleiri sveitarfélögum en nokkur annar flokkur.
Jafnaðarmenn hafa hins vegar náð að semja sig í 26 stóla, sem er langt frá þeim 44 sem flokkurinn hafði síðasta kjörtímabilið.
Enn er óljóst hver verður yfirborgarstjóri í Kaupmannahöfn. Einingalistinn hlaut rúm 22 prósent, Sósíalíski þjóðarflokkurinn tæp 18 og Jafnaðarmenn 12,7 prósent. Bæði Einingarlistinn og Jafnaðarmenn töpuðu fylgi á milli kosninga en vinstri flokkarnir héldu þó meirihluta borgarfulltrúa.














































Athugasemdir