Samkvæmt dómi sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær þarf Jónsi Björnsson að greiða fyrrverandi viðskiptafélaga sínum 250.000 krónur í miskabætur fyrir að hafa haldið því fram í ummælum á Facebook að hún hefði falsað undirritun sína.
Við mat miskabótanna var „litið til útbreiðslu ummælanna sem stefnandi birti á Facebook-síðu sinni á spænsku og merkti þar spænskumælandi einstaklinga sem munu vera búsettir hérlendis,“ að því er segir í dómnum.
Viðskiptafélaginn fyrrverandi, Tamila Gámez Garcell, hafði stefnt Jónsa fyrir talsvert fleiri ummæli sem hún vildi að yrðu dæmd dauð og ómerk en hún hélt því fram að þau fælu í sér stórfelldar ærumeiðingar og aðdróttanir. Þar á meðal voru Facebook-færsla, ummæli á miðlinum og smáskilaboð sem hann hafði sent eiginmanni hennar sumarið 2023.
Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að flest ummælanna hefðu þó rúmast innan tjáningarfrelsis Jónsa og var því ekki fallist á ómerkingu þeirra. Þá var Tamilu gert að greiða Jónsa 900 þúsund krónur í málskostnað.
Ráku saman veitingastað
Jónsi og Tamila höfðu ásamt þriðja aðila staðið að rekstri veitingastaðarins PK2 á Laugarvegi. Áttu þau í deilum um reksturinn og síðar um söluna á rekstrinum.
Eftir sölu PK2 stofnaði Tamila annan veitingastað, en í tengslum við það ritaði Jónsi stöðufærslu á Facebook þar sem hann sagði Tamilu hafa stolið og svikið í rekstri PK2 og hafnaði því að hann stæði með henni að opnun nýja staðarins.
„Þessi einstaklingur sem sagðist vera vinkona mín og starfsfélagi, hefur, á meðan ég fór í ferðalag um helgina, selt staðinn, stolið frá mér fjármunum og falsað undirritun mína, á meðal margra annarra hluta sem ég er viss um að munu koma fram í dagsljósið,“ skrifaði Jónsi í ummæli undir færsluna.
Upprunalegu ummælin voru rituð á spænsku og er hér íslensk þýðing þeirra eins og þau koma fram í dómnum.
Þá sendi Jónsi eiginmanni Tamilu smáskilaboð þar sem hann sagði hana ljúga að honum, að hann ætlaði að stefna henni fyrir svik og skattundanskot og að eiginmaðurinn ætti að vita af nokkurm persónulegum og viðkvæmum málefnum. Tamila hélt því fram að smáskilaboðin hefðu smánað hana og bakað henni og fjölskyldu hennar mikinn skaða, en dómurinn féllst ekki á ómerkingu þeirra.













































Athugasemdir