Forstjóri og stjórnarmenn HS Orku hf birtu í visir.is 31. október sl. varnarskrif vegna greinar minnar í Heimildin 3. og 10. október sl. HS Orka og lífeyrissjóðirnir. Að þeirra sögn á ég að hafa sakað eigendur HS Orku um félagaflækjur og óheiðarleika og vegið að öllum þeim sem eru í forsvari fyrir félagið. Þeir sem lesa grein mína opnum augum sjá að slíkt er orðum aukið. Í henni eru eigendur HS Orku ekki vændir um óheiðarleika og orð þeirrar merkingar er ekki í henni að finna.
Félagaflækjan
Vissulega greini ég frá skaðlegum skattalegum afleiðingum ráðstafana félagsins og eins nefni ég tengsl HS Orku hf, HS Orku Holding hf, Jarðvarma samlagshlutafélags 14 lífeyrissjóða og erlends fjárfestingasjóðs, félagaflækju. Grein mín fjallar ekki eingöngu og ekki aðallega um meinta skattasniðgöngu HS Orku heldur um aðkomu þessara félaga og íslensku lífeyrissjóðanna að málinu. Ég þóttist vita að lesendur greinar minnar væru ekki allir í aðstöðu til að átta sig á því hverjir ákváðu lánveitinguna til HS Orku og reyndi því að draga upp mynd af tengslum félaganna og lýsa ferli ákvarðana allt frá lántakanum, HS Orku hf, í gegnum HS Orku Holding hf, síðan Jarðvarma slhf, og að lokum til lífeyrissjóðanna og stjórna þeirra sem eru hinir raunverulegu lánveitendur. Spurningum um ákvarðanir og ábyrgð sem þar er velt upp er enn ósvarað.
Skattasniðganga
Í þessu ferli er HS Orku vissulega ætluð skattasniðganga með því að taka lán hjá eigendum sínum og draga frá skattskyldum tekjum vexti sem eru langtum hærri en gengur og gerist milli ótengdra aðila. Réttmæti þessarar ályktunar eru augljóst. Löng saga er af því bæði hér á landi og annars staðar að erlendir fjárfestar beiti þessari aðferð til að komast hjá því að greiða skatt af hagnað sem þeir hafa af starfsemi sinni. OECD hefur lengi reynt að aðstoða ríki við að berjast gegn þessu. ESB hefur takmarkaða möguleika til afskipta af skattamálum aðildarríkjanna en hefur samt sett reglugerð með tillögum um aðgerðir sem beita má gegn skattasniðgöngu og eru tilhæfulausar vaxtagreiðslur efstar á því blaði.
Þetta eina álitamál greinar minnar sem snýr að HS Orku afgreiða talsmenn félagsins með því einu að lánið hafi verið „metið á markaðskjörum sambærilegra lána af óháðum alþjóðlegum sérfræðingum“. Hvaða markaður það er, hvað sé sambærilegt og hvaða sérfræðingar mátu er ekki tekið fram. Enginn efnislegur rökstuðningur kemur fram og eftir stendur óútskýrt hvers vegna lán eigendanna sé með meira en tvöfalt hærri vexti en t.d. bankalán HS Orku sem er nærtækt dæmi um lán milli ótengdra aðila. HS Orka greinir nú frá því að eigendalánið hafi verið tekið til að kosta 12,5 mrd. kr. fjárfestingu að 40/100 á móti bankaláni. Það sýnir fáránleika vaxtanna að á líftíma eigendalánsins mun HS Orka greiða eigendunum sínum 13 mrd. kr. í vexti, þ.e. meira en sem nemur öllum kostnaði við fjárfestinguna.
Í stað þess að svara efnislega leika talsmenn félagsins píslarvotta og reyna auk þess að drepa umræðunni á dreif með tali um fjárfestingaafrek þess. Þau viðbrögð eru tilefni til varnaðarorða um einkaeignarhald, einkum erlendra aðila, á orkuverum og framsal á rétti til nýtingar á náttúruauðlindum landsins til þeirra.
Þjóðhagslegt gildi orkuvera
Orkuframleiðsla er mikilvæg fyrir landið en þegar kemur að mati á þjóðhagslegum áhrifum hennar eru álitamálin mörg einkum þegar um erlenda fjárfesta er að ræða. Í fyrsta lagi má ganga út frá því að hjá þeim muni gróðavilji ráða ferðinni en ekki umhyggja um þjóðarhag eins og dæmi HS Orku sýnir svo glöggt.
Í öðru lagi skiptir máli hvernig aukin orka er notuð. Sé þörf fyrir hana á almennum orkumarkaði, svo sem vegna orkuskipta heimila og fyrirtækja eða framleiðslu t.d. ylræktar, bætir þjóðarhag en orka sem seld er fyrirtækjum í erlendri eign með litla atvinnustarfsemi eykur þjóðartekjur lítið, einkum ef þau greiða ekki skatt af hagnaði sínum hérlendis,.
Í þriðja lagi þarf að hafa í huga að hagnaður af orkuvinnslu er ekki eingöngu arður af fjárfestingu í orkuframleiðslu. Fái hinn erlendi fjárfestir nær endurgjaldalausan aðgang að náttúruauðlindum landsins er hagnaður hans að stórum hluta arður af auðlind þjóðarinnar sem einnig er fluttur úr landi.
Talsmenn Orku hf láta liggja að því að gera rannsókn á fjárfestingum félagsins í samanburði við aðra hér á landi. Væri vel að af því yrði. Í þeirri rannsókn ætti m.a. að gera samanburð á þjóðhagslegu gildi orkuvers í eigu erlends aðila sem flytur allan hagnaðinn úr landi annars vegar og hins vegar Landsvirkjunar og/eða Orku náttúrunnar sem greiða skatt og úthluta arði til eigenda sinna, ríkis eða sveitarfélaga.
Spurning Þuru í Garði
Í máli HS Orku birtast þau afglöp síðustu áratuga að setja orkuvinnslu og aðra nýtingu náttúruauðlinda í hendur erlendra aðila. Augljós reynsla flestra fyrrum nýlendna af arðráni herraþjóðanna á náttúruauðlindum í löndunum þeirra nægði ekki til að forða okkur frá þeim mistökum. Tími er kominn til að við áttum okkur á því að við þurfum ekki lengur að haga okkur eins og ómagar á framfæri erlendrar auðhyggjuafla en getum sjálf nýtt auðlindir okkar þjóðinni til hagsbóta.
Skáldkonan Þura í Garði var þekkt meðal okkar, sem sóttu MA á sjötta áratug síðustu aldar. Henni er eignað síðara vísuorð þessarar stöku: Oft hafa svalað sárum þorsta / súr og freðin krækiber / en er þér sama hvað þau kosta / og hver þau tínir handa þér? Við þurfum að svara Þuru.
Höfundur er hagfræðingur, fyrrum ríkisskattstjóri, stúdent frá MA og félagi í Reykjavíkur Akademíunni















































Athugasemdir