Lokkandi, einnota rafrettur og nikótínpúðar með sælgætisbragði eru meðal nýrra vara sem beint er að ungu fólki og ýta undir nýja bylgju tóbaks- og nikótínfíknar, varaði Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) við í dag.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, sagði við opnun alþjóðlegrar ráðstefnu um tóbaksvarnir að hann harmaði að sífellt fleiri börn laðist að nýju vörunum.
„Skólar eru nýja víglínan í stríðinu gegn tóbaki og nikótíni, þar sem fyrirtæki eru virk í að laða til sín heilar kynslóðir fíkla,“ varaði hann við.
Í skýrslu WHO sem gefin var út í síðasta mánuði er áætlað að nærri 15 milljónir unglinga á heimsvísu noti nú rafrettur, sagði hann á 11. fundi aðildarríkja rammasamnings WHO um tóbaksvarnir (FCTC).
Tedros fagnaði þeim mikla árangri sem náðst hefur á síðustu áratugum í að sporna við þessum banvæna ávana, þótt enn sé áætlað að meira en átta milljónir manna á heimsvísu deyi árlega af völdum tóbakstengdra sjúkdóma.
Síðustu 20 ár „hefur tóbaksneysla meðal ungs fólks minnkað um þriðjung á heimsvísu,“ sagði hann og bætti við að það hefði hvatt „tóbaksframleiðendur til að þróa nýjar vörur til að laða að nýja viðskiptavini.“
Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna varpar fram efasemdum um markaðssetningu tóbaksiðnaðarins á veipvörum og öðrum nýjum vörum sem öruggari valkostum við hefðbundnar tóbaksvörur og sem hjálpartæki til að hætta að reykja.
„Engar sannanir eru fyrir nettóávinningi þeirra fyrir lýðheilsu og sífellt fleiri vísbendingar eru um skaðsemi þeirra,“ sagði Tedros og harmaði að slíkar vörur séu notaðar til að laða ungt fólk að reykingum.
Nýleg skýrsla WHO, benti hann á, sýndi að „í 63 löndum þar sem gögn eru tiltæk er algengi veipnotkunar meðal unglinga að meðaltali níu sinnum hærra en meðal fullorðinna.“
„Tökum það skýrt fram, fyrirtækin sem framleiða þessar vörur eru ekki knúin áfram af skaðaminnkun eða lýðheilsu. Þau eru knúin áfram af einu og aðeins einu, gríðarlegum hagnaði fyrir hluthafa sína.“
Yfirmaður WHO sagði að stofnun hans skoraði á öll lönd að setja reglur um nikótínpúða, rafrettur og upphitað tóbak „að minnsta kosti jafn strangt og þau setja reglur um hefðbundnar tóbaksvörur.“
Hann fagnaði því að nokkur lönd hefðu alfarið bannað slíkar vörur og lagði áherslu á að „þau sem ekki hafa gert það ættu að beita ströngu eftirliti með bragðefnum, umbúðum, markaðssetningu og söluaðferðum til að verjast áhrifum iðnaðarins og framfylgja aldurstakmörkunum.“
Eins og Heimildin greindi frá í síðasta mánuði hefur heildarhagnaður helstu verslana sem selja nikótínpúða og tengdar vörur numið 1,8 milljarði króna frá því að tóbakslausar nikótínvörur fóru að ryðja sér til rúms hér á landi. Á síðasta ári nam hagnaður umsvifamestu sérverslanna meira en hálfum milljarði króna. Nú eru meira en þriðjungur Íslendinga undir þrítugu neytendur nikótíns.
















































Athugasemdir